Drafnarstígsíbúinn er kominn heim

Sæl öll
Nýkomin heim frá Kaupmannahöfn, um Vínarborg og þar áður Baku í Azerbadjan. Þetta er fín flugleið og held að við notum hana í ferðinni/ferðunum. Austrian Airlines er ágætis flugfélag og sæmilegt verð á þeim miða.

Dagarnir mínir síðustu í Azerbadjan voru svo setnir að ég komst ekki til að skrifa neina speki inn á síðuna.

Ég er mjög hugsi eftir þessa ferð og býst við að taka mér smátíma til að melta hana.
Þessi lönd eru eldgömul menningarsvæði með fortíð, nútíð og framtíð sem má ekki á milli sjá hver er mest spennandi. Alls konar geðklofi í gangi í afstöðunni til Sovétríkjanna sem öll tilheyrðu þar til þau hrundu, sællar minningar,sagan öll, landslagið, mannlífið, allt er þetta stórt og mikið mál. Og öll fegurðin, maður lifandi! Vinsemdin, töffheitin, blíðan, rómantíkin, þjóðernisástin. Þetta verður mér rannsóknarefni næstu daga og vel það.

Það er ógerlegt að gera upp á milli þessara landa, hvert hefur sitt. Það er öldungis hárrétt. En auðvitað höfðar sumt meira til manns en annað.

Mér leist ekki á Baku í byrjun, fannst hún bara olíuborg með ljótum sovéskum blokkum og full af komplexum. En svo skoðaði ég hana nánar og umhverfi hennar og var hrifin. Virkilega snortin af gamla bænum og merkum minjum þar, hellaristum frá steinöld í grenndinni, gömlum grafhýsum hefðarmanna. Og ekki má gleyma teppahefðinni. Hún er eitt af mörgu sem er spennandi.

Var afar heppin með veður í Baku og dvaldi á hóteli þar sem Jóhannes Páll sálugi 2. staðnæmdist á í heimsókn sinni þangað fyrir um það bil sex árum. Mörgum þótti val páfa á hóteli kyndugt enda mörg miklu glæsilegri en þetta var lítið og heimilislegt og enginn skildi ensku og allt var boðið fram með gleði og ánægju og elskulegar litlar pöddur klifruðu til og frá um matinn og ég drap þær miskunnarlaust og fékk síðan móral eftir á.
Það skal tekið fram að við munum ekki halda til á því ágæta pödduhóteli, heldur kynnti ég mér ýmislegt sem er í boði og er nokkurn veginn komin að niðurstöðu og vona það hækki ekki verð.

Leist vel á ferðaskrifstofumennina okkar
Auðvitað var meginn partur af prógrammed að hitta ferðaskrifstofumenn, skoða hótel og kanna matarvenjur og hvað er í boði. Er skemmst frá því að segja að ég held að við höfum verið heppin og þetta virtust gæðamenn sem snerust í kringum mig, alsælir við þá tilhugsun að fá Íslendinga enda hafa þeir ekki látið mikið fyrir sér fara þarna né aðrir Skandinavar.
Ýmslegt praktískt þarf að gera með góðum fyrirvara svo sem vegabréfsáritanir og fleira en það leysist áreiðanlega allt með besta móti.

Hef ekki kannað póstinn minn en ætla rétt að vona að nú séu flestir búnir að borga sitt staðfestingargjald og bæði Íranfarar í febr. lok og Jemenfarar í marslok mega ekki láta dragast að greiða á réttum tíma. Ekki vegna þess að allt sé fullt af ferðamönnum, heldur sakir þess að hótelpláss er svo takmarkað að geti ég ekki sent út fullkomna, eða nær því fullkomna lista fljótlega er spurning hvort menn geti slegist í för á síðustu stundu.

Leyfi mér á minna á námskeið
Námskeiðið um Menningarheim araba verður vonandi nægilega vel sótt svo til þess verði efnt í næstu viku. Bið ykkur endilega að hafa samband við Mími símennt þar að lútandi.


Ekki má svo gleyma því að myndakvöld Íranfara sl. sept. er á döfinni og læt vita um það strax eftir helgina.

Og af því ég er vatnsberi og þar af leiðandi hreinskilin fannst mér leiðinlegt að fá ekki fleiri komment meðan ég var í ferðinni. En viðurkenni líka að mig hefði langað til að skrifa oftar og ítarlegar.
Heyrumst krakkar mínir.