Kvikmynd um Sýrlands/Jórdaníuferð - orðsending v/ Kákasuslanda

Góðan daginn
Tölvan mín skilar sér vonandi í dag og ég mun hefja snöfurleg skrif. Vildi aðeins geta um að Sýrlands/Jórdaníufarar í apríl hittust í gærkvöldi á Litlu Brekku og áttu ljúfa og skemmtilega stund. Borðuðum saman og horfðum á hálftíma mynd sem hinn snjalli Högni Eyjólfsson hafði gert um ferðina okkar og fékk hún mikið lof viðstaddra og á Högni heiður skilinn fyrir þetta framtak.

Einnig voru sýnar fleiri fínar myndir, m.a eftir Veru Illugadóttur og Svein Haraldsson og nokkrir komu með myndir á pappír og mæltist þetta prýðilega fyrir og var til fyrirmyndar í alla staði.

Efa ekki að þessi hópur verður duglegur að hittast og ekki síður mæta á fundi hjá VIMA og taka þátt í félagsstarfi.

Til áhugasamra um Kákasuslandaferðina

Verð að láta það koma fram að ferðin til Armenínu, Georgíu og Azerbadjan tefst. Hún verður ekki á dagskrá í maí 2007.
Of mikil vinna er óunnin til að ég telji vitlegt að fara hana að sinni.
Þó eru nú loks að koma tilboð en á eftir að athuga þau og fara í rannsóknarleiðangur til að búa til endanlega áætlun svo ég mundi slá á að hún biði altjent hálft ár og trúlega lengur.

Það ætti varla að skaða að ráði, nóg af ferðum í boði 2007. Ég þarf að biðja fólk að gera upp hug sinn á næstu vikum.
VIMA stefnir að fundi um ferðirnar eigi síðar en um miðjan ágúst og þá þurfa upplýsingar frá ykkur mörgum að liggja fyrir. Greiðslur inn á þær hefjast líka 1.september n.k.

BIÐ YKKUR LENGSTRA ORÐA AÐ GERA VIÐVART. Er komin með drjúgan lista ákveðinna og þeir þurfa ekki að ítreka það. Verið svo væn að láta upplýsingar um ferðir ganga því þetta er eina leiðin til að koma á framfæri upplýsingum um reisurnar. Guðlaug Pé gjaldkeri er að útvega nýja kennitölu og reikningsnúmer á ferðalögin en þær upplýsingar mun ég senda vel og rækilega til allra þegar þar að kemur.