ÓMANFERÐ BLÁSIN AF Í BILI - skoðanir á Íran og sitthvað

Sæl öll

Hef ákveðið að aflýsa ferðinni til Óman. Þátttaka var ekki nægileg. Hefði þurft að hækka verð upp úr öllu valdi.

Mér þykir það mjög leiðinlegt en ekkert við því að segja. Ætla að vera bjartsýn og vona að Óman komi kröftugt inn næst. Bendi þeim Ómanförum á sem hafa ekki farið til Íran að það er girnilegur kostur, og Azerbadjan/Armeníu og Georgíuferðin heldur sínu striki. Eins og aðrar ferðir 2007.

Það eru svo margir skráðir í Kákasusferðina að ég þarf endilega að fá staðfestingar ykkar um hæl, þ.e. þeirra sem eru að pæla í ferðinni í fullri alvöru. Hún verður í byrjun maí eins og fram hefur komið. Ýmsar breytingar á áætlun sem nú er inni verða kynntar fljótlega. Þær eru greinilega allar til bóta ef mér skjöplast ekki.

Bið Jemen/Jórdaníufara um páska sem hafa ekki staðfest þátttöku að gera það umsvifalaust. Veit um flesta en einn eða tveir hafa ekki látið í sér heyra. Þar er hægt að bæta við.
Vegna breytinga á flugi Royal Jordanian kunna dagsetningar að færast til um einn eða tvo daga. Læt vita af því senn.

Námskeiðin hjá Mími símennt
verða í haust, þ.e. Menningarheimur Araba, arabíska I og II og svo nýtt námskeið sem er tveggja kvölda og fjallar um Líbanon/Palestínu og Ísrael. Það verður nokkrum dögum eftir að ég kem heim frá Íran. Get því miður ekki haldið það fyrr vegna lasleikans míns sl. vikur.
Farið verður all ítarlega í og yfir sögu þessara þjóða, tilurð landanna og atburðarásina undanfarnar vikur og leitast við að varpa ljósi á hvers vegna svo erfiðlega gengur að halda friði á svæðinu þar sem átökin hafa verið í fjórar vikur.

Einnig reynt að skýra hvers vegna Bandaríkjamenn styðja Ísraela skilyrðislaust og hvers vegna Ísraelar sýna kristnum Líbönum meira umburðarlyndi en múslimskum Líbönum.
Innritanir í þessi námskeið eru öll hjá Mími símennt og ganga ekki í gegnum mig.

Ég vona að aðsókn verði góð. Námskeiðið um menningarheim Araba er nú haldið í sjötta sinn og hefur mælst vel fyrir og arabískan vekur áhuga margra. Þó ekki væri nema til að átta sig á stafrófi og byggingu málsins, nokkrum hagnýtum frösum og ýmsu smálegu.

Reikna með að Líbanon/Palestínu og Ísraelsnámskeiðið þyki mönnum forvitnilegt.


Og ekki má gleyma Sýrlandi
Þá er Sýrlandsferðin í september 2007 og ættu menn að láta vita um áhuga. Hef trú á því að við getum, þrátt fyrir allt, skroppið yfir til Líbanon í þeirri ferð. Við sjáum til með það, en ég tefli ekki í neina tvísýnu.

Hvað sögðu menn um Íran?
Svör vegna þess ferðalags verða birt á morgun. Þar voru ekki allir tilbúnir að gefa einkunnir - og eiginlega fannst mér það að sumu leyti harla gott- en skrifuðu ýmislegt sem gagnlegt er. Ef samt á að meta á ánægju manna ferðina sýnist mér útkoman vera sem næst 9,5.
Heyrumst á morgun. En gjörið svo vel og láta vita um áhuga ykkar í sambandi við ferðirnar. Minni á það enn og aftur.