Fullt út úr dyrum á ferðakynningarfundinum

ÁRÍÐANDI: Eftir að Íslandsbanki breyttist í Glitni eru allar kvittanir sem til mín eru sendar vegna greiðslna auðar. Ég fékk tvær í kvöld og veit ekki hverjir voru að borga. Vinsamlegast gangið úr skugga um að allt sé með felldu þegar þið greiðið og talið vandlega um þetta við bankann. Mun væntanlega fá upplýsingar frá SPRON um þetta á morgun en bið ykkur eindregið að hafa þetta hugfast

Ekki þjást VIMA félagar af minnisleysi því fullt var út úr dyrum á ferðakynningarfundinum okkar í Friðarhúsi í dag. Hátt í sjötíu manns skrifuðu í gestabók.

Þar mættu margir sem ég hef ekki séð áður og einnig sægur af félögum og máttu menn sitja þröngt enda allir sáttir. Fagnaðarfundir urðu með ferðafélögum sem hafa verið í VIMAferðum.
Kaffi, te og kex var á boðstólum og gerðu vonandi flestir sér gott af því.

Frammi lágu ferðaáætlanir og margir birgðu sig upp af þeim og látið absolútt heyra í ykkur sem fyrst ef þið viljið komast með í ferðir - og raunar gerðu ýmsir það vel og dyggilega. Ekki var svigrúm til að láta lista ganga en þið gefið ykkur bara fram og það fyrr en síðar.

Diskur Högna Eyjólfssonar úr Sýrlands/Jórdaníuferðinni sl. páska var sýndur á tjaldi, Vera Illugadóttir stjórnaði tölvum með diskum frá hinum ýmsu áfangastöðum og síðast en ekki síst var svo sýnd mynd Ólafs S. Guðmundssonar Ferðin til Jemen við óblandna hrifningu og lófaklapp.

Ýmsir gerðu upp sína Jemendiska og allmargir keyptu og sumir munu leggja inn á Fatimusjóðinn 2.500 kr. á næstunni. Um tíu diskar eru enn fáanlegir og ég hvet ykkur til að festa ykkur þá og leggja þar með smálóð á vogarskálarnar krakkanna okkar.
Mun senda diskana til þeirra sem ekki komust á fundinn einhvern næstu daga.

Fundurinn tókst held ég bara öldungis prýðilega og veit ekki betur en allir hafi haldið glaðir í brottu.

Við VIMAstjórn þökkum kærlega fyrir þessa ánægjulegu stund og Guðrúnu Valgerði og Elvari fyrir að veita okkur endurgjaldslaust afnot af húsnæðinu.