Íran og Óman - VIMA býður það sem aðrir gera ekki - til aukins fróðleiks og upplýsinga

Áríðandi orðsending: Var að fá upphringingu frá ferðaskrifstofunni sem sér um VIMAfélaga í Óman. Vegna þess hve hótelpláss er takmarkað í þvísa landi er óskað eftir að staðfest verði fyrr en ella hverjir vilja slást í þá för. Það er því mikilvægt að menn hafi samband nánast um hæl.
Skal tekið fram að þeir sem hafa staðfest við mig þurfa ekki að endurtaka pöntun. Bið þó Maríu Árnadóttur og Þóru Kristínu að láta mig vita hvort þeirra áhugi er enn fyrir hendi.
Vinsamlegast látið þetta berast.


Í gærkvöldi gerði ég ýmsar breytingar og viðbætur á línkum hér á síðunni; bætti inn á flugfélög, hótel og væntanlegar ferðir.
Sömuleiðis lagfærði ég Jemen/Jórdaníuferðina og uppfærði hana, ásamt með Óman og Íran svo þar ættu að vera nýjustu upplýsingarnar.
Hvet ykkur til að rannsaka það.
Egyptalandsferðin er óbreytt að sinni og fáar fyrirspurnir hafa borist um hana svo ég veit ekki hvort af henni verður enda eru ferðaskrifstofurnar alltaf öðru hverju með ferðir þangað og ekki vil ég fara inn á þeirra verksvið.

Sýrlandsferðinni hef ég ekki breytt að sinni þar sem ég er að íhuga að taka Líbanon aftur inn í og ef til vill breyta ferðinni lítillega því ég veit að ýmsir hafa hug á frekari ferðum þangað en vilja gjarnan smátilbreytingu. Tilkynni það þegar þar að kemur. Þið fylgist með.

VIMA gefur kost á ferðum sem aðrir gera ekki.

Undirtektir við Íran og Ómanferðum sem bættust við hjá VIMAfélögum á þessu ári eru afskaplega jákvæðar enda þessar ferðir einstakar að því leyti að ENGIR aðrir bjóða þær.

Þá á ég ekki hvað síst við Íran og er mjög ánægð með hvað ferðin í mars tókst firnavel. Og ferðin í haust verður áreiðanlega ekki síðri og hefur verið lengd um tvo daga eins og fram hefur komið.
Íran býr að langri og merkilegri sögu og nútíma sem er í margra hugum sveipuð dulúð.
Fáir þekkja nútímaríkið Íran en VIMA menn eru forvitnir og skemmtilegir og vilja fræðast og verða ekki fyrir vonbrigðum. Þar er fegurð í landi og fólki
Það hefur verið margra draumur að sækja Íran heim og tækifæri gefst með því að ganga í Vináttu og menningarfélag Miðausturlanda og skrá sig í þær ferðir.

Auðvitað á þetta líka við um Sýrland, Líbanon og Jemen enda er fólk komið á bragðið og sækir stíft í þessar ferðir.
Sama máli gegnir um hið athyglisverða leyndarmál sem Óman er. Það er dýrari ferð en Óman er langtum dýrari land en önnur sem við sækjum heim á þessu svæði og verðlagningin hlýtur að draga dám af því. Óman er enn einn heimurinn í Arabalöndunum og að sumu leyti meiri lúxus þó svo þar sé ýmist gist í tjöldum á Wahibasöndum eða á dýrðarhótelum.

Ég vil þó benda á að í þessum ferðum er ekki það plat í gangi að gefa upp verð þar sem fátt er innifalið nema flugferð og gisting. Þá á eftir að borga alla skatta, máltíðir, skoðunarferðir og jafnvel aðgangseyri að skoðunarstöðum. Reynt að hafa sem allra mest inni í heildarupphæðinni svo að menn átti sig á því hvað þetta kostar í alvörunni.

Lýsistöflurnar á leiðarenda
Þá er frá því að segja að lýsistöflurnar okkar hafa náð landi í Jemen og krakkarnir geta farið að gæða sér á þeim. Nú mun vera umboðsmaður fyrir þessar vörur sem hefur Saudi Arabíu og Jemen á sinni könnu en þessi varningur er svo ofboðslega dýr, allavega í Jemen að það fólk sem þyrfti helst á honum að halda hefur ekki nokkur efni á að kaupa hann að staðaldri. Þess vegna er gott til þess að vita að þessi skammtur okkar er til taks og væri kannski ekki úr vegi að reyna að senda þetta reglulega.