Fundur í Borgarnesi góðmennur en færri en á hinum tveimur

Góðan daginn
Eftir að hafa skrönglast um göturnar hér í Vesturbænum á Eyðimerkurljóninu, mínum litla fjallabíl, er ég ringlandi gáttuð yfir þjónustunni: það hefur gleymst að moka af götunum hér á þessu svæði. Eitthvað kraflað í þetta en eiginlega ekki nema hálffært fyrir okkur þessa fáu sem eru ekki á stórbrotnum jeppum. Klén þjónusta.

En hvað um það: Við Ragnheiður Gyða fórum í Borgarnes í gær og héldum kynningarfund. Þar var ívið færra en á hinum fundunum tveimur en góðmennt og fleiri nýir félagar bættust við og auk þess einn styrktarmaður Jemenstúlkna. Það var þakkarvert.
Okkur fannst þetta fyrirtaks fundur og mikið spurt og spjallað. Við fengum salinn í Landnámssetrinu ókeypis og þakka þeim húsráðendum Kjartani og Sigríði Margréti kærlega fyrir það.

Við látum nú staðar numið með ferðir út á land í bili en tökum upp þráðinn eftir áramót og allar leiðbeiningar þar að lútandi vel þegnar.

ÉG VIL ÍTREKA EITT ALVEG SÉRSTAKLEGA:
Þegar menn greiddu inn á ferðir um síðustu mánaðamót varð alls konar misskilningur. Ég bið menn að ganga úr skugga um það við greiðslu að ÞEIRRA EIGIN KENNITÖLUR birtist því annars fer allt í rugl og ég veit ekki hverjir borga. Vinsamlegast hafa þetta bak við bæði eyru við næstu greiðslu.
Muna að leggja greiðslur inn á réttan reikning 1151 15 550908. ALLS EKKI NEINN ANNAN. Þeir sem borga í öðrum bönkum en SPRON verða sérstaklega að hafa þetta hugfast.

Nokkur imeil koma alltaf til baka með villu. M.a imeil Eddu og Stefáns sem eru hjá mér með netfang á Raunvísindastofnun. Bið einnig Valborgu Sigurðard að senda mér nýtt imeil sitt á Spáni.

Hvet ritnefndarkonur til að hafa samband og segja okkur hvort þær eru komnar á skrið með næsta fréttabréf sem þarf að vera tilbúið um áramótin.

Býst ekki við ég þurfi að minna Íransfara í sept á myndakvöldið í kvöld. Geri það samt.

Ætla svo að óska aðaltæknistjóra þessarar síðu Elísabetu Ronaldsdóttur, vinkonu minni og ömmubarnsmóður, til hamingju en tvær myndir sem hún sá um klippingu á Mýrin og blóðbönd voru í sviðsljósi Edduverðlauna um helgina. Húrra fyrir henni.