Samkvæmt mínum kokkabókum

geta þrír bæst við í Íransferðina sem verður að öllum líkindum 25.febr-13.mars, eða svona nálægt því.

Tveir geta komist til viðbótar með í Jemenferðina um páskana en þarf að fá svör við hvorutveggja,Íran og Jemen um hæl.

Í Kákasusferðina í maíbyrjun má bæta við fjórum.

Þetta er auðvitað sagt með þeim fyrirvara að engir sem hafa tilkynnt sig gangi úr skaftinu.

Vil svo benda á Sýrland/Líbanon sem verður 29.ágúst-12.-13. sept. og seinni Kákasuslandaferðin er síðla september. Í báðar þessar ferðir eru ágæt pláss en bið menn samt að vera snögga.

Varðandi Egyptalandsferðina í byrjun febrúar er aftur á móti vafi því þar er enn ekki næg þátttaka. Læt þá sem hafa skráð sig fylgjast með en bið þá jafnframt að íhuga aðra kosti ef ekki verður af ferðinni.

Nokkurs trega hefur orðið vart- og ekki að ástæðulausu- hjá þeim sem vildu fara til Ómans og því sting ég því að ykkur áhugasömum að nóvember er mjög góður tími í þvísa landi og sé áhugi þarf að láta vita sem fyrst því hótelpláss er takmarkað og lengri fyrirvari er nauðsynlegur. Hér er vitanlega átt við nóvember 2007.

Hef sent öllum þátttakendum tilkynningu um að borga staðfestingargjald fyrir 15.okt. Það á við um þá sem ætla í ferðirnar til Íran, Jemen/Jórdaníu og Kákasus í maí.
Þegar hafa nokkrir drifið í málinu og takk fyrir það. Ég bið ykkur að láta þetta ekki klikka.

Fer sunnudaginn 8.okt. til Georgíu og Azerbadjan í ellefu daga en mun senda pistla þaðan og fylgjast með greiðslum. Sömuleiðis mun ég huga að pósti og hvet menn til að láta frá sér heyra. Veit um æðimarga sem eru áhugasamir og eggja þá til að taka ákvörðun. Eftir öllum sólarmerkjum að dæma verða mjög fáar ferðir árið 2008 og því um að gera að nota tækifærið.

Varðandi börnin okkar í Jemen: Nouria og hennar lið eru nú í óða önn að stússa í matargjöfum - sem við greiðum að hluta - vegna ramadans til allra fátækustu fjölskyldnanna. Að ramadan loknum mun svo Yero færa börnunum nýjar flíkur - kostnaðurinn sá er einnig innifalinn í okkar framlagi-og Nouria segist munu senda plögg með myndum og upplýsingum um nýju krakkana okkar um leið og þessari törn lýkur.

Þá hafa allnokkrir látið í ljós áhuga á að styrkja sjóðinn án þess að taka að sér tiltekið barn. Bara leggja inn. Það er nú ekki öðruvísi. Fatímusjóður hefur númerið 1151 15 551212 og kt. 1402403979.