Heim í heiðardalinn

Íransfarar eru komnir heim eftir sérstaklega vel lukkaða ferð. Sé í hendi mér að við endum á Isfahan og byrjum við Kaspíahafið í næstu ferðum.

Við vorum nokkuð lúin þegar við lentum á Kefló enda höfðum við risið snemma úr bólinu til að fara út á Mehrabad flugvöll við Teheran. Þar kvöddum við Pezhman leiðsögumann sem hefur unnið hug og hjörtu fólks í ferðinni að ógleymdum Mohammed I. bílstjóra og aðstoðarmanninum Farsíd.
Eftir nokkrar vikur efnum við svo í myndakvöld og það verður gaman.

Í keppninni um stjörnumerki og aldur þeirra náunga bílstjóra og leiðsögumanns eru Ragnheiður Gyða og Valborg Sig. efstar og jafnar og verðlaun verða veitt á fundinum 30.sept.

Í gær, eða fyrradag réttara sagt var frjáls dagur og kom í ljós að enn vantaði ýmislegt til að menn gætu farið sáttir frá þessu ríki hins illa -þó svo Guðrún Margot orðaði það svo að allir þeir vondu hefðu greinilega verið í felum því enga slíka hittum við.

Eftir innkaup og göngur með Lífgjafarfljóti var haldið í kveðjukvöldverð sem var rétt dægilegur og þar var framin músík sem við hefðum viljað hlýða á langtum lengur en ég rak fólk miskunnarlaust í brottu um tíu leytið svo einhver svefn fengist.

Öldungis mögnuð stund og ekki spillti maturinn.
Sjahpar kom og borðaði með okkur og hópurinn færði henni myndarlegan blómvönd og Pezhman fékk ísl. disk með Garðari Thor og veglegan ísl. fána.
Þór Magnússon flutti falleg kveðjuorð á leið á hótelið og held að orð hans, góð og vís hafi lýst vel tilfinningum allra.

En nú erum við sem sagt mætt á svæðið eftir langan dag í London sem leið þó furðufljótt.

Vona að sem flestir geti notað helgina til að ná sálinni heim og svo verður auðvitað myndakvöld síðar.
Ætla sjálf að lufsast um á morgun á morgunslopp og bíða eftir að góð írönsk þreyta líði úr kroppnum.