Vegabréf send til stimplunar - hvar eru spurningalistarnir?- Kynning á Akureyri?

Ég skrapp norður á Akureyri í vikunni til að taka þátt í afmælisveislu ömmudrengsins Örnólfs Hrafnssonar. Hafði því miður ekki tök á að hitta nokkra VIMA félaga eins og til stóð því blaðburðarbarnið JK fékk ekki nema eins útburðardags frí. Með í pússi mínu reyndist vera leiðindaveðrið að sunnan en það kom svo aftur með mér á heimleiðinni. Sorrí stína.
Mér hefur hins vegar dottið í hug hvort ekki væri kjörið að við héldum ferðakynningarfund á Akureyri seinna í sumar. Hvað segja menn um það.
Það verður mesti munur að hitta blíðviðrið í Íran í septemberbyrjun.

Vegabréf hafa verið send út í sendiráð Íran í Osló til stimplunar og ég hef samband þegar meira fréttist af því dæmi. Estrid starfskona í íslenska sendiráðinu þar í borg verður okkur innanhandar og ýtir vinsamlega á Írani svo ég vona að allt gangi eins og í sögu.

Auglýsi eftir skoðanakönnunarlistum
Geri mér mæta vel grein fyrir að margir eru í brottu vegna sumarfría en finnst samt að fleiri spurningalistar mættu skila sér. Íranfarar í mars og Ómanfólk í febrúar ætti að drífa sig og senda mér útfyllta lista um hæl.
Vinsamlegast og alúðlegast.

Febrúarlúxus í Óman
Hef tuðað um það allnokkrum sinnum að Ómanferð í febrúar er fáliðuð og hvet ykkur til að athuga það mál. Auðvitað er Óman ekki mikið þekkt hér í landi en þess meiri ástæða til að VIMA félagar kynni sér þetta ævintýraland. Það er sjaldan í fréttum vegna þess að þar er friðsæld og fagureygður soldán sem stýrir málum af festu og mannviti.
Febrúar er undursamlegur tími þar og hollt að komast burtu úr kulda og trekki Íslands um þær mundir.

Ísrael/Palestína/Líbanon
Þar gengur mikið á þessa dagana og engu líkara en einhverjir hafi gengið þar þrælslega af göflunum. Sé hins vegar ekki að þetta breyti neinu fyrir okkar ferðalagaáætlanir en fylgist vitanlega með framvindu mála.

Hún á afmæli í dag
Svo nota ég tækifærið og óska Þóru Jónasdóttur, hugþekkum VIMA félaga og ötulum ferðalangi til hamingju með fimmtugsafmælið í dag.

Og rétt í restina: Hef fengið slatta af pöntunum á Jemenmyndinni en ég er sannfærð um að fleiri vilja eignast hann. Samband! Samband! Það er málið.