Fundur Jemen/Jórdaníufélaga í dag, sunnudag. Ath.plássin til Íran

Mikið var gaman að vakna í morgun og vera næstum snjóaður inni. Ófærð og huggulegheit. Eins og á að vera í eðlilegum nóvember.

Fundur með Jemen/Jórdaníuförum var haldinn í dag, að vísu komust ekki allir til fundarins en mun senda upplýsingar til þeirra sem ekki voru þar. Við drukkum mikið af te og kaffi, borðuðum sætabrauð frá Azerbadjan og þjóðlegar piparkökur og rúsínur.
Skrafað um áætlun og ferðina og fínasta stemning þótt þeir væri auðvitað saknað ákaft sem fóru á mis við fundinn.

Fékk í gær endanlega áætlun til Kákasuslandanna og set hana á sinn stað á næstu dögum. Henni hefur verið breytt, ég ákvað eftir ferðina mína í október að heppilegra væri að byrja í Azerbadjan, síðan Georgía og enda í Armeníu. Auk þess gerði ég nokkrar aðrar breytingar og hugsa að þær séu allar til hins betra.
Það eru pláss í þá ferð og skyldu menn íhuga það. Áritun þarf til allra þriggja landanna og hef samband um það og kannski smáfund í byrjun desember.

Sömuleiðis hef ég betrumbætt smávegis Íranáætlunina og mun einnig setja hana inn áður en langt um líður. Íranfarar fá svo tilkynningu um hvenær við hittumst til að fylla út áritunarumsóknir og þess háttar. Fjögur pláss eru laus í Íranferðina, einkum stafar það af því að fólk hefur ekki látið vita fyrr en seint og um síðir að það á ekki heimangengt. Afleitt það.

Annað kvöld hyggjumst við Ragnheiður Gyða fara með Miðausturlanda og ferðalagskynninguna okkar í Landnámssetrið í Borgarnesi. Svo fremi sem veður og færð leyfi. Bið ykkur að láta það ganga.

Svo ætla Íranfarar frá því í september að hittast á þriðjudagskvöldið kl. 18 og allir með myndir og hlakka til vænti ég.

Arabískukennslan hjá Mími byrjar á miðvikudagskvöldið og þar er orðið fullskipað sýnist mér. Það verður skemmtilegt.