FJÖR Á HAUSTFUNDINUM OKKAR- plús aðskiljanlega leiðréttingar

Góðir hálsar
Takk fyrir síðast í Kornhlöðunni í gær. Þar var fjör og kæti og tæplega sextíu manns skrifuðu í gestabókina og finnst mér það frábær mæting. Allmargir félagar höfðu sent mér ímeil vegna fjarvista vegna þátttöku í brúðkaupum, skírnarathöfnum og ég man ekki hvað og ég kveið því að fáir mættu.

En sem betur fór var fjölmenni og ég held að menn hafi skemmt sér hið besta. Gúffuðu í sig tertum og hlýddu á framsögumenn af hinni mestu ánægju.

Rannveig Guðmundsdóttir, VIMA félagi setti fundinn og stjórnaði honum. Áður en kom að framsögutölunum afhenti JK þeim Valborgu Sigurðardóttur og Ragnheiði Gyðu Jónsdóttur verðlaun vegna stjörnumerkja og aldursgreiningakeppninnar í Íran á dögunum.
Talaði Zakir Jón frá Azerbadjan um land sitt, dreifði bæklingum til upplýsinga og svaraði spurningum.
Irma O. Matchauariani kynnti Georgíu á lipran og skemmtilegan hátt og að loknu kaffihléi þar sem menn gerðu upp félagsgjöld, skráðu sig í VIMA eða skröfuðu talaði Björk Þorgrímsdóttir um veru sína í Armeníu og sýndi myndir þaðan. Björk sló á persónulega strengi og lukkaðist vel að ná´til fólks.

Rannveig þakkaði svo öllum gestum og sleit fundi en ýmsir sátu enn um hríð og spjölluðu

Svo þetta var hinn besti fundur eins og oftar hjá VIMA.

LEIÐRÉTTINGAR - áríðandi - áríðandi
Fyrsta fréttabréfið var sent út á meðan við hópurinn síðasti var í Íran svo ég sá það ekki fyrr en í gær. Þar voru skemmtilegar greinar um Ómanferðina í febrúar eftir Birnu Karlsdóttur og önnur mjög snjöll um Íran í mars eftir Vilborgu Sigurðardóttur. Einnig var pistill eftir JK um fullorðinsfræðsluna sem við styrkjum í Jemen og mynd af fósturdóttur Þóru Jónasdóttur sem hún hafði sent.

Síðast voru svo Ferðir Johannatravel árið 2007 og þar voru ansi miklar vitleysur sem ég vil leiðrétta snarlega.

Í fyrsta lagi var Ómanferð því miður löngu dottin út af því þátttaka var ekki næg. Vonandi verður hægt að safna í þá ferð síðar.

Öllu verra var að það steingleymdist að vekja athygli á að það er maíferð til Kákasuslandanna. Aðeins minnst á haustferð.
Ef þetta eru mín mistök bið ég forláts.
En Kákasuslandaferð er sem sagt fyrstu dagana í maí og ef þeir sem hafa skráð sig í hana ákveða pottþétt að fara er hún senn fullskipuð og haustferðin er komin vel á veg.

Mun nú senda þátttakendum í Íranferð í mars - þar get ég enn bætt við svona fjórum- verið snögg, Jemen/Jórdanía um páska og Kákasus í maí - imeil þar sem ég bið þá að gjöra svo vel og borga staðfestingargjald. Kákasuslandaferðin er bundin við ákveðin þátttakendafjölda eins og aðrar.

Önnur villa var líka um að farið yrði til Libyu í haust, það er haustið 2008. Sorrí Stína.

En sem sagt takk fyrir síðast og fínan fund.