Hér eru tuttugu ný Jemenbörn - sextán vantar styrktarmann

Góðan daginn.
Auðvitað ætti ég að sitja úti í sólinni í nýhreinsaða garðinum mínum. Hann er sum sé ekki lengur í óhirðu, hér birtust á dögunum Garpur og Jökull Elísabetarsynir, Kristín kona Jökuls og Þorsteinn Máni Hrafnsson og héldu til í garðinum í fjögur kvöld við hreinsun og klippingar og snyrtingu. Mikið er nú gott að eiga svona ungt og ljúft fólk að.

En ég fékk sem sagt áðan nýjan og umbeðinn lista frá Nouriu Nagi í Sanaa með nöfnum barna sem ég tel aðkallandi að við styrkjum og vonast eftir undirtektum frá ykkur.

Mér finnst ástæða til að geta þess að skólaskylda er í Jemen en vegna fátæktar geta foreldrar ekki sent börn sín í skóla, einnig af því að almennt eru fjölskyldur stórar og kannski fær bara eitt af fimm eða sex eða tíu að fara í skóla.

Með þeim stuðningi sem við veitum breytum við lífi þessara barna svo um munar - og það fyrir 200 dollara á ári - á ári. Það eru um 1250 kr. á mánuði(miðað við að dollari sé 75 kr og raunar er hann aðeins lægri núna.

Það er til að mynda tilvalið að litlir kvenna eða karlahópar taki að sér barn/börn og hvet einkum og sér í lagi Zontafélög, Soroptimista, Rotary og Kiwanis og Lions til að íhuga málið. Mig langar til að biðja ykkur - hvert og eitt- að senda þetta áfram. MÉR FINNST ÁRÍÐANDI AÐ VIÐ STYÐJUM ÞESSI BÖRN. Þau eru öll frá mjög fátækum fjölskyldum sem búa við hörmulegar aðstæður.

Nú þegar styrkjum við 37 stúlkur í grunnskóla og 18 í fullorðinsfræðslu. Ef við bætum þessum við höfum við aukið lífsgæði tuttugu í viðbót. Kannski er það dropi en það er stórkostlegur árangur. Ég bið ykkur að hafa samband og ég læt ykkur fá nöfnin og síðan fá allir síðar í haust nánari upplýsingar og myndir af sínum börnum.

1. Jamal Hammeed Al Summary, 6 ára drengur - stuðningsmaður Helga Kristjánsdóttir
2. Rabbi Abdullah Alsarabee, 9 ára drengur- Högni Eyjólfsson
3. Wadee Abdullah Alsarabee 13 ára drengur- Guðmundur Pétursson
4. Mohammed Jameel Shraf al Salwee 9 ára, drengur- stuðningsmaður Guðmundur Pétursson
5. Bushra Sharaf AlKadasee 14 ára - stuðningsmaður Catherine Eyjólfsson
6. Fatten Sharaf Al Kadasee 7 ára- stuðningsmaður Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir
7. Gada Farooq Al Shargabi 14 ára- Guðríður Helga Ólafsdóttir
8. Sabreen Farooq Al Shargabi 13 ára- Guðrún S. Guðjónsdóttir
9. Fatema Abdullah Al Kabass 12 ára - Ragnheiður Jónsdóttir
10. Sabreen Ali Al Dubari 8 ára - Jóhanna Kristjónsdóttir
11. Safwa Sadek al Namoas 15 ára- Svala Jónsdóttir
12. Fatema Samer al Radee 11 ára-
13.Reem Farooq al Shargabi 9 ára - stuðningsmenn Valdís B. Guðmundsd/Halldóra Pétursd
14. Amal Abdu Al Kadasi 15 ára - stuðningsmaður Vaka Haraldsdóttir
15. Maryam Saleh Al Jumhree 18 ára- stuðningsmaður Valborg Sigurðardóttir
16. Ethaar Naked Al Douis, 10 ára- stuðningsmenn Eva Pétursdóttir/Axel Axelsson
17. Ather Naked Al Douis 8 ára- stuðningsmenn Eva Pétursdóttir/Axel Axelsson
18. Summaia Galeb al Jumhree 11 ára
19. Aysha Abd Al Kareem 9 ára- stuðningmenn Sólveig Óladóttir/Kristinn Kárason
20. Aida Yeheia Al Ansee 14 ára- stuðningmaður Birna Sveinsdóttir

Þess ber að geta að aldurinn segir ekki alltaf til um hvar krakkarnir eru staddir í skólakerfinu því mörg hafa ekki byrjað í skóla fyrr en 9-11 ára vegna aðstæðna á heimili.

Nú bíð ég vonglöð og bjartsýn eftir undirtektum og þakka þeim einnig mjög vel sem þegar styrkja krakka. Nouria sagði mér í bréfinu að flest börnin okkar sem við höfum styrkt hafi gefið sig fram og vilja halda áfram og hefur þegar verið hægt að segja nokkrum/flestum - öllum vonandi - að við munum halda áfram að styrkja þau.
Nú bíða líka þessi börn eftir undirtektum okkar. Þó er trúlegt að einhver detti út en ég vona þá að menn taki önnur börn í staðinn. Læt ykkur vita nánar um það fljótlega.