Hverjir eru ötulastir ferðalanga?

Góðan daginn og takk fyrir viðbrögð við pistlinum í gær.
Meðan ég er að jafna mig á fráhvarfseinkennum að vera ekki á leið í ferð eftir tíu daga og undirbý bara myndakvöld, nokkra fyrirlestra og sendi kvittanir til Íransfara sem eru duglegir að borga hef ég unnið vísindalega könnun á því hvaða stjörnumerki eru iðnust við að fara í ferðir.
Miðað er við allar ferðir frá september 2003 og að meðtalinni Íransferðinni í haust lítur listinn svona út.

1. Krabbar (talsverðir yfirburðir)
2. Hrútar
3. Tvíburar
4. Fiskar
5. Vatnsberar
6. Bogmenn
7. Steingeitur
8.-9 Sporðdrekar og naut
10. Ljón
11. Jómfrúr
12.Vogir

Man ekki svo gjörla hvernig listinn leit út síðast en vogir sitja í neðsta sæti því jómfrúin hefur tekið sig stórum á en mættu gera betur. Vatnsberar hafa líka bætt sig talsvert.

Myndakvöld Sýrlandsfara
Vantar enn fáein svör frá Sýrlandsförum um þátttöku í myndakvöldi þann 6.júní en sendi bréf í gær og þá kom góður kippur og allt jákvætt. Þetta var mjög fínn hópur og ég vonast sem sagt til að flestir mæti. Endurtek að ykkur er velkomið að taka með gesti en væri gott að vita um það fyrirfram þar sem ég þarf að láta vita fjöldann svona sirkabát.

Bók í burðarliðnum
Get trúað ykkur fyrir því að auk þeirra ótal bóka sem Jemen/Jórdaníufarar hafa í smíðum úr síðustu ferð ætla ég svo að nota tímann í sumar til að skrifa litla bók - insjallah auðvitað- um ferðir á Miðausturlandaslóðir.
Hef látið mér detta í hug að það gæti verið svona hvort tveggja í senn persónuleg upplifunarbók og upplýsingar um svæðið og ekki síst alls konar praktískar ráðleggingar sem gætu komið að gagni. Hef þegar lagt að þessu létt drög og vonast náttúrlega eftir ljúfum og góðum undirtektum þegar og ef ég lýk þessu. Ætla ekki að flýta mér svo þetta verður ekki JÓLABÓKIN í ár, altso.