Hvernig væri að kaupa lýsi? - og svo eru komnir fánar handa YERO

Blessaðan verklýðsdaginn.

Það hafa verið nokkrar umræður um það hvað við getum fært stelpunum okkar í Jemen og mér líst vel á hugmyndina um að kaupa slatta af lýsistöflum og færa YERO miðstöðinni sem getur þá jafnframt séð um að krakkarnir taki þetta reglulega.
Vilji menn leggja þessari lýsishugmynd lið væri ráð að leggja smáupphæð inn á FATIMUSJÓÐINN 1151 15 551130 og svo geri ég innkaup áður en farið er á sunnudaginn. Verið með! Hvet ykkur eindregið.

Tveir Sýrlands/Jórdaníufarar nú í apríl, þau Margrét Kolka Haraldsdóttir og Þórhallur Þorvaldsson komu færandi hendi til mín í gær með íslenska fána og þá hef ég sömuleiðis hugsað mér að taka með og afhenda þeim í Sanaa. Kærar þakkir fyrir.

Áðan var hjá mér íranska stúlkan Elham Sadegh Tehrani sem mun tala um "íranska drauma" á aðalfundinum n.k. laugardag í Kornhlöðunni. Hún er glöð að fá tækifæri til að leiðrétta margar ranghugmyndir sem menn hafa um land hennar og þjóð og ég vænti þess að mönnum þyki að því fengur að hlýða á hana.

Mun senda fréttatilkynningu á blöðin á morgun og bið ykkur endilega að taka með nýja og áhugasama félaga um Miðausturlönd til að hlýða á hana, svo og annað það sem á boðstólum er á aðalfundinum. Sendum út slatta af fundarboðum til þeirra sem hafa ekki imeil en treystum á að langflestir fylgist með sínum pósti.
Minni ykkur svo enn á að koma til mín myndum. Vantar enn nokkrar og leiðinlegt að sumar af okkar stúlkum eigi ekki myndir af velgerðarfólki sínu.