Snör svör frá Líbýu - verð á Kákasusferð

Býð ykkur öllum góðan daginn

Eins og ég sagði frá á dögunum fannst mér heillaráð að athuga hvort ferð til Líbýu kynni að vera fýsilegur kostur. Líbýa hefur verið lokað land og þangað hafa ferðamenn ekki flykkst enda Gaddafi ekki beinlínis sótt í að fá þá fyrr en nú nýlega að landið var opnað eftir einhvers konar sættir hans og Bandaríkjastjórnar.

Í Líbýu eru merkilegar rústir frá tímum Grikkja og Rómverja en þar er líka litríkt mannlíf Berba, Túarega og fleiri ættbálka. Víðáttumiklar eyðimerkur og undarleg stöðuvötn, fjöll og gróska. Svo þar ætti að vera nóg að skoða og skilgreina.

Sendi nokkrum ferðaskrifstofum í Líbýu fyrirspurn og hef aldrei fengið eins skjót viðbrögð. Ferðaáætlanir hafa hrannast hér á Drafnó upp og þar á meðal frá einum náunga sem gat þess að vinur sinn væri búsettur hérlendis og ætti íslenska fjölskyldu. Heimurinn er ekki stór.
Nú ætla ég að dunda mér við að skoða þessar áætlanir og mun svo birta þá sem mér sýnist fýsilegust næstu daga. Þegar hafa nokkrir tjáð áhuga sinn á ferðinni og vil ég gjarnan heyra frá fleirum.

Verð á Kákasusferð nálgast óðfluga
Þá liggur loks fyrir fullmótuð Kákasusferðaráætlun og verðhugmyndir. Svo nú bauka ég við að finna hagstætt flug. Býst við að byrjað verði í Armeníu og keyrt yfir til Georgíu og endað í Azerbajdan. Upplýsingar um áformað verð gætu því verið tilbúnar fljótlega.

Á hinn bóginn
bið ég svo Íranfara í ferðinni í mars að láta mig vita fljótlega um vilja til þátttöku. Og ítreka að Ómanfólk ætti að kvaka og það fyrr en síðar. Jemen/Jórdanía um páska er í þann veginn að fyllast. Sýrland að hausti mun trúlega verða með Líbanon að þessu sinni enda allt í friði og spekt þar.

Árið 2008 verða færri ferðir, því ég hef önnur áform á prjónunum og því hugsanlegt að það árið verði aðeins Libya og skyldu menn hafa það bak við bæði eyru og grípa 2007-ferðir fegins hendi.
Foreldraferð til Jemens 2008 er samt ekki útilokuð.

Sem sagt látið heyra frá ykkur og einnig bið ég ykkur lengstra orða að láta síðuna ganga til ferðakátra félaga ykkar.