Íransstimpluðum vegabréfum dreift um helgina - áfram heldur hryllingurinn í Líbanon

Sælt veri fólkið
Íranska sendiráðið í Osló með fulltingi þess íslenska voru ekki lengi að því sem lítið er og vegabréfin eru komin stimpluð og fín til baka og verður dreift til þátttakenda í ferðinni um helgina.

Jemendiskurinn sennilega tilbúinn upp úr mánaðamótum og hvet sem flesta til að láta vita ef þeir hafa ágirnd á að kaupa diskinn. 2.500 kr. Muna það.

Mér finnst veruleg tregða í svörum við spurningalistum til Óman og Íranfarþega en skýring gæti verið að fólk sé út og suður. Þakka fyrir þau svör sem þegar eru komin og bið þá sem enn hafa ekki svarað að gera það fyrr en síðar.

Áfram heldur hryllingurinn í Líbanon og er allt það þyngra en tárum taki. Ekki síst þegar maður les um amenið frá stjórn Bandaríkjanna að það sé nánast allt í góðu lagi að sprengja amk fram í næstu viku.
Fólk deyr í hrönnum, landið er í rúst enn á ný og svo tyggur nýi íslenski utanríkisráðherrann upp eftir bandarískum, í viðtali að "Ísraelar hefðu náttúrlega rétt til að verja sig."
Það leyfi virðist ekki eiga við um aðra.

Heyrði í fréttum í gær að Rauði krossinn hefur komið upp fjárhagshjálp til aðþrengdra í Líbanon og hvet VIMA félaga til að leggja eitthvað af mörkum. Það er hægt að hringja í síma Rauða krossins og þá bætist þúsund krónur við símareikninginn. Fæstir láta sig muna um það ætla ég rétt að vona.