Einlægt bið ég fólk að hafa samband- og það ber oft árangur, hamdulillah. Athugið að nokkrar myndir eru komnar í Íranlýsingu og Ómanáætlun

Hæ öll

Var að fá imeil frá þeim í Azerbajdan og Georgíu sem ég hef beðið um að senda mér áætlun. Svo barst hún síðla kvölds og mér þótti hún harla girnileg.

Armeníu hef ég heimsótt og veit svona nokkurn veginn hvað okkur mundi hugnast þar en til Azerbajdan og Georgíu hyggst ég fara í október n.k , það er eftir Íranferð, til að renna yfir áætlun.
Sýnist sem flugið gæti orðið nokkuð dýrt og ef við tökum löndin þrjú, sem sagt Armeníu, Georgíu og Azerdajdan mundi það kosta slatta en engan veginn óviðráðanlegt.

Það er samt út í hött að hugsa um þessa ferð fyrr en ég hef farið og rannsakað málið. Hvarflar ekki að mér að halda þangað með VIMA hóp nema vita nokkurn veginn hvað er á boðstólum. En trúlega tekst mér að setja áætlun inn um Kákasuslöndin áður en mjög langt um líður, líklega um 10.júlí. Kannski ekki með fullkomnu og réttu verði en svona hér um bil. Verið samviskusöm og fylgist með því.

Listaverk frá Íran
barst mér í dag. Hossein vinurinn úr teppabúðinni í Esfahan hafði sagt mér að hann fengist við að gera teikningar og hann langaði þessi ósköp að senda mér sýnishorn af því sem hann væri að stússa við.
Þetta tók ég sem kurteisishjal en fékk í dag mynd frá honum sem ég mun nú ramma inn og setja til prýðis upp á vegg hér á Drafnó. Hann er himinlifandi yfir því að annar íslenskur hópur er væntanlegur í september og lofar afslætti á afslátt ofan fyrir þá sem taka þátt í ferðinni. Gott til þess að vita og marsflokkur gæti þar af leiðandi gert því skóna að þá vænkaðist enn hagurinn.

Þá er þess til ánægju að geta að Pezhman Azizi verður með okkur í sept ferð og einnig í mars 2007. Hann er öndvegis leiðsögumaður og ég er afar glöð yfir því að hann fylgir okkur.

Hvað segja menn um Libyu???? Gjörsovel og skrifa í ábendingar.
Veit vel að góður kjarni traustra hefur myndast í VIMA ferðum og dundaði við það í kvöld eftir góðan slúðurfund með "áskrifendunum" Dagbjörtu og Söru að kanna Libyu ferð árið 2008 og gast að því sem ég sá.
Eftir að Gaddafi sá þann kost vænstan að sættast við Bandaríkjamenn -sem er náttúrlega spurning hvort er jákvætt eða neikvætt- ætla ég að afla mér gagnmerkra upplýsinga um hvort ferð til Libyu kann að vera fýsilegur kostur.

Það verður sjálfsagt einhver bið á að svar berist enda hugsa ég þessa ferð ef af kynni að verða- og læt mér detta í hug 4 daga í Túnis eða Marokkó í bakaleið - sem verkefni til framtíðar.

Fundur í ágúst mánuði miðjum
um það sem gæti verið á dagskránni á árunum 2007 og 2008. Þá vona ég að sem flestir mæti og tjái vilja sinn. En ekki skyldi því gleymt að ferðir ársins 2007 eru afar girnilegar og ég þarf að heyra frá ykkur um þær sérdeilis fljótt.+

Ég bið ekki síst Óman og Íranfara að staðfesta eindreginn vilja. Eins og ég sagði er Royal Jordanian flugfélagið að verða fullt og vel það í kringum páska 2007.