Annarri ferð til Kákasus bætt við 2007 - enn nokkur jemensk börn sem vantar stuðning

Minni Íranfara á miðaafhendingarfund í dag. Mikilvægt að allir mæti eða sendi einhvern fyrir sig.

Að öðru leyti þetta: Mér sýnist að við bætum við annarri ferð til Kákasus á næsta ári.
Bið þá sem skráðu sig áhugasama en hafa ekki látið í sér heyra að gera það snarlega og nokkrir geta því bæst við líka. Gleðilegt hvað ferðin hefur fengið góðar undirtektir.

Varðandi Jemen/Jórdaníuferðina 25.mars-11.apr. get ég skrifað þar á biðlista.

Svo má ekki gleyma Íran í mars, þar er kominn sæll hópur og Sýrland í ágústlok 2007. Var á áætlun að taka Líbanon aftur inn. Er jafnvel að hugsa um að halda mér við það ef allt verður þar í sæmilegu standi eftir ár. Þá yrði einkum farið um norðurhlutann. Suðrið er í rúst eins og menn vita en Líbanir eru ótrúlega seigir og mætti hugsa sér að þar væri hægt að fara um. Auk þess væri það móralskur stuðningur fyir Líbani að við kæmum þar.

Loks vil ég minna á jemensku krakkana. Þið sjáið á listanum í pistli fyrir neðan að enn vantar nokkra stuðningsmenn. Hef einnig minnt styrktarfólk sem var með 2005-2006 á að greiða fyrir 20. ágúst. Ef einhver getur ekki verið með í því láta mig vita. Alveg nauðsynlegt því allir krakkarnir okkar 37 hafa gefið sig fram og langar að komast í skóla en hafa ekki tök á því nema með okkar hjálp.

Sjáumst á þriðjudag kl. 17,30.