Til minnis---------fyrirspurnir um iljatappagerði

Aðeins til að minna á fundinn á Kornhlöðuloftinu á morgun kl. 14. Vonast til að sjá sem flesta.

Enginn Íransfari skrifaði inn á ábendingadálkinn um Íran. Kannski finnst fólki það svo sjálfsagt mál að þeir séu vinalegir. Ekki er Búss sammála því og þaðan af síður hrísgrjónastúlkan.

Fékk í gær myndir af drengjunum fjórum sem Guðmundur Pé, Högni og Helga Kr. styrkja og einnig mynd þar sem krakkarnir voru að sækja töskur og föt. Set þær inn um leið og ég hef náð í tæknistjórann.

Bárust fyrirspurnir um hvað iljatappagerði þýddi. Hef ekki hugmynd um það, en þetta er nýyrði afa míns Ísleifs heitins Gíslasonar í vísum sem hann kallar Nýtízku kenningar án þess að skýra það. Sting upp á að þetta sé kvenkenning. Annars var Ísleifur frábær furðuvera og orti einatt bara út í buskann og bláinn.
Svona er vísan sú

Sé ég vappa á síðkvöldum
sízt þó happ að verði
í ástartappaumbúðum
iljatappagerði.


Sjáumst altso á morgun