MIKILVÆGUR KYNNINGARFUNDUR EFTIR VIKU - fjögur Jemenbörn til viðbótar hafa fengið stuðningsmenn

Stuðningsmenn fjögurra jemenskra barna hafa bæst við en enn vantar handa tólf og ekki skal ég trúa því að okkur takist það ekki. Setti nöfn nýju styrktarmannanna í pistilinn sem er á eftir þessum.
Ég mun senda peninga úr FATIMUSJÓÐNUM fyrir krakkana núna um 20.ágúst.

Sé að stuðningsforeldrar hópsins frá í fyrra hafa verið ötulir að borga og þakka fyrir það. Allmargir eiga þó eftir. Gerið skil fyrir 20.ág. Elskuríkast.
Munið reikningsnúmerið 1151 15 551130, sem svarar 200 dollurum. Þið látið bankann reikna út upphæðina.
Það skal minnt á að þeir sem styrkja stúlkur í fullorðinsfræðslunni eiga EKKI að borga fyrr en um áramót. Leitið upplýsinga hjá mér ef þið eruð í vafa.

Eftir viku, þ.e þriðjudaginn 22. ágúst verður haldinn kynningarfundur VIMA í Friðarhúsinu, kl. 17,30. Þar liggja frammi sæmilega/full mótaðar áætlanir ársins 2007 og sömuleiðis hugmyndir að foreldraferð til Jemens 2008 og Líbýuferð það ár. Það er ekki víst að ég geti haft fleiri ferðir það ár en breytir því ekki að það sakar ekki að kanna málið.

Það eru ýmsar hugmyndir sem ég er með í kollinum hvort sem það verður nú það ár eða ekki. Allt er líka undir ykkur komið.
Ég hvet VIMA félaga til að mæta á þennan fund og taka með sér skemmtilega vini og ættingja og láta þetta berast. Friðarhúsið er á horni Njálsgötu og Snorrabrautar og við fáum það ókeypis.
Þar verður líka sýnd mynd Ólafs S. Guðmundssonar Ferðin til Jemen- og nokkrir verða til sölu- og ýmsir diskar sýndir á tölvum til kynningar frá fleiri löndum, m.a Íran, Sýrlandi og Jórdaníu.
Við fáum okkur kaffi eða te og krydderí og skröfum og skemmtum okkur svona í góðan klukkutíma. Vonast til að sem ALLRA FLESTIR láti sjá sig hvort sem þeir hyggja á ferð eður ei.

Einnig vonast ég til að þar verði hægt að kynna haustfund VIMA sem verður haldinn í lok september og sýnist mér að við fáum þar góðan gest til að tala.

Fréttabréfið fyrsta er væntanlegt innan skamms og verður dreift til félaga eftir tíu daga eða svo. Þar mun Vilborg Sigurðardóttir skrifa um Íranferðina, Birna Karlsdóttir um Ómanreisuna. Sagt frá verkefni okkar í Jemen og ýmislegt fleira.

GJÖRIÐ SVO VEL AÐ LÁTA ÞETTA HLAUPA.

Minni svo Íranfara á miðaafhendingu. Þeir hafa þegar fengið tilkynningu og vinsamlegast látið þá vita sem hafa ekki netfang.