Hinar aðskiljanlegu upplýsingar- Aðeins ein ferð til Sýrlands 2005

Góðan daginn og óskandi að mönnum hafi liðið vel um jólin og séu reiðubúnir að taka á móti næsta skammti af hátíðahöldum.

Það þarf að koma fram og fyrr en síðar að það eru nánast engin líkindi til að haustferð verði til Líbanons og Sýrlands 2005. Ýmsir hafa sent fyrirspurnir um þetta og svarið liggur sum sé fyrir: ekki haustferð vegna þess að ég verð upptekin við aðra iðju.

Upplýsingar um Ómanferð eru ekki komnar í hús en set þær inn á síðuna fyrir 10.janúar ef guð lofar. Sú ferð gæti orðið í nóvember 2005 ef þátttaka fæst en líklega ekki fyrr en í febrúar 2006.

Hvað Íran varðar hangir það í lausu lofti, vonast til að komast þangað síðari hluta febrúar og athuga það mál.

Um ferðir vorsins er allt gott að frétta.
Fundur með áhugasömum Jemen/Jórdaníuförum í maí verður fyrir miðjan janúar og tilkynntur nánar seinna. Egyptalandsferðin um páskana er fullskipuð.
Sýrlands/Líbanonsferðin er á góðu róli eins og við er að búast. Í sambandi við fleiri ferðir þangað má reikna með allverulegri hækkun - ekki á vorferðinni þó- en ef næsta verður vorið 2006 því Sýrlendingar ætla þá að hætta að innheimta í dollurum og brúka evruna svo á þessari stundu óljóst hvernig þau mál skipast.
Ég hvet sem sagt þá sem voru að hugsa um haustferðina til að slá sér frekar í vorferðina. Það er pláss enn og hugsanlegt - bara hugsanlegt þó- að hún lækki um 5 þúsund krónur. Það mun skýrast en varla fyrr en í febrúar.

Vegna fyrirspurna um Menningarnámskeiðið hjá Mími símennt verður það fimm kvölda námskeið og hefst upp úr 15.janúar. Menn skrái sig á það hjá Mími. Þetta hafa verið afskaplega vel sótt námskeið en nú þarf ég að byrja það fyrst/ef ég skrepp til Írans í febrúar.
Í fyrsta tímanum er fjallað um islam og sagt frá Múhameð spámanni. Í tíma tvö er rætt um stöðu konunnar, þriðji tími: menningarmál á svæðunum og tiplað á sögunni. Í fjórða tíma er rætt um stofnun Ísraelsríkis og þau áhrif sem það hefur haft á framvindu mála í þessum heimshluta. Í þeim tíma er einnig boðið upp á arabískan mat að smakka. Í fimmta tímanum er rætt um stríðið, einkum þó stríðið 1991 og þær afleiðingar sem það hefur svo haft.

Mímir auglýsir fyrstu vikuna í janúar og ættu menn þá að húrra sér í að skrá sig.

Minni svo Egyptalandsfara í mars og Sýrlands/Líbanonsferðalanga í apríl blíðlega á janúargreiðsluna. Reikningsnúmerið er 1151 15 550 908 og kt. mín er 1402403979. Bið ykkur að muna að greiða 1.-10.janúar.

Einnig vil ég minna á félagsgjöld VIMA, en við munum halda fund í lok janúar, þ.e. almennan félagsfund og greint frá dagskrá hans síðar. Verið svo þægileg að láta þessar upplýsingar ganga til félaga og kunningja sem hafa ekki netfang.
MUNIÐ LÍKA MAHER-sjóðinn!!

Gleðilegt ár og kærar þakkir fyrir samstarf og samveru á árinu 2004. Vona að árið 2005 verði okkur gjöfult ferðaár.

GLEÐILEGA HÁTÍÐ

Góðan aðfangadag

Mig langar að senda öllum VIMA félögum og öðrum góðum kunningjum bestu jólakveðjur

Þakka kærlega fyrir samveruna í ferðalögum sem og víðar á árinu. Það hefur allt verið hið skemmtilegasta mál.

