HVET YKKUR TIL AÐ LESA GREIN JÓNS ORMS Í FRÉTTABLAÐINU

Góðan daginn

Hvet ykkur til að lesa grein Jón Orms Halldórssonar á miðopnu Fréttablaðsins í dag. Það er ekki nýtt að greinar hans séu eftirtektarverðar en ég tel að þessi grein eigi sérstakt erindi til okkar með hliðsjón af því sem er að gerast. Látið það því ekki hjá líða.

Spurningalistar skila sér hægt og bítandi

Ég sendi líka spurningalista til Jemen/Jórdaníufara 2005 og 2006 og þeir eru byrjaðir að skila sér. Þar koma fram ýmsar athyglisverðar ábendingar og ég þakka fyrir það.
Howta Palace í Sejun í Jemen virðist ótvíræður "hótelsigurvegari" þeirrar ferðar þó svo að Marriott hótelið við Dauða hafið í Jórdaníu sé á dagskránni.
Mikið þótti mér vænt um það og sýnir mér að ég er með ferðalanga en ekki túrista á ferð. Raunar vissi ég það.
Hef sent fyrirspurn um það til jórdönsku ferðaskrifstofunnar hvort við getum tafið lengur í Petra og Wadi Rum sem virðist vera vilji fyrir. Mundum þá etv gista í tjöldum í Wadi Rum sem væri geggjað.
Bendi á að það eru enn örfá sæti laus (þetta er nú bara ferðaskrifstofuorðalag!!)í Jemen/Jórdaníuferðina en fyrirspurnir hafa borist um bæði svo það verður væntanlega ekki lengi.
Almennar niðurstöður ættu að geta birst fljótlega.

Ómanlistar og umsagnir um Íran
hafa líka dottið inn um lúguna eða á tölvuna. Takk fyrir það. Bið þó menn að taka við sér því ég get ekki birt almennilegar niðurstöður þaðan fyrr en fleiri hafa skilað sér.
Bæði löndin hafa auðheyrilega vakið hrifningu hjá þátttakendum. Gjörið svo vel og munið að þangað komast enn nokkrir til viðbótar.

Azerbadjan, Armenía og Georgía
Eins og fyrr hefur komið fram verður sú ferð sennilega í maí 2007 og hún er fullskipuð ef allir sem hafa tilkynnt áhuga verða með. Gjöra svo vel og ítreka það því hún er eiginlega fullskipaðri en ég get tekið.

Sýrland að hausti 2007
Held mér við það, og ekkert sem bendir til breytinga þar. Mun vitanlega verða að sleppa Líbanon - þökk sé þeim umdeildu friðflytjendum sem nú sprengja landið aftur í aldir - og lemstra líkama og sálir. Mun annað hvort lengja Sýrlandsferðina eða taka Jórdaníu inn í staðinn. Nógur tími til að huga að því.


Ítreka svo enn þetta tvennt: Látið í ykkur heyra! Um hvaðeina. Og lesið grein Jón Orms í Fréttablaðinu