Jemen/Jórdaníufarar komnir til fósturjarðarinnar - orðsending væntanleg til Sýrlandskappanna

Kl. er að ganga 3 aðfararnóttt fimmtudags og við Jemen/Jórdaníufarar eru komnir heim og allir heilir og vel haldnir og lukka mikil með ferðina.

Aðeins seinkunn í London til Keflavíkur en allt gekk bærilega og við kvöddumst með blíðuhótum og Helga Kristjánsdóttir hefur boðið hópnum til myndakvölds fyrir eða eftir miðjan júní. Óttumst aðeins að fá létt fráhvarfseinkenni næstu daga að vera ekki alltaf saman og geta einlægt ráðfært sig um alls konar léttvæga þætti en munum þá hringjast á meðan það gengur yfir.

Í gær vorum við í leti og lúxuslífi á Marriott við Dauðahafið til hádegis en þá kom Khader bílstjóri, - sætur maður og fínn bílstjóri - og Ibrahim taltregi gæd og við fórum upp á Nebofjall. Þar var óvenju gott skyggni svo við skynjuðum návist Mósesar þegar hann horfði þaðan yfir til fyrirheitna landsins. Skoðuðum fallegar mósaíkmyndir í bænum Madaba ( sem þýðir vatn plús vín) og heimsóttum vinnustofu og verslun þar sem þroskaheftir vinna hinar mestu gersemar. Gerðum þar dýr og góð kaup. Rúntuðum aðeins um Amman þegar þangað kom og í gærkvöldi borðaði Stefanía ræðismaður Khalifeh með okkur og það var mjög skemmtilegt. Kom í ljós að hún og Ólafur S. höfðu ekki bara verið samtíða í skóla heldur rifjuðu þau upp sameiginlegar sveitaminningar.
Lena hafði hitt Stefaníu þegar hún var í Jórdaníu á kennarareisu fyrir sex árum og þetta var hið besta kvöld og síðan gengið snemma til náða.

Ferðin í dag gekk auðvitað að óskum og Royal Jordanian hefur fengið kássu af prikum hjá íslenskum ferðalöngum.

Til Sýrlandsfaranna í apríl
Þá er rétt að taka fram að jafnskjótt og ég hef náð sálinni heim og sett mig inn í þjóðmálin mun ég vinda mér í að ákveða myndakvöld Sýrlandsfaranna í apríl. Gæti ímyndað mér að það yrði kringum 6.júní, eða svo en bið ykkur endilega að fylgjast með síðunni.

Íransfarar í sept. athugið einnig
að senn fæ ég upplýsingar þaðan um hvenær hentast væri að hittast til að fylla saman út vegabréfsumsóknir. Þá skulu allir hafa tvær nýjar passamyndir og nauðsynlegt er að konur beri slæður á þeim myndum. Tvö stykki takk fyrir.

Þakkir til Jemen/Jórdaníuhóps
Að svo mæltu þakka ég hópnum til Jemen og Jórdaníu fyrir einstaklega skemmtilega og vandræðalausa ferð.