Ég hef verið að pæla í hinu og þessu

Góðan daginn
Íransfarar í september hittust á mánudag og fylltu út umsóknir vegna áritunar. Svo þarf ég fljótlega að senda vegabréfin út til íranska sendiráðsins í Noregi og það má reikna með að menn verði vegabréfslausir í 2-3 vikur. ALLT kom þetta fram á plöggum um ferðina. Það er hægt að fá bráðabirgðavegabréf ef mikið liggur við. Athuga það.
Það var nett og létt stemning og menn fengu sér sýrlenskar kökur og jemenskar döðlur og skrafað um fatnað og farið yfir áætlun og fleira. Nokkrir eiga enn eftir að senda mér ljósrit af fyrstu síðum í vegabréfi. Gjörsovel og draga það ekki. Þarf að fá þetta sem fyrst.
Minni svo menn á að næsta greiðsla er 1.júlí. Vinsamlegast borga á réttum degi því ég þarf að senda greiðslur jafnóðum.

Jemen/Jórdanía um næstu páska að fyllast
Mér til óblandinnar gleði er góð aðsókn í páskaferðina til Jemen/Jórdaníu um næstu páska. Það verður að staðfesta þátttöku - ýmsir hafa gert það og þurfa ekki að endurtaka það og ég veit t.d. að María V. og Aðalbjörg láta mig vita jafnskjótt og þær geta. Aðrir sem ég hef ekki heyrt í nokkuð lengi ættu að hafa samband og það fyrr en seinna.

Íranferðin í mars á góðu róli
Þriðja Íransferðin er svo í mars, að líkindum 1.-17. mars eða þar um bil. Hún virðist ætla að pluma sig en endilega látið vita. Það má bæta í hana. Verð hækkar ekki eftir því sem ég best veit.

Og aldrei klikkar Sýrland
Þar sem mönnum þykir einatt sem ég reki of mikið á eftir og vilji svör með löngum fyrirvara er skemmtilegt að menn eru þegar farnir að skrá sig í Sýrlandsferðina haustið 2007. Sýrland virðist alltaf standa fyrir sínu. Gott mál og fagurt í hvívetna

Vangaveltur um peninga eða tíma eða eitthvað Stundum veltir maður ýmsu fyrir sér í sambandi við þessi ferðalög okkar VIMA félaga. Svo sem því að mér er hulin gáta af hverju menn þeysa ekki til Óman í febrúar. Fyrst hún er á dagskrá. Að vísu hef ég fengið frest og aflýsi ferðinni ekki að svo stöddu. Menn vita ekki hvers þeir fara á mis ef þeir láta Óman framhjá sér fara.

Stundum hef ég líka velt fyrir mér og raunar sett upp í skema hvort það sé verðið sem fólk setur fyrir sig. Trúi því naumast ef menn athuga hvað mikið er innifalið. Auk þess er Óman dýrara land en önnur sem við sækjum heim.

Það væri ud for sig hægur vandi að búa til eitthvert dæmi þar sem ferðin kostaði nánast ekki neitt en svo kæmust menn snarlega á snoðir um það að þeir þyrftu einlægt að vera að taka upp budduna, borga fyrir ferðir, borga aðgangseyri, borga fyrir þetta og endalaust hitt og á endanum væri ferðin orðin amk 70% dýrari. Og þá mundi varla ríkja kátína í bæ.
Mér hefur fundist fólk einmitt vera einkar dúst við að ljúka greiðslum á sem allra flestu - nema drykkjum, tipsi og stundum áritunum- og geta síðan bara notið ferðarinnar í ró og mag. ÞAð væri fróðlegt að heyra álit ykkar og mættuð raunar vera duglegri að skrifa inn á ábendingadálkinn.