Ferð til Írans í gærkvöldi

Tókst afskaplega vel myndakvöld Íransfara í september í gærkvöldi, fagnaðarfundir og höfðu menn á orði að þeir hefðu farið ferðina á ný með því að horfa á disk Margrétar og Brynjólfs og kubb verkfræðingsins Guðrúnar Ól. plús albúmsmyndir sem voru meira og minna til fyrirmyndar.
Við borðuðum gómsæta löngu og kaffi og súkkulaðiskeljar í eftirmat. Flestir ferðalangarnir mættu og allir skemmtu sér vel við að rifja upp ferðina til þessa magnaða lands sem margir hafa svo rangar og vitlausar hugmyndir um að engu tali tekur. En hóparnir tveir á árinu eru góðir sendiherrar og kynna efalaust Íran.

Líður senn að því að ég þurfi að senda út vegabréfsnúmer þeirra sem fara í næstu ferð, svo og verð ég að faxa út ljósrit af síðum í vegabréfum og mun ganga eftir þeim innan tíðar. Þarf svo að senda út umsóknir og myndir um miðjan janúar en við hittumst fyrir þann tíma til að ganga frá málunum.

Ég ítrekaði það á fundinum í gær sem ég hef minnst á fyrr að það verður bara EIN ferð til Kákasuslandanna á árinu 2007 svo menn ættu að drífa sig að láta mig vita ef þeir hafa áhuga. Gjöra svo vel og láta það ekki dragast úr hömlu.

Þau tíðindi að hafa gerst á heimilinu hér að ég er loksins búin að koma mér upp ADSL tengingu svo nú ætti að vera auðveldara að ná í mig símleiðis þó ég sitji við tölvuna.