Ferðin til Jemen- frumsýnd á myndakvöldi

Góðan daginn öll

Jemen/Jórdaníuhópurinn frá því í maí hittist í gærkvöldi heima hjá Helgu Kristjánsdóttur. Við áttum saman einstaklega skemmtilega stund. Við gæddum okkur á afar ljúffengum arabískum mat, skröfuðum og skoðuðum myndir í óðaönn.

Hápúnkturinn var samt þegar frumsýnd var klukkustundarmynd Ólafs S. um ferðina. Ólafur sagði af hógværð að betur mætti gera, og enn væri nokkuð óklippt- en ekki var að orðlengja að hópurinn fór í aðra ferð í gærkvöldi og nú ókeypis.
Okkur fannst hann koma sálinni í Jemen listilega til skila. Ég held að við höfum öll orðið verulega snortin og svo var hlegið dátt inn á milli. Tónlistin sem hann setti inn á myndina magnaði enn áhrifin svo húrrahrópin glumdu í Garðabænum að sýningu lokinni.

En ekki nóg með það. Ólafur ætlar nú að klára að snurfussa myndina og síðan lætur hann mig fá slatta af diskum og þá sel ég og allur ágóði vill Ólafur að renni í Fatímusjóð til að styrkja stúlkurnar okkar.
Nefnt var að þá gætum við kannski keypt saumavélar fyrir þær sem eru á hannyrðanámskeiðinu og stakk Guðmundur Kr. upp að hann tæki sér listamannsnafnið Ólafur Singer.

Þeir sem hafa hug á að eignast myndina hafi því samband við mig og diskurinn kostar 2.500 kr. Hvort sem menn hafa komið til Jemen, ætla eða ætla ekki þangað munu allir græða á því að fylgjast með myndinni. Fyrir utan að mér þykir falleg hugsun Ólafs Singer um hvert peningar eiga að renna.

Margir styrktarmenn Jemenstúlkna hafa spurt hvenær þeir eigi að greiða fyrir næsta skólaár og því er til að svara að það gæti orðið um eða upp úr mánaðamótunum næstu.
Mun senda til allra núverandi og vænti þess að þeir hafi aðstöðu til að halda tryggð við sína stúlku. En við þyrftum líka að bæta við, tíu eða fimmtán til viðbótar væri fyrirtak. Segið endilega vinum og félögum frá þessu.
Augljóst er að þetta fyrsta ár hefur gengið vel hjá krökkunum en mér finnst samt rétt að bíða með að þeysa með málið í fjölmiðla. Þetta er ágætt svona og skynsamlegra að fara ekki of geyst. Á þennan hátt er yfirbyggingin engin og hver króna skilar sér á réttan stað.

Líður að því að Íransfarar skili vegabréfum
Upp úr helginni hef ég samband við Íransfarana í september og þarf þá að safna saman vegabréfunum og koma þeim út til sendiráðs Írans í Osló til að fá stimpla og amen.
Menn eru beðnir að fylgjast með.. Hef sent beiðni til sendiráðs Íslands þar í bæ til að ýta á eftir að það gangi vel og þægilega fyrir sig. En tekur að lágmarki tvær vikur. Þegar svona stendur á geta menn fengið bráðabirgðavegabréf útgefið ef þeir þurfa að bregða sér af bæ meðan vegabréfin eru í Noregsferðinni.

Ég hef sagt það áður og endurtek það einn ganginn enn: sendið síðuna til ferðaglaðra kunningja. Þetta er eina leiðin til að koma upplýsingum um ferðirnar á framfæri. Þó margir viti af þeim nú orðið þurfum við að kynna þær betur.

Svo verður náttúrlega ferðafundur í næsta mánuði, um miðjan ágúst eða svo, og elskubestu látið það berast um víðan völl.