Skoðanakönnun send til ferðafélaga- dagsetning á Jemen/Jórdaníu

Sendi um helgina spurningalista til Íranfara í mars og mun senda til Ómanfara í febr sams konar lista. Ekki ólíklegt að Sýrlandsfólk 2005 og 2006 fái slíkt fljótlega líka.
Langar að biðja ykkur að eyða nokkrum mínútum í að svara þessu. Gerði þetta eftir fyrstu þrjár Sýrlandsferðir og voru heimtur til sóma og mér til gagns.

Slíkur spurningalisti er til hjálpar og gott að heyra skoðun félaga þegar stundarkorn er liðið frá ferð og menn búnir að melta hana með sér.
Þegar nægilega margir hafa svarað verða niðurstöður birtar hér á síðunni.

Hér með smáskýrsla um gang mála:

Jemen/Jórdanía dagsetningar
Endurtek þær vegna þess að það virðist hafa farið framhjá einhverjum. Brottför 27.mars og heimkoma 13.apríl. Ferðalýsing á linknum er meira og minna eins og væntanleg páskaferð en reikna með að við verjum þó ögn meiri tíma í heimsókn í YERO miðstöðina.
Bíð eftir staðfestingu frá tveimur, annars er hún setin.

Eru fleiri sem vilja styrkja Jemenstúlkur???
Það skal ítrekað að styrktarmenn Jemenkrakkanna okkar skulu greiða sína 200 dollara um eða upp úr næstu mánaðamótum. Allavega fyrir 10. ágúst.
Erla Adolfsdóttir og Sigríður Einarsd. hafa þegar greitt fyrir sína stúlkur og Þóra Jónasd. að hálfu.
Guðmundur Pétursson og Högni Eyjólfsson hafa einnig borgað fyrir strákana sína.
Þessi greiðsla fer inn á Fatimusjóð 1151 15 551130 og kt. 1402403979. Nokkrir greiða mánaðarlega og ef einhverjir kjósa svo bara láta mig vita.

Svo vonast ég eindregið eftir því að við getum bætt við nokkrum tilbótar. Væri gaman að því ef 10 bættust við. Væri ráð að menn bentu líklegum styrktarmönnum á þetta góða mál.
Minni einnig á Jemenmynd Ólafs S. Hana má panta hjá mér og þegar hafa komið allmargar pantanir og amk. einn ætlar að nota þessa mynd til jólagjafa og það er enda hið mesta þjóðráð.


Íransferðin í mars
Eins og áður hefur komið fram er Íranferðin í mars á góðu róli en þar geta fleiri komist með.
Athuga það endilega. Íran verður efalaust flestum mikið ævintýri og kemur þar fleira á óvart - og það heldur notalega- en menn reikna með.

Azerbajdan, Armenía og Georgía
virðast vekja forvitni hjá mörgum. Hlakka til að fara þangað í haust, að lokinni Íranferð og skoða þar þá staði sem eru á áætlunum sem mér hafa borist.

Óman. Hvað er eiginlega málið?
Það hafa nokkrir bæst þar við en engan veginn nógu margir. Er öldungis ótrúlegt að mínum dómi því stórmikil gleði var með þá reisu. Eggja ykkur lögeggjan.
Í allar ferðir þarf lágmarksþátttakendafjölda eins og mönnum er ljóst. Annars verður ekki af ferð.

Sýrland/Líbanon í september
rúllar glaðbeitt og mun efalaust fyllast ef höfð er hliðsjón af fyrri reynslu.
Margir vilja hitta Gaddafi
Þó svo Líbýa sé ekki á planinu fyrr en eftir ríflega ár sýnist mér augljóst að ýmsir VIMAmenn vilja hitta Gaddafi og þá náunga. Og sjá það leyniland sem virðist hafa upp á margt að bjóða.

Nú væri ráð að koma sér í koju svo ég vakni á réttum tíma í Moggaútburð.
Sæl að sinni.