57 jemensk börn verða kát nú - ath. Kákasus og Íran

Ágætu hálsar
Þá er allt tilbúið til þess að senda út greiðsluna til fimmtíu og sjö jemenskra barna. Að vísu gerir það mig dálítið dapra að ekki hafa allir lokið við að greiða og á það bæði við um nýju stelpurnar - og þar vantar enn nokkra styrktarmenn - og sömuleiðis hafa ekki allir í fyrsta hópnum gert upp fyrir sínar stelpur þó ég viti ekki betur en allir ætli að halda áfram. Þar eiga þrír eftir að greiða svo þetta hefur mjatlast inn og takk virktavel fyrir það.

Það er ótækt að valda börnunum vonbrigðum og Fatimusjóður mun því leggja út fyrir þeim að sinni. En ég bið ykkur einlæglega að drífa í að gera upp eða láta mig amk. vita ef þið viljið skipta greiðslunum.

Mér finnst endilega að margir stuðningsforeldranna hljóti að vera í félagsskap þar sem mætti kynna þetta verkefni því ég er viss um að fleiri vilja taka þátt í þessu, bara að segja frá því.

Eftir er að borga fyrir eitt telpukorn í fyrri hópnum.

Í nýja hópnum
vantar styrktarmenn:
Summaia Galeb Al Jumhree
Fatema Samer al Radee

Fimm stúlkur til viðbótar verða styrktar en nöfn ekki komin.

Elskurnar mínar drífið ykkur nú í að gera þetta upp. Reikningurinn er 1151 15 551130 og kt. 1402403979. Upphæðin sem svarar 200 dollurum.

Kákasus og Íran
Mun senda til þeirra sem hafa skráð sig upplýsingar um staðfestingargjald og hvernig ferðir skuli borgast. Það getur að öllum líkindum ekki orðið fyrr en eftir að ég kem frá Íran. Það á við um Íran í mars, Jemen/Jórdaníu í mars/april og Kákasus í maí.
Það geta bæst við þó nokkrir í Kákasus því ýmsir hafa ekki svarað mér hvort þeir ætla eða ætla ekki. Einnig má bæta við í marsferð til Írans. Það er ekki beint heppilegt þegar fólk tilkynnir sig og lætur svo ekki vita þegar það þarf af einhverjum ástæðum að hætta við. Ég er hreint ekki hress með það enda ættu menn að vita það nú orðið eftir allt mitt tuð sem er ekki út í bláinn.

Útsöluferðir eða alvöru?
Mér fannst það vel orðað hjá einum góðum VIMA félaga, Dominique, að þessar ferðir séu ekki útsöluferðir og eigi ekki að vera það í verði heldur eigi þær að vera áfram sérstakar. Enda ekki á hverjum degi sem menn hafa tækifæri til að leggja leið sína til þessara landa.
Mikið er innifalið, nánast flest t.d. í Kákasus og í Íranferð allt nema áritun og tips til innlendra fararstjóra og bílstjóra.
Við erum líka mjög heppin hvað það snertir að í þessar ferðir sækja alvöruferðamenn.
Það er ekki lítils virði.
Svo þið sem hafið ekki svarað um hvort þið ætlið og þið sem viljið bætast í hópinn gerið það snarlega. Ég ítreka í 100.sinn að það er nauðsynlegt fyrir mig þegar ég er að púsla þessu saman að hafa góðan fyrirvara. Undantekning að menn geti stokkið inn í þessar ferðir..