Iljatappagerði- alls konar hugleiðingar

Fáir dagar gerast fegurri nú og ég vænti þess að allir séu á vappi á síðkvöldum og njóti þess.
Mér þótti tilkomumikið að vera í göngu Ómars Ragnarssonar í gær og ansans ósköp fróðlegt að sjá þar t.d ýmsa þingmenn sem bersýnilega hafa skipt um skoðun síðan þeir amenuðu þessa virkjun hér fyrir nokkrum árum.

Ég man þegar Elísabet dóttir mín hóf mótmælastöðu við Alþingishúsið fyrir fjórum árum og stóð þar vaktina daginn út og inn og smám saman bættust fleiri í hópinn, Jón Sigurðsson var vafinn í ál og löggan sagði við niðjatalið sem að því stóð: Við komum ekki aftur fyrr en eftir hálftíma. Veriði búnir þá.
Hver segir svo að lögreglan sé ekki bæði umhverfsissinnuð og hafi ekki húmor.

Fundir og hoppoghí
En að öðru:
Fundurinn á laugardaginn á Kornhlöðuloftinu.Hann hefst kl. 14.Minni á hann vel og rækilega.
Þar mun Jón Zakir, Azeri flytja smáupplýsingar um land sitt, Irma Georgíukona talar um Georgíu og Björk Þorgrímsdóttir, um Armeníu en þar var hún skiptinemi fyrir tæpu ári. Flutt verður tónlist frá þessum löndum.

Einnig munu liggja frammi ferðaáætlanir 2007 og bið menn skrá sig og það snarlega því ég verð að hafa langan fyrirvara til undirbúnings öllum ferðunum. Ekki má gleyma að afhent verða verðlaun fyrir stjörnumerkjakeppni Íransferðar.

Sé ekki að áhugi sé teljandi á Egyptalandi enda ferðaskrifstofur öðru hverju með reisur þangað. En Íran, Jemen, Jórdanía, Kákasuslöndin, Sýrland og Líbanon eru ekki á boðstólum annars staðar.

Munið endilega að taka nýja félaga með. Kaffi og hnallþórur seldar og einnig ætla ég að vera með þessa fáu Jemendiska sem eru eftir og fólk getur fest kaup á þeim.

Íransfarar í skýjunum af gleði- að ég best veit
Ég hef heyrt í nokkrum sem voru í Íranferðinni á dögunum og eru allir í skýjunum. Rakst síðast á Elínu Elísdóttur í gær og hún sem er alþekkt að prúðmennsku og ekki kona margra orða sagðist vera alveg í skýjunum og hún talaði stanslaust um ferðina hvar sem hún væri.

Varð vör við það hversu mjög það kom fólki á óvart hve viðmót Írana er einstaklega þægilegt, fyrir nú utan alla söguna og minjarnar og gersemsteppin og fleira sem keypt var. Það er pláss í Íran í marsferðina og nokkrir komast enn í aðrar ferðir.
Ef einhver vill skrifa inn á ábendingadálkinn þar að lútandi er það vel þegið. Þessi rangtúlkun manna á Vesturlöndum er svo óhemju hvimleið.

Er svo að bíða aðeins eftir að fá að vita hvenær ég fer í minn könnunarleiðangur til Kákasuslandanna. Það gæti orðið eftir svona tíu daga og mun náttúrlega tilkynna það vel og vandlega og blogga um ferðina kl. 14.