Hamslaus kæti, saumavélar og flóttamannabúðir

Góða kvöldið
Er einstaklega kát yfir því að tölvan mín hefur tekið til starfa á ný og mun náttúrlega óspart láta til mín heyra eins og venjulega.

Í dag sendum við í VIMA stjórn þær 30 þúsund sem samþykktar voru á aðalfundi til verkefnisins okkar í Sjabra og Sjatilla flóttamannabúðunum við Beirut í Líbanon. Það kemur ugglaust að notum við framkvæmd verkefnisins sem við styrkjum þar.

Eins og þeir "styrktarforeldrar" hafa tekið eftir sem hafa fengið bréf um sínar fullorðnu stúlkur stendur til að YERO færi þeim saumavélar þegar og ef þær ljúka námskeiðinu sínu um næstu áramót. Bað Nouriu Nagi að segja mér hvað verð er á slíkum maskínum í Jemen og finnst tilvalið að Fatimusjóður taki einhvern þátt í því. Með ykkar hjálp náttúrlega, elskurnar allar. Það liggur ekkert lífið á en væri gaman að hjálpa til við það þegar þar að kemur og þetta verður stúlkunum örugglega hvatning til dáða.

Vegna smámisskilnings vil ég endurtaka enn og aftur að þegar menn borga inn á ferðir skulu þeir leggja inn á ferðareikninginn 1151-15-550908.

Svo bið ég Íransfara í september að setja sig senn í stellingar varðandi passamyndir, tvær.
Allir leggi fram nýjar myndir. Munið að konur skulu bera slæður á myndunum, það má ekki klikka. Læt vita upp úr 20. júní hvenær við hittumst svo til að fylla út umsóknir því ég þarf að senda vegabréf og umsóknir út ekki síðar en um næstu mánaðamót.

Að gefnu tilefni skal líka tekið fram að nú bæti ég ekki við í þá ferð því eftir að ég hafði greint frá því að mögulegt væri að bæta einni konu við gaf sig fram áhugasöm dama.

Aftur á móti ættu Íransfarar sem hugsa sér til hreyfings í mars að gefa frá sér kvak. Það á einnig við um Ómanferðina í febrúar.
Sé ekki betur en páskaferðin til Jemens/Jórdaníu sé langt komin að fyllast ef þeir sem hafa skráð sig ákveða að fara en um að gera að liggja ekki á áhuga sínum. Ekki skyldi svo gleymt Sýrlandsferðinni í september 2007.
Eins og ég hef margsinnis sagt er góður fyrirvari í allar ferðir bráðnauðsynlegur.