Góð tíðindi varðandi Óman - dagsetningar komnar á Jemen

Mikið er gaman að sjá sólina aftur hér í Reykjavík. Maður lyftist af fögnuði og ekki dregur úr ánægjunni að ég hef hér nokkrar góðar fréttir:

Dagsetningar eru klárar á Jemen/Jórdaníuferðina 2007, 27.mars-12.apríl. Þeir sem þegar hafa skráð sig athugi það og einnig geta nokkrir vitaskuld bæst við. Hafa samband, kærurnar mínar. Það er það sem gildir.

Varðandi Óman þá hefur ferðaforstjórinn í Múskat ekki bara gefið mér vikufrest. Heldur fram í miðjan ágúst. Við töluðum saman í gær og mér tókst að sannfæra hann undur blíðlega en af fullri einurð um að það væri upp og ofan hvað fólk gæti ákveðið sig langt fram í tímann og nauðsynlegt að veita því tilfinningalegt (svo maður vitni nú í fyrirmenn) og ekki síður praktískt svigrúm til að ákveða sig.
Það breytir því samt ekki að auðvitað er gott að heyra frá ykkur sem getið sagt til um þetta fyrr en síðar.
Mér fyndist verulegur skaði ef Ómanferðin félli út því farþegarnir í fyrstu ferðinni voru svo dæmalaust ánægðir og Óman er undursamlegt silkiland.

Seinna í dag hittast svo Íranfarar septembers til að fylla út vegabréfsumsóknirnar og þar mæta allir.

Jemen/Jórdaníuferðalangar sl. maí munu halda myndakvöld fyrstu dagana í júlí.

Svo þetta er allt í stíl við veðrið.
Mér þætti vænt um ef hver vildi senda síðuna til svona þriggja eða fjögurra. Við verðum að breiða út upplýsingar á þann eina hátt sem unnt er fyrir utan náttúrlega vona ég - jákvæðar og glaðbeittar umsagnir.