Hugleiðing um peninga, hugarflug og fleira spaklegt

Mín vænu
Fyrir kemur að ég heyri frá fólki sem hefur hug á að fara í ferðir johannatravel en finnst þær of dýrar. Þetta heyri ég á hinn bóginn aldrei eftir ferðirnar og bendir það vissulega til að menn telji sig fá töluvert fyrir snúðinn sinn.

Ein ástæðan býst ég við að sé sú, að ég kynni ferðirnar öðruvísi en ferðaskrifstofur. Hjá okkur er miklu meira innifalið og í stað þess að auglýsta
hundódýra ferð þar sem ekkert er reiknað inn nema í mesta lagi flugfar og gisting er allt talið inn í. Svo sem allar skoðunarferðir, aðgangseyrir á sögustaði, áritanir og allir skattar, oftast máltíðir að nokkru eða öllu leyti svo nokkuð sé nefnt.

Nýlega auglýsti t.d. ein gagnmerk ferðaskrifstofa vikuferð til Egyptalands, þar sem einmitt nákvæmlega þetta var reiknað inn í og síðan var allt sem við átti að éta aukalega greitt og þegar ég hafði lagt saman og dregið frá(það var reyndar fátt) reyndist ferðin vera meira en tvöfalt dýrari en hún var kynnt í upphafi.

Þessi aðferð finnst mér vera plat og vil ekki nota þessi vinnubrögð. Þau eru ekki ærleg að mínu viti. Það er langtum betra að fólk viti nokkurn veginn pottþétt hvað það fær og að sem allra minnstur aukakostnaður verði. Nema náttúrlega fyrir sérstökum útgjöldum og innkaupum.

Mig langar til að biðja ykkur að láta þennan pistil ganga og þá helst til þeirra sem hafa ekki farið í ferðirnar en ég hef grun um að margir vilji kynna sér þær en viti ekki svo gjörla hvar upplýsinga skal leita.

Það skal svo ítrekað að þó að enn sé tími til stefnu verð ég senn að heyra frá þeim sem hafa hug á ferðum ársins 2007. Þær eru
Óman í febrúar.
Íran í mars
Jemen/Jórdanía um páska 2007.
Sýrland að hausti 2007.

Ferð til Armeníu, Georgíu og Azerbajdan hangir enn í lausu lofti því ég kemst varla til að kanna það með rannsóknarleiðangri fyrr en eftir Íranferðina í haust.

Vona að flestir Jemenstúlknastyrktarmenn fái í dag eða á morgun upplýsingar um stúlkurnar sínar.

Loks má taka fram að það væri hugsanlegt að þrýsta einum kvenþátttakanda inn í Íranferðina í september því eina sérlega elskulega frú vantar traustan og góðan herbergisfélaga.

Sem sagt hver láti ganga til amk. þriggja. Þá mun öllum vel farnast og lukkan leika við hvern sinn fingur.