Til fundar við Kákasusgerilinn

Góðan daginn

Vona þið fylgist vel og rækilega með pistlum því ég sendi ekki imeil til að tilkynna um þá.

Fer núna á eftir og til Hafnar og svo áfram til Tblisi með smástoppi í Vínarborg. Verð komin síðla kvölds eða í byrjun nætur og held að tímamunur sé fjórar klst.

Ég bið menn lengstra orða að drífa í að greiða staðfestingargjöldin og Jemen/Jórdaníufarar ættu að kynna sér sínar greiðslur. Svo og aðrir. Núna áðan gægðist ég inn á reikninginn og í dag 8.okt.(sem er raunar fæðingardagur Kristjóns, föður míns, hann hefði orðið 98 ára, elsku kallinn) hefur 1/5 af þeim sjötíu sem hafa skráð sig í ferðir vorsins borgað. Eiginlega ansi íslendingslegt en hreint óþægilegt þar sem bókhaldið mitt - þó pottþétt sé í sjálfu sér- er tafsamt þar sem ég hef náttúrlega ekki her manns til að færa inn.

Bendi á að nokkrir hafa ekki svarað mér hvort þeir ætla að koma/koma ekki og það finnst mér alveg ómögulegt. Gjöra svo vel og láta vita. Skilja menn virkilega ekki enn að það þarf langan fyrirvara, annars hleypur verðið upp og ég býst ekki við að menn séu áfjáðir í það.

Nú keyrir Elísabet mig út á völl og best að húrra töskum út í bíl.

Reikna með að skrifa inn á síðuna annað kvöld, mánudag og svo eftir hendinni og tíma.

Bið ykkur hress að una og vona þið látið frá ykkur heyra.