Útrásin gengur takk bærilega

VIÐ VIMA konur vorum með kynninguna okkar í Bókakaffi Bjarna Harðarsonar á Selfossi í gærkvöldi og það var skemmtilegt kvöld.
Þetta er notalegt kaffihús sem er óhætt að mæla með.
Við fengum góða aðsókn og fínar undirtektir og menn fylgdust með fyrirlestri og myndadiski af miklum áhuga. Svo var ferðaáætlunum dreift og fréttabréfi. Elísabet Jökulsdóttir las einnig úr ljóðabókinni Englafriður sem varð til upp úr ferð hennar til Líbanons og Sýrlands með johannatravel fyrir tveimur árum.

Fyrsta kynningin var á mánudagskvöldið í Hótel Varmahlíð í Skagafirði. Veðrið var heldur ólánlegt á leiðinni norður en við komumst á leiðarenda af harðfylgi. Á kynningarfundinn komu um 40 manns og urðu líflegar umræður eftir fyrirlesturinn og var góð stemning.Svanhildur hótelstjóri hafði ljúffengan arabískan mat á boðstólum sem gerði lukku.

Við ætlum svo að vera í Borgarnesi n.k. mánudagskvöld, í Landnámssetri kl. 20,30 og hið ágæta blað Skessuhorn mun birta væna frétt um það og svo höfum við komið þessu áleiðis til nemenda á Bifröst. Ég væri þakklát fyrir ef þið létuð þetta berast til þeirra á svæðinu sem þið kannist við.

Þegar þeirri kynningu er lokið ætlum við að láta staðar numið í bili því nú fara allir að sinna jóla-einhverju. En í janúar - upp úr 10. væri ráð að skreppa til Akureyrar, kannski í Dalina og fleiri staðir eru á döfinni og gaman að heyra frá ykkur t.d. einhverjum sem búa úti á landi og hafa áhuga á að aðstoða okkur við þetta.
Mér finnst hafa sýnt sig á þessum tveimur kynningum sem búnar eru að það er mikill áhugi á Miðausturlöndum víðar en í Reykjavík og næstu grennd.

Minni svo Jemenfarana að láta mig vita um hvort þeir komast á þann fund sem ég hef sent þeim skilaboð um. Einnig eru nokkrir Íranfarar (septhópur) sem hafa ekki látið vita hvort þeir mæta á myndakvöldið. Það er hugsanlegt að beðið verði með fund með Kákassus fólki fram yfir áramót.
Verið svo væn að láta snarlega - og þá meina ég SNARLEGA- í ykkur heyra.