Enn vantar nokkrar myndir af Jemenbörnum - heimasíða YERO og almenn hvatningarorð

Sæl öll

Við Gulla Pé gjaldkeri erum að útbúa kynningarefni til að fara með út á land hið skjótasta og Gulla slær mig alveg kalda þegar kemur að tölvukúnstum. Vonandi verður það tilbúið fljótlega svo við getum drifið í málunum.

Nouria sendi mér póst í kvöld, þar hafa línumál verið í ólestri og ekki nýtt fyrirbæri og þess vegna hefur orðið dráttur á að fólk fengi myndir og upplýsingar um krakkana sína. Núna vantar þó ekki nema fjögur börn og þá efnum við til foreldrafundar.
Ef einhverjir foreldrar úr fyrri hópunum, þ.e stuðningsfólk krakkanna fyrstu svo og þeir sem taka þátt í að hjálpa stúlkunum í fullorðinsfræðslu vilja koma á fundinn eru þeir margvelkomnir og ættuð þið að hafa samband. Munið svo reikningsnúmer Fatimusjóðsins 1151 15 551212 kt. 1402403979 ef þið viljið leggja málinu lið. Hver upphæð skiptir máli.

Vil benda á að með því að fara inn á www.ilari.net
má fræðast nánar um starfið hjá YERO.

Það er gaman að segja frá því að þetta Jemenverkefni okkar hefur töluvert spurst út og þrjú bréf komu í dag þar sem fólk sýnir áhuga á að fá meira að heyra og kannski einhverjir stuðningsmenn komi út úr því. Ef guð lofar.

Nokkur vandræði hafa verið hjá YERO varðandi sjálfboðavinnuna og því sendi ég á morgun úr Fatimusjóðnum upphæð sem svarar til helmings kennaralauna og helmingur var sendur samtímis því sem var borgað fyrir krakkana. Vona það hjálpi þeim eitthvað.

Beini þeim eindregnu hvatingarorðum til fólks að láta síðuna ganga. Eins og getið var um í síðasta pistli hafa orðið breytingar á þátttökulistum og því geta menn enn komist í Íranferðina í lok febrúar og Kákasus í maíbyrjun. Verið svo væn að senda síðuna áfram með nokkrum uppörvunarorðum.