Mikil viðbrögð vegna framlaga til flóttamanna

Ágætu félagar
Það er mér sönn gleði að segja frá því að VIMA félagar hafa brugðist vel við þeirri hugmynd að senda smáupphæð í verkefni til menntunar stúlkna í flóttamannabúðunum í Sabra og Sjatilla í Líbanon.
Þær raddir hafa einnig heyrst í imeilum frá félögum að það væri verðugt verkefni ef við gætum á einhvern hátt gert fleira og m.a tekið að okkur að styrkja einn eða tvo til skólagöngu. Allt er þetta mikilsvert og mikilverðast þó að láta þetta fólk finna samhug og vilja til að veita aðstoð - og að sá vilji gufar ekki upp um leið og við erum komin í velsældina hér.

Þetta mál mætti kynna ítarlegar á haustfundi okkar VIMA félaga sem verður í október. Þá verðum við búin að stofna sérstakan reikning sem fólk gæti lagt inn á. Ef einhverjir fleiri vilja taka þátt í þessu fyrir þann tíma endilega leggið inn á reikninginn minn 1151 15 550 908. Kt. mín 1402403979.
Þakka svo virktavel þeim sem þegar hafa látið í sér heyra og munið að upphæðin skiptir ekki máli heldur hugur sem að baki býr. Tíu dollara muna fæsta um = um 720 kr. eða svo.

Vilja einhverjir senda í flóttamannabúðirnar

Hugulsamur VIMU félagi hefur komið til mín peningaupphæð og vill með því sýna í verki að hann vill rétta hjálparhönd fólkinu í flóttamannabúðunum í Sabra og Sjatilla í Líbanon. Þetta fannst mér til slíkrar fyrirmyndar að ég varð að láta þetta koma fram.

Í aprílferðinni stungu tveir ferðafélagar einmitt upp á því að við létum smáupphæð af hendi rakna og lagði hver fram 10 dollara. Það rann í sérstakt verkefni sem er unnið í þágu menntunar fyrir stúlkur í flóttamannabúðunum.
Ef einhverjir hafa hug á að senda eitthvað smotterí er hægt að hafa samband við mig og mér er sönn ánægja að koma því í réttar hendur.
Hjá þessu fólki er eymdin mikil og í okkar allsnægtasamfélagi munar fæsta um að rétta hjálparhönd og vita að þeir peningar færu í verkefni sem vonandi kæmi fólki til góða.
Íhugið málið. Ég vonast til að einhverjir vilji leggja þessu lið.

Bókamál og arabískar konur

Eins og ég hef sagt áður hafa VIMA félagar sýnt því áhuga að kaupa bókina mína um arabískar konur á sérstökum kjörum. Af gefnu tilefni er rétt að taka það fram að þar sem ég fæ takmarkaðan fjölda verða VIMA félagar að hafa forgang.

Það er á hinn bóginn hægðarleikur að skrá sig í VIMA og þarf ekki annað en senda mér póst og senda nafn, kennitölu, heimili og síma/netfang.
Guðlaug gjaldkeri Pétursdóttir mun senda út rukkanir til félaga eftir mánaðamótin og er þeim tilmælum beint til fólks að það greiði skilvíslega og snarlega. Árgjaldið er 2 þús. krónur eins og fram hefur komið.

Egyptalandsferð á fleygiferð- skráið ykkur snarlega

Það er deginum ljósara að VIMU félagar ætla á flakk og flandur á næsta ári. Egyptalandsferðin hefur fengið ákaflega góðar undirtektir og til fróðleiks skal á það bent að fundur verður um hana um miðjan október.
Bendi á að það er aðkallandi að menn skrái sig fyrir þann tíma því fundir okkar eru ekki auglýstir nema svona millum okkar eins og venjulega. Látið því ganga til þeirra sem hafa ekki tölvupóst.

Fundur um Sýrlands/Líbanonsferðina í apríl n.k. verður skömmu síðar og loks Jemen/Jórdanía í októberlok. Þátttaku er því heppilegast að tilkynna hið allra fyrsta. Tek fram að þetta á ekki við þá sem hafa þegar látið mig vita um áhuga sinn.

