Húsfyllir á aðalfundi - og svo til Jemen í nótt

AÐALFUNDUR Vima var haldinn nú síðdegis í Kornhlöðunni og var húsfyllir, um sextíu manns og er öldungis til eftirbreytni hvað VIMA félagar eru ötulir að sækja fundi.

Birna Karlsdóttir var skipuð fundarstjóri og JK flutti skýrslu stjórnar. Drap á verkefni ársins, sem voru margvísleg, útgáfa fréttabréfs hófst, fundir voru vel sóttir, efnt var til árshátíðar, Maher Hafez boðið til Íslands með samvinnu þakklátra Sýrlandsfara og Jemenverkefnið komst í gang þar sem við styrkjum nú 55 stúlkur í nám og höfum einnig greitt laun kennara og fleira.
Þá má ekki gleyma ferðalögunum en frá síðasta aðalfundi hafa tveir nýir áfangastaðir bæst við, Óman í febrúar og Íran í mars. Sýrlands/Jórdaníuferð í apríl og svo heldur enn eitt úrvalsliðið til Jemen/Jórdaníu n.k. nótt.
Auk þess að skemmta okkur þar vonandi konunglega verð ég með peningaupphæð til YERO til kaupa á kennslutækjum eða saumavélum og smálegu og ótal kveðjur frá "styrktarforeldrunum" til sinna stúlkna.

Guðlaug Pétursd kynnti reikninga félagsins og lagði til að við legðum 30 þúsund af því sem er í sjóði í Jemenverkefnið og 30 þúsund í Líbanonverkefnið og mæltist það vel fyrir.

Stjórnarkjör fór fram a la sovet.
Formaður Jóhanna Kristjónsdóttir
Varaform Edda Ragnarsdóttir
Gjaldkeri Guðlaug Pétursdóttir
Ritari Ragnheiður Gyða Jónsdóttir
Varamaður Herdís Kristjánsdóttir

Endurskoðendur Inga Ingimundardóttir og Gunnþór Kristjánsson.

Að loknum aðalfundarstörfum var svo komin röðin að Elham S Tehrani frá Íran sem talaði um land sitt og þjóð, vakti athygli á neikvæðri umfjöllun um Íran í fjölmiðlum sem væri ekki í neinu samræmi við veruleikann og einnig sagði hún frá sér og fjölskyldu sinni og sýndi myndir. Að erindi hennar loknu var beint til hennar ýmsum spurningum.

Ekki þarf að taka fram að menn fengu sér kaffi og gúffuðu í sig tertum og spjölluðu og skröfuðu.
Margir gerðu upp félagsgjöld og ýmsir nýir gengu í félagið.
Síðan sleit Birna fundi um kl. 4 og allir trítluðu glaðir út í sólskinið og birtuna og vonandi bara ljónhressir með fundinn.

Svo er sem sagt mæting Jemen/Jórdaníuhóps kl. hálf sex í fyrramálið í Keflavík. Allir hlakka til og ég hvet ykkur til að fylgjast með síðunni og alltaf er notalegt að fá kveðjur.