Beðið eftir óveðri

Í morgun mátti ég sofa út
hugsaði skríkjandi
kannski vakna ég öðru hverju
og stormurinn og óveður Haraldar
gnauðar á glugganum

kúri mig undir sængina
full tilhlökkunar
bíð eftir að húsið skjálfi
heyri öskutunnurnar fjúka út í buskann
hugsa

eru ekki allir að setja í jólagírinn
á ég að byrja smákökubaksturinn um helgina
fara í Íkea og kaupa eitthvað sem mig vantar ekki
endilega skrifa á jólakortin
þvo gardínurnar
taka til í skápunum
setja nýtt parkett á svefnherbergisgólfið
mála kannski stofuna rétt í leiðinni
skipuleggja jólamatinn
búa til ísinn
eða
tilkynna myndakvöld
undirbúa arabískukennslu
skrifa fyrirlestra
fara yfir kynningar í næstu viku

leit á klukkuna og
beið glaðvakandi eftir hvassviðrinu
hugsaði einbeitt
geri ekkert nema
ég fái þetta lofaða veður

kíkti út
trén bærðust varla
öskutunnur á sínum stað
allt til einskis
við erum veðuraumingjar,
bara hlý nóvembergola úti

fór á fætur
gersamlega buguð af biðinni

sé ekki fram á neitt jólastress
um helgina
létt amstur eins og aðra daga

vonglöð
læt ég þó setja vetrardekk undir bílinn