Eftir jólin snúum við okkur einbeitt að ferðamálum og ég hvet alla til að hafa samband.

GLEÐILEG JÓL

HVER FÆR SÍÐASTA EINTAKIÐ

FJÓRÐA prentun af ARAB'IUKONUM er að verða uppseld!!!!!!! Ég gat ekki fengið höfundareintökin mín í gær því bókin var búin á lager og of seint að setja af stað 5.prentun. Hins vegar er enn nóg til í verslunum og vonar útgefandinn að þetta náist en nagar sig duggulítið í handarbökin að því að mér heyrist að hafa ekki haft 4. prentun aðeins stærri.
Enn er bókin í fyrsta sæti í verslunum Eymundsson/Pennanum og þar er aðalbóksalan í dag og á morgun segja mér vísir menn og er þetta vissulega skemmtileg.
Las fínan dóm í VERU í gær um bókina og má segja að allir dómar hafi verið sérdeilis góðir og mikið er nú gaman að því.

Er orðin skikkanleg af flensunni og fer nú loks að kaupa smáglaðning handa niðjatalinu. Og þá er að festa kaup á smámatarögn til að maður verði ekki hungurmorða yfir jóladagana. Þetta vippa ég mér í á eftir og tek þessu af hugans kyrrð og gleði yfir því hvað allir hafa tekið Arabíukonum vel.
Verð að bíða með að bóna gólf og þvo og smákökurnar eru óbakaðar. En hafa þá ekki alls konar kunningjar og jafnvel fólk sem ég þekki lítið sem ekkert þyrpst hingað með alls konar gúmmulaði. Takk fyrir alla þá hugulsemi.

Elísabet hefur staðið vaktina með ljóðabókina sína og selt hana sjálf af hinum mesta skörungsskap. Fengið fínar undirtektir enda er hún einstaklega lagin sölukona og friðarljóðin hinn merkasti kveðskapur að mínu viti.


GÓÐAR UMSAGNIR UM ARAB'IUKONUR FOSSA INN

Undanfarið hafa þessir líka skínandi dómar/umsagnir birst hér og hvar um ARABÍUKONUR, svo sem á Kistunni, í starfsmannablaði ríkisstarfsmanna, Fréttablaðinu, í Kastljósinu, fyrir utan DV og Morgunblaðið og kannski víðar og kætir þetta mig mjög.
Hef lesið eins og forkur vítt og breitt en í kvöld verð ég að sleppa því þar sem ég hef fengið einhverja pest og ligg eins og ræfill með háan hita í mínu bóli. Einar Már Guðmundsson sá ágæti félagi hefur lofað að ræða um bókina áður en hann les úr Bítlaávarpinu.Við höfum lesið svo oft saman að undanförnu að ég efa ekki að hann fer létt með það.
Tveir lestrar voru bókaðir á morgun og hefur mín undurgóða samstarfskona í ferðunum Ragnheiður Gyða Jónsdóttir tekið það mál í sínar hendur.
Þetta virðist einnig benda til að ég komist ekki á Fegurðarkeppni herra Íslands þar sem Garpur Elísabetarson mun birtast í allri sinni dýrð. Vonandi líður þetta hjá svo lestrar í næstu viku fari fram samkvæmt áætlun.
Þetta hefur einnig sett strik í reikninginn varðandi sextíusmákökutegundabaksturinn og má auðvitað þakka fyrir það.

Arabíukonur tróna sem fyrr í fyrsta sæti allra Eymundsson og Penna verslana en hafa lækkað í könnun Félagsvísindastofunar. Það finnst mér að mitt kæra lið eigi að taka föstum tökum og það snarlega.
Nokkrir hafa bæst við sem áhugasamir um Egyptalandsferð og er það í góðu lagi og fyrirspurnir berast um Sýrlands og Líbanonsferð og gleður þetta minn kvefaða og heita haus.

Er búin að fá kássu af bæklingum um Óman og verði heilastarfsemin komin í skikkanlegt horf upp úr helginni vonast ég til að geta skutlað því inn á síðuna um það leyti.


Svo þakka ég enn góðar kveðjur frá ykkur varðandi bókina. Þær eru mikið gleðiefni. Og út í búðir nú og kaupið. Það gengur ekki að láta deigan síga. Fjórða prentun verður tilbúin um helgina og vonast ég til að hún gangi jafn vel. Sæl að sinni öll saman. Nú snara ég mér aftur í sjúklingshlutverkið sem ég sinni af einurð þessa dagana.

Hugvekja á aðventunni

Allt gengur eins og í blíðum sóma með Arabíukonurnar. Í síðustu viku héldu þær fyrsta sæti sínu á lista Eymundsson og Penna verslana í sínum flokki og á heildarlista Félagsvísindastofunar færðust þær upp um tvö sæti.
Væri ekki þjóðráð að húrra þeim upp um amk eitt fyrir næstu könnun sem er á miðvikudag. Allir í búð að kaupa. Mér skilst að þriðja prentunin sem kom í verslanir í gær, laugardag hafi rúllað vel af stað.

Mig langar til að minna Sýrlands/Líbanonsfara á að nokkrir eiga eftir að greiða staðfestingargjöld sín og þætti það ánægjulegt ef menn drifu í því. Ef einhverjir erfiðleikar eru varðandi það láta mig þá vita.
Eins og ég sagði mun ég ekki loka þeirri ferð fyrr en upp úr áramótum og fagna áhugasömum sem vilja bætast við en þeir ættu að láta í sér heyra.
OG SEM ALLRA ALLRA FYRST. Það líður að því að ég þurfi að senda út poka fulla af peningum bæði til flugfélagsins MALEV og Jasmin í Sýrlandi.

Og þá er líka vert að benda á að enn vantar mikið á að menn hafi greitt í Maher sjóðinn. Læt hér fylgja reikningsnúmerið 1147 05 401402 og kt. mín 1402403979. Upphæðin er ekki stór 2.000 kr. á mann. Það er ótrúlegt að nokkurn muni að ráði um það.
Það hefur óneitanlega valdið okkur í stjórn VIMA nokkrum heilabrotum hvað margir hafa látið það dragast. Allir eru sammála um að við viljum bjóða okkar ljúfa leiðsögumanni hingað næsta sumar og dagsetningar hafa þegar verið ákveðnar 6.-20 júlí.
Margir elskulegir VIMA félagar hafa gefið sig fram og boðist til að fara með Maher út og suður og er það til fyrirmyndar. Einnig ætlum við að efna til samkoma með Maher svo hann geti hitt sem flesta úr ferðunum.

Vil benda á að fundur um Jemen/Jórdaníu verður haldinn í kringum 10.janúar. Þar eru laus 2 pláss.

INSJALLAH bókin er til reiðu elskurnar mínar. Látið í ykkur heyra ef þið viljið hana. Upplögð til að kveikja fyrstu glóðina.

Ég var sömuleiðis að lesa á netinu þennan fína ritdóm um ferðaljóðabókina mína Á leið til Timbúktú. Svo virðist sem einhver hafi þýtt slatta af ljóðunum á ensku og sett á netið. Gaman að því.

Vegna þess að ég hef fengið fleiri eintök af Arabíukonum og get því útvegað þær á hinu hagstæðasta verði.

Það er að verða um garð gengið mesta annríkið við að lesa upp úr bókinni svo nú væri kannski tilvalið að maður sneri sér að því að þvo gardínurnar og tjekka á jólaseríunum. Vinkona mín hefur fært mér jólapiparkökurnar og bráðum tekst mér að hefja kortaskrif. Áður en að því kemur mun ég kætast í fimmtugsafmæli tengdadóttur minnar og fylgjast með Garpi Elísabetarsyni sem ákvað að taka þátt í keppninni um Herra Ísland. Óneitanlega fæst niðjatal mitt við athyglisverða þætti.

Og í blálokin fyrir bókaunnendur: Elísabet dóttir mín hefur nú lokið friðarljóðunum sem hún hóf að semja í Sýrlandi í september og þau koma út á bók núna í vikunni.

KÆTI og LÆTI Í BÆ - ÞRIÐJA PRENTUN AF ARAB'IUKONUM

Get ekki á mér setið að fagna því og segja ykkur þau ánægjulegu tíðindi að önnur prentun af Arabíukonum er nú á þrotum og þriðja prentun er í gangi. Þetta hefur sannarlega gengið betur en ég þorði að vona og má gleðjast yfir því.
Einnig er gaman að segja frá því hvað upplestrum er vel tekið og oft spinnast miklar umræður og spurningar að lestri loknum.

Höldum ótrauð áfram félagar góðir. Og takk fyrir stuðninginn.

Þá vil ég nefna að nokkrir sem pöntuðu Insjallah eiga eftir að borga. Ég hef fleiri Insjallahbækur svo gjörsovel; hafiði bara samband og ég vippa til ykkar bókinni.
Þar sem ég fæ höfundareintök við hverja prentun get ég líka útvegað nokkrar Arabíukonur í viðbót á spottprís.

Loks má geta þess að ég vonast til að Óman hugmyndir fljúgi inn á síðuna innan viku. Fylgist því með vandlega.
Er nú á leið í einn upplestur og svo til Ólafsvíkur í annan. Bless í bili.

FERÐALÖG og AÐVENTA

Sumir vilja vita um ferðalög og þó er aðventan byrjuð. Ferðaglatt fólk Vima félagar. Það er allt á góðu róli. Sýrlands/Líbanonsfarar eru að greiða sín staðfestingargjöld þessa dagana og Egyptalandsfarar hafa lokið því. Minni þó enn og aftur á að enn komast menn með í Sýrlandsferðina og ég ætla ekki að loka henni fyrr en í janúar.
Nefna má að Óman er aftur komið til skjalanna en ekki tímabært að huga að því í einum grænum. Læt allar upplýsingar um það inn á síðuna þegar ég hef séð þau plögg sem fara nú dagfari og náttfari frá Óman og áleiðis á Drafnarstíg.
Ferð til Ómans yrði að efna til á öðrum tímum en Líbanons/Sýrlandsferðir eða Jemen/Jórdaníu. Þar er orðið alltof heitt í mars og því hef ég febrúar eða nóvember - varla á næsta ári þó- bak við bæði eyrun.
Alltaf gott að heyra í ykkur. Verið aðsópsmikil við að láta í ykkur heyra. Sæl að sinni.

Upplestrar og Arabíukonur

Það er líf í tuskunum hjá mér þessa dagana að lesa úr Arabíukonum. Undirtektir eru afskaplega góðar og mikið spurt og spjallað eftir lestur. Bókin er nr. 1 í sínum flokki hjá Eymundsson/Mál og menningarbúðum og nr 2 á aðallista þar. Hún hrasaði um nokkur sæti á lista Mogga í morgun en stendur sig engu að síður með sóma. Við gerum bara átak í því fyrir næstu könnun ljúfurnar mínar. Mér skilst að önnur prentun sé á góðri leið með að seljast upp líka svo þriðja prentun gæti verið innan seilingar.
Mér þykir mjög vænt um hvað margir hafa sent mér línu og tjáð sig um bókina.
Mál og menning hyggst svo hefja kynningu á henni erlendis á nýju ári og það verður gaman.

INSJALLAH LOKS KOMIN Í HÚS

Góðan daginn og blessaðan
Hef loksins fengið INSJALLAH bækurnar og aðeins færri en ég reiknaði með. Vonast þó til að geta útvegað fleiri ef áhugi er fyrir hendi. Þið látið bara í ykkur heyra.