Áríðandi fróðleiksmolar til Íranfara og önnur létt speki

Allir séu nú sælir og sætir á þessum fallega septemberdegi.

Ég er ekki alveg viss um hversu margir Íranfarar hafa tölvu heima hjá sér, en sendi þetta núna svona til vonar og vara enda reikna ég með að langflestir taki sér frí á þriðjudaginn og þá er ágætt að sem flestir hafi kynnt sér þetta sem flest er tilkomið að gefnu tilefni:


1. Setjið lyf í gagnsæjan plastpoka í handfarangri ef ske kynni að annar handfarangur yrði settur í cargo í London. Hafið einnig bækur sem þið lesið á leiðinni nærri svo þið getið kippt þeim upp.

2. Bendi á að það er upplagt að konur séu með hatta á höfði þegar komið er til Írans og slæðu undir því konum er mislagið að halda slæðunni á hausnum svona til að byrja með

3. Munið að öll föt kvenna VERÐA að ná 10-12 sentimetra niður fyrir rassinn. Þetta hefur verið ítrekað margsinnis á fundum en virðist samt vefjast fyrir fólki.

4. Einn ferðafélaga sem fylgdi systur sinni og systurdóttur út á Keflavík um daginn
í flug kl 7,30 kom þangað kl. fimm og þá var flugstöðin þegar orðin þéttskipuð. Innritun byrjar ekki fyrr en fimm en betra að bíða framarlega í röð en lengst úti í horni svo ég hvet alla til að vera mjög tímanlega.

5. Ég hef fengið þær upplýsingar frá Flugleiðum að við getum tjekkað farangur alla leið, gjöra svo vel og fylgja því eftir og athuga hvort þið hafið fengið rétta farangurskvittun, þ.e. alla leið.

6. Forstýran okkar í Teheran fór um terminal 4 um daginn til Teheran og sagði að tjekk inn þar sem venjulega tæki kortér hefði verið yfir klukkutími núna vegna þess hve rækilega er leitað. Ekkert frekar á farþegum til Írans en annað þó.

7. Athugið að við komuna til Teheranflugvallar tekur venjulega drjúga stund að komast í gegnum vegabréfsskoðun. Það gerir ekki vitund til og stafar oftar af því að náungarnir eru svo forvitnir að skoða vegabréfin okkar en að þeir álíti okkur varhugaverð. Muna það.

8. Ef svo ólíklega vildi til að einhver farangur yrði eftir í London passa að fara ekki á límingunum. Það eru mörg flug til Írans á degi hverjum og farangur sem ekki skilar sér kemur undantekningarlítið strax daginn eftir og ferðaskrifstofan lætur sækja hann.

9. Muna að Íranir skilja ósköp vel að útlendingar, hvort sem eru konur eða karlar, þekkja ekki alla siði og venjur og eru mjög umburðarlyndir þó einhverjum verði á í smálega á í messunni.

10. Pezhman leiðsögumaður bíður í farangurssalnum. Venjan er að hann heilsar karlmönnum með handabandi en konum ekki. Þær býður hann velkomnar. ATH ÞAÐ. Þegar við kveðjum hann í ferðalok kveður hann svo alla með handabandi áður en við förum út á flugvöll.

11. Muna að skilja stress eftir heima. Þetta er allt undir kontról, allir hlakka til hvort sem er hér eða þeir sem sjá um okkur í Íran og allt er í góðu.

12. Muna að skilja eftir bloggsíðuna www.johannatravel.blogspot.com svo vinir og ættingjar geti fylgst með. Býst við að senda duggulítinn pistil á fimmtudaginn og svo öðru hverju. Skrifið endilega kveðjur í ábendingadálkinn. Það er okkur til gleði.

Haustfundurinn 30.sept
Leiðrétti hér með að haustfundurinn verður 30.sept á Kornhlöðuloftinu. Þar mun Azeri sem er búsettur hér segja frá landi sínu, kona frá Georgíu frá sínu landi og íslensk stúlka sem var skiptinemi í Armeníu tala um Armeníu. Þetta verða allt svona stutt erindi 10-12 mínútur hvert og allir taka því fúslega að svara spurningum á eftir.

Þar munu einnig liggja fram skráningarblöð.

Fréttabréfið mun þá væntanlega hafa borist öllum fyrir nokkru.

Ætla svo að stefna saman væntanlegum ferðafélögum til Íran í mars, Jemen/Jórdaníu og Kákasus í maí fljótlega eftir að ég kem heim þar sem farið verður yfir áætlanir og greiðslufyrirkomulag kynnt. Einnig tryggingamál.

Ég hef fengið nokkrar Egyptalandsfyrirspurnir og vona að fleiri bætist við á fundinum þann 30.sept. Eins getið þið skrifað mér þó ég sé í ferðinni því ég fer alltaf reglulega inn á póstinn minn.

Sæl að sinni og hringið í mig ef þið eruð í vafa um eitthvað eða sendið póst.