Áætlun um Kákasuslöndin endurbætt- ávarp Guðrúnar Margrétar senn sett inn

Kærurnar mínar
Þá fer að líða að því að ég kveð Íranfara til fundar vegna septemberferðar. Fundur í næstu viku, nánar um það til þeirra beint. Þar verða afhentir miðar, áætlun, ferðagögn önnur, leiðbeiningar um klæðaburð og fleira.

Íranferð í mars hækkar ekki
Vegna fyrirspurna um Íranferðina í mars heyrist mér á ferðaskrifstofufrúnni okkar að verð muni haldast að mestu óbreytt. Hvet menn til að gefa sig fram í hana.

Áætlun Kákasuslandanna komin inn í sæmilega réttri mynd
Var að setja inn á linkinn ferðaáætlunina til Kákasuslandanna. Gjörið svo vel og kíkið vandlega á hana. Hef fengið staðfestingar frá nokkrum. Þar sem ég ætla ekki að hafa hópinn stærri en 24 af því þetta er fyrsta ferð er mjög aðkallandi að menn láti vita hið skjótasta.
Verð er komið inn þar en með fyrirvara. Eins og ég hef áður tekið fram ætla ég að fara til þessara landa í október n.k. og rúlla yfir áætlunina og hún gæti breyst lítillega en væntanlega og sömuleiðis orðið ítarlegri en þetta er svona í megindráttum og gefur sæmilega hugmynd.
Get ekki nógsamlega beðið fólk að hafa samband sem hefur ekki gert það vegna þessarar spennandi ferðar

Grein Guðrúnar Margrétar
Guðrún Margrét Guðmundsdóttir, mannfræðingur - sem kom á VIMA fund hjá okkur sl. vetur og talaði við góðar undirtektir- hefur gefið góðfúslegt leyfi sitt til að við birtum ávarpið sem hún flutti við kertafleytingarathöfnina við Tjörnina á dögunum.
Minn elskulegi aðstoðartæknistjóri hefur verið beðinn að setja ávarpið inn á sérstakan link seinna í dag.
Ávarp Guðrúnar er mjög athyglisvert og ég hvet ykkur til að lesa það. Hún tengir fimlega saman atburðina sem gerðust 1945 við það sem fer fram um þessar mundir í nútímanum. Vona að það verði sumsé komið inn seinna í dag.

Jemenstúlkurnar okkar
Líður senn að því að við gerum upp fyrir stúlkurnar okkar í Jemen. Vinsamlegast borga inn á reikninginn 1151 15 551130 kt. 1402403979 15.-20. ágúst. BIÐ YKKUR AÐ ÚTVEGA AMK TÍU NÝJA STYRKTARMENN því þar með styrkjum við um 70 stúlkur. Munið að þetta eru ekki nema 200 dollarar en geta breytt og bætt líf þessara stúlkna meira en margir átta sig á.
Þakka virktavel þeim styrktarmönnum sem þegar hafa greitt.