Ferðalangar til Írans hittast í næstu viku - saumamaskínumál og smálegt

Sælir séu nú allir á þessum 13.degi júnímánaðar.

Ferðalangarnir sem halda til Íran í september munu hittast í næstu viku til þess að fylla út vegabréfsumsóknir og ég hef þegar sent þeim bréf þess efnis og vona að allir sjái sér fært að mæta. Þessar umsóknir eru ekki sérlega flóknar en það er betra að gera þetta í sameiningu svo enginn lendi í kuðli út af þessum skriffinnskumálum.

Ég hef tekið eftir því að samkvæmt talningu á Íranssíðunni hafa á sjötta hundrað manns samtals farið inn á síðuna og það er hið fegursta mál. Bendi áhugasömum marsförum til Írans að þeir verða að láta til sín heyra.

Varðandi páskaferðina til Jemens/Jórdaníu
sem hefur ekki fengið endanlega dagsetningu, er líka aðkallandi að Jemen/Jórdaníufarar sem hafa ekki látið til sín heyra, geri það, hátt og snjallt því Royal Jordanian flugfélagið sem við notum á þeirri leið er að verða fullt á þessum árstíma.
Okkur er gjarnt að vilja bara stökkva á síðustu stundu en menn skyldu hafa í huga að þessi lönd sem VIMA félagar sækja heim, kalla öll á ákveðinn undirbúning og hann töluverðan.

Sama máli gegnir um Óman og það má ekki dragast að menn tjái sig. Auk þess eru ákveðin vandkvæði hvað snertir ódýrasta flugið þangað og ég get ekki tryggt það ef menn hika of lengi.

Verð á saumamaskínum
í Jemen. Nefndi í pistli nýlega að kannski gætum við aðstoðað YERO varðandi saumavélakaup handa stóru stúlkunum okkar. Nouria Nagi hefur tjáð mér að góðar saumavélar þar kosti um 250 dollara. Það skyldum við hafa bak við eyrað því við þurfum endilega að hjálpa þeim svo sem flestar stúlknanna geti eignast eigin vélar eftir námskeiðið. Því lýkur ekki fyrr en í desember svo tíminn er nægur.
Þá hefur Nouria einnig sagt mér að það væri afar heppilegt ef við sendum greiðslur fyrir "litlu" stelpurnar okkar um miðjan ágúst. Zontaklúbburinn Sunna mun sjá um greiðslu beint en að öðru leyti fer ágætlega á að við sendum þetta og ég vona sum sé að allir haldi tryggð við sínar stúlkur. En það liggur ekki á að borga 200 dollarana - sem er sama upphæð og í fyrrasumar- fyrr en um miðjan ágúst.

Látum þetta duga í bili. Tæknistjórinn er kominn frá útlöndum og ætlar að gera smábreytingar á nokkrum hluta síðunnar á næstunni. Vonandi fljótlega.