Bendi á að Sýrlands/Líbanonsferðin í apríl verður á sama verði og fyrr en gjald fyrir eins manns herbergi verður 280 dollarar fyrir alla ferðina.
Þá verður líka sama verð á Jemen/Jórdaníuferðinni en við fáum smáaukaglaðning án þess að verð breytist, þ.e. aukanótt í Amman og ferðin inn í tungldalinn Wadi Rum.

Nýir tenglar á síðunni

Það hefur verið settur inn tengillinn Hvað er Vima og hvet ykkur til að kíkja á það nú og á næstunni. Einnig er Íran/Sýrland komið inn þó dagskrá liggi ekki fyrir.
Þá mun tæknistjóri johannatravel setja inn fleiri Jemensmyndir í kvöld. Gægist á þær.

Fundurinn um ferðina til Sýrlands og Líbanons þann 3.september n.k. var haldinn í gær, laugardag og fengu menn þar miða og önnur gögn og var skrafað um ferðina og allir hlakka til og voru í hinu fegursta skapi. Ég minni á að ég sendi pistla úr ferðinni svo að þið getið fylgst með okkur.

KARLMAÐURINN ER FUNDINN!/Mundið laugardagsfund

Þá hefur fyrsti karlmaðurinn skráð sig sem VIMU kaupanda að bókinni minni um arabískar konur. Ljómandi var ég ánægð með það. Hann er fyrrverandi nemandi minn á tveimur námskeiðum í arabísku og hyggur nú á nám í Egyptalandi á næstunni í málinu. Vil taka fram að ég fæ ekki nema einhvern takmarkaðan fjölda bóka á spes verði svo þið ættuð að láta mig vita fyrr en síðar hvort ég eigi að skrá ykkur fyrir eintaki.

Þá vil ég ítreka fund n.k. laugardag með hópnum sem fer til Líbanons og Sýrlands þann 3.september. Í gamla Stýrimannaskólanum við Öldugötu(fyrir enda Stýrimannstígs) kl. 14. Fundurinn stendur í klukkustund, varla öllu lengur enda menningarnótt hafin þó miður dagur sé og menn vilja væntanlega taka þátt í því húllumhæi.
Og vel á minnst: Reykjavík á afmæli í dag. Til lukku með það.

Myndir hafa bæst við í massavís/Skráningar

Eins og þið sjáið hefur fjöldinn allur af Líbanons og Sýrlandsmyndum bæst við inn á síðuna. Farið í skjölin og þær birtast þar snarlega. Þær nýjustu eru eftir Guðrúnu Hrönn Ingimarsdóttur og voru flestar teknar í septemberferðinni 2003 en einnig hefur hinn ágæti tæknisérfræðingur johannatravel, Elísabet Ronaldsdóttir, bætt inn myndum af diskum Margrétar Hermanns Auðardóttur og Guðrúnar Valgerðar og Elvars.
Á næstunni streyma inn Jemenmyndir. Hvet ykkur til að fylgjast með.

Ég vil biðja þá félaga sem hafa imeil að láta allar upplýsingar hlaupa til þeirra sem ekki eru með netfang. Takk fyrir það.

Einnig vil ég svo ítreka að það er aðkallandi að menn drífi sig að skrá sig í ferðir, m.a. Sýrlands og Líbanonsferðina næsta vor. Ég þarf að ganga frá dagsetningum í þá ferð þegar ég fer með hópinn í september n.k. Ferðamenn eru nú farnir að flykkjast til Sýrlands og þarf að hafa mun lengri fyrirvara en í fyrra á pöntunum.


