Hvað sögðu menn um Óman í febrúar sl. og fleira

Ja góðan daginn og enn sól og hlýja.

Var að koma úr bankanum að greiða síðustu greiðsluna til írönsku ferðaskrifstofunnar svo allt sé nú í blómasóma.

Fékk í gær sendan Írandisk frá Sigríði Guðm. með fábærum myndum og hef þá fengið eina þrjá Írandiska og vona að tæknistjórinn okkar, Elísabet Ronaldsdóttir, sem hefur setið við á Hofsósi að klippa mynd Baltasars um Erlend löggu, komi senn í bæinn og geti sett þá inn, mönnum til gleði, upprifjunar og fróðleiks.

Greinilegt var að menn tóku við sér eftir síðasta bréf og hrundu inn það mörg svör við spurningalistum að ég get nú birt hér skoðanir á Ómanferðinni okkar, þeirri fyrstu sl. febrúar.

Hvað sögðu menn um Ómanferðina?
Auðvitað er einkunnagjöf vegna ferðar af þessum toga alltaf umdeilanleg því hún er huglæg og byggist töluvert mikið á okkur sjálfum, hvernig okkur líður og svo framvegis. En allt um það:

Ferðin fékk í heild 9,4. Nokkrir gáfu 8, aðrir 10 og einhverjir 9-9,5.

Hótelin fengu ágætan vitnisburð.
Al Falaj í Múskat þó sísta, liðlega 7. Önnur hótel voru með 8-10.
Samdóma álit var að matur hefði verið mjög góður og engar athugasemdir þar.

Flugferðin með Royal Jordanian til Múskat fékk einnig afar góða útkomu.

Spurðir um af hverju þeir hefðu farið þessa ferð var algengasta svarið:
Almenn forvitni um þennan heimshluta eða
Hafði farið í aðrar ferðir og langaði að kynnast Óman

Hver einasti sagðist hafa verið mjög öruggur í ferðinni.

Músandamsiglingin og svamlið í fjörðum virðist standa upp úr hjá flestum. Einnig var nefnd oft ferðin yfir fjöllin frá Niszwa og ferðin inn á sandana og veran í eyðimerkurbúðunum.
Heimsókn í Miklumosku í Múskat.
Og talandi um huglægt mat nefndi einn heimsóknina að grafhýsi Jobs og annar tók fram að ferð að grafhýsi Jobs hefði mátt missa sig ! Það verður aldrei hægt að gera öllum til hæfis enda engin ástæða til að allir hrópi húrra yfir öllu.

Ómönsku leiðsögumenn og bílstjórar fengu mjög misjafna umsögn og kvartað nokkuð undan því að ekki hefðu allir verið enskumælandi. Sú athugasemd á vissulega rétt á sér.
En þá rifjast upp fyrir mér að ýmsir í ferðinni höfðu sótt Jemen heim, þar sem sams konar ferðamáti er og enginn bílsjóra þar talar meiri ensku en nokkur orð. Við það hefur aldrei verið gerð athugasemd og má draga af því augljósa ályktun: jemensku bílstjórarnir eru leiknari í fingramáli og ná frekar til fólksins okkar. Kem þessu til skila.

Öllum fannst verðið sanngjarnt. Og vel að merkja: Einn félagi - að vísu ekki í þessari ferð- sagði að það væri engin ástæða til að þessar ferðir væru á "útsöluprís" og líkti þeim við að kaupa tómata í Bónus eða hjá ræktendum í Reykholtsdal. Sniðug samlíking og ég held að við megum öll íhuga þetta atriði.

Upplýsingar JK og skipulagning fékk ágæta umsögn, takk fyrir það.
Smákvörtun undan því að ekki hefði alltaf verið þýtt á íslensku. En þá ber að hafa í huga að við héldum tvo fundi fyrir þessa ferð, auk miðaafhendingarfundar, og svo er bara hægt að spyrja mig ef menn eru ekki með allt á hreinu. Eða biðja sem sagt um nánari útlistun. Hafa það bak við eyrað.

Og við spurningunni Hvað heldur þú að verði þér eftirminnilegast eru hér fáeinar glefsur:
Velmegunin, fegurðin og eitthvað alveg sérstakt við andrúmsloftið, einhvers konar friðsæld. Og fjölbreytnin í landslaginu er ótrúleg.

Mér hefur aldrei liðið eins vel á ferðalagi eða verið eins afslöppuð. Þetta var allt svo silkimjúkt.

Tjaldbúðirnar og sandurinn. Fjöllin.

Fallegu karlarnir sem alltaf voru tandurhreinir þótt farið væri um söndugt landslag. Hvað er auðvelt að ferðast og allir vinsamlegir

Góð ferð og maturinn frábær

Fegurðin í öllum myndum.


Endum á fegurðinni. Takk fyrir hjálpina. Og Íranfararnir tóku aðeins við sér líka í gær og gera vonandi enn betur í dag.

Nú væri ráð að fara út í blíðuna.