EGYPTALANDS'AÆTLUN komin inn

Þá er einn blíðudagurinn enn. Vinsamlegast kíkið á Egyptaland. Þar er ný og fullkomin áætlun komin inn. Breyting á brottfarardegi er 20. í stað 18. Heimkoma er 30.mars. Á ekki von á að það raski neinu hjá ykkur.
Ég ákvað að bæta Aswan inn því það er eiginlega út í móa að fara til Egyptalands og niður til Lúxor og sleppa Aswan.
Mér finnst áætlunin mun betri svona. Við munum nota Malev frá Kaupmannahöfn. Það hefur tafist að setja endanlega áætlun inn því ég hef verið að bagsa við að fá skikkanlegt flugfargjald. Nú ætti það að vera komið.
Eftir sólarmerkjum að dæma er mikill áhugi á þessari ferð og því hvet ég menn til að staðfesta áhuga sinn. Endurtek þó að nokkrir hafa nánast bókað sig svo þeir þurfa ekki að láta vita af sér.
Fundur verður um þessa ferð í október. Það eru ýmsir veltandi og vaggandi.Væri nú ráð að rétta vaggið af og tjá vilja sinn formlega.

Höfundar myndanna--bókamál og fleira smálegt

Það kom ekki fram í tilkynningu nema til sumra að höfundar myndanna sem merktar eru undir Sýrland eru þau hjón Elvar Ástráðsson og Guðrún Valgerður Bóasdóttir. Á myndakvöldinu í vor færðu þau mér þennan disk. Sama er að segja um þann sem er á síðunni merktur Líbanon og er raunar einkum og aðallega frá Sýrlandi er eftir Margréti Hermanns Auðardóttur. Þökk sé þessu ágæta fólki.
Jemenmyndirnar sem eru komnar inn eru teknar af JK í hinum ýmsu ferðalögum. Svo bætist vonandi við myndahrúga Elínar Elísdóttur frá Líbanon og Sýrlandi á næstunni og eins Jemenmyndir í þann dálk sem teknar voru í ferðinni í vor.

Vil einnig taka fram að undirtektir hafa verið góðar við bókinni minni um arabískar konur og VIMAfélagsKONUR hafa skráð sig á lista. Bíð með öndina í hálsinum eftir fyrsta kk áhugamanni en hvet ykkur til að láta mig vita.

Þá hef ég fengið nokkrar hvatningar um að enginn gleymist þegar fundir verða tilkynntar. Engin hætta á því. Gjaldkeri VIMA Guðlaug Pétursdóttir mun senda út félagsgjaldarukkun eftir mánaðamótin og einnig verður séð til þess að þeir sem ekki hafa imeil fái upphringingu eða bréf. Einnig bið ég þá sem hafa imeil að láta upplýsingar ganga eins og margfætlu.

Sé ekki betur en félagar séu langt komnir með að fylla Egyptalandsferð. Er að vonast eftir að geta síðar í dag sett inn fyllri dagskrá þar og nákvæmara verð.

Sýrland/Líbanon er á góðu róli og Jemen/Jórdanía líka þó mér finnist menn full hikandi þar. Mætti segja mér að allir þátttakendur í maíferðinni ljúki upp einum munni um að sú ferð sé mjög spes og einstök.
Látið í ykkur heyra, til þess er þessi síða.

fYRSTU MYNDIR KOMNAR INN

kÆRUSTU FÉLAGAR. fYRSTU MYNDIR KOMNAR INN. sÝRLANDSMERKTAR ERU AÐALLEGA ÚR APRÍLFERÐ 2003 OG ÞÆR SEM ERU MERKTAR lÍBANON ERU RAUNAR EKKI SÍÐUR ÚR sÝLANDSFERÐ Í SEPTEMBER 2003. mERKI ÞÆR Á NÆSTU DÖGUM.
eLÍN eLÍSDÓTTIR HEFUR EINNIG LÁTIÐ MIG FÁ FÍNT ALBÚM MEÐ MYNDUM SEM VERÐA EINNIG SETTAR INN FLJÓTLEGA. þÆR ÞARF AÐ SKANNA INN SVO ÞAÐ GÆTI ORÐIÐ SMÁVÆGILEG BIÐ.
Einnig munu bætast við Jemenmyndir úr maíferð innan tíðar. Ef einhverjir eiga góðar myndir, þá væru þær ljómandi vel þegnar, úr hverri ferðinni sem er.
En munið bara að kíkja reglulega og fylgast með.
Góða skemmtun og þakkir til tæknistjóra johannatravel, Elísabetar Ronaldsdóttur fyrir að vippa þessum myndum inn í kvöld.
Sofið svo rótt og hlakkið til að skoða myndirnar - og vita að fleiri muni bætast við.

AFSAKIÐ MYNDASEINKUN - ´FUNDIR HAUSTSINS

Þið verðið að afsaka að það tafðist að setja myndirnar inn. En þær koma senn.

Fyrsti fundur haustsins verður haldinn í byrjun október og tilkynnt nánar um það síðar.

Hef fengið töluverð viðbrögð við bókarmálum mínum. Mun nú reyna að komast að samkomulagi við útgefandann um að VIMA félagar geti fengið hana á kostakjörum. Því væri gott að heyra um áhuga og senda mér nöfn þeirra sem kynnu að hafa áhuga svo ég viti hvað ég þarf að biðja um margar VIMA bækur

Heyrumst skjótt.

Bók um arabískar konur

Þá er um að gera að segja frá því að í október kemur út bókin mín um konur í fjórum arabalöndum, Óman, Sýrlandi, Jemen og Egyptalandi. Þessi bók er byggð á viðtölum við konurnar og ég hef unnið að þessari bók með hléum í tvö ár.
Þarna er spjallað við konur á öllum aldri og úr öllum stéttum. Meðal annars við í Óman: mirrusöludrottningu, tvær þingkonur, hjartalækni, stelpu á Netkaffi, saumakonu og kennara
Sýrland: lyfjafræðing,ráðherra og drúsakonu sem er blaðamaður
Egyptaland: hagfræðing, sagnfræðing, húsfreyju, ræstistúlku, og kvenfélagskonu
Jemen: kennari, nemandi, 14 ára kaupkona, þýsk kona sem hefur búið í Jemen í áratugi og svo framvegis.
Eins og við vitum eru alls konar ranghugmyndir á kreiki um konur í arabalöndum og þessari bók er ætlað að skýra þeirra sjónarmið.
Þetta er ekki fræðibók á neinn hátt heldur persónuleg upplifun mín af þessum konum.
Hún kemur út um miðjan október insjallah. Vona VIMA félagar hafi áhuga á henni og láti tíðindin berast.

Loks má svo benda á að seinni partinn á morgun verða vonandi komnar inn myndir úr ferðunum
til Jemen/Jórdaníu og Sýrlandi og Líbanon. Ef guð lofar.
Sæl að sinni. Vona þið sendið síðuna áfram.
Látið svo halda áfram að rigna inn viljayfirlýsingum.

Viljayfirlýsingum rigndi inn í gær

Það er gleðilegra en frá megi segja að viljayfirlýsingum um þátttöku rigndi inn í gær eftir að dagsetningar voru birtar- þó svo þær væru án ábyrgðar- og er gott til þess að vita hversu VIMA félagar eru áhugasamir. Hef skráð þá samviskusamlega á mína lista hvað hver vill og sé fram á líflegt ár hjá okkur.

Ég vil endilega hvetja ykkur til að láta í ljós áhuga ykkar hér og nú.

Sakar ekki að taka fram að ég verð að venju með námskeið hjá Mími símennt í haust.
Þau hefjast jafnskjótt og við hópurinn komum frá Líbanon og Sýrlandi.

Þar stendur til að hafa að venju fimm kvölda námskeið um Menningarheim Araba
og það verður á fimmtudagskvöldum kl 20,30-22. Einnig verða námskeið í arabísku einu sinni í viku. Þeir sem hafa áhuga ættu að snúa sér til Mímis þegar líður á ágúst eða svo.
Menningar og málanámskeið:
Menningarheimsnámskeiðin hafa verið svo vel sótt að Mímisfólk stingur upp á að fá stærri sal. Það held ég að væri misráðið því umræður og spurningar hafa verið drjúgur þáttur í tímunum og slíkt kynni að minnka ef væri farið í stærri salarkynni. Þess vegna mun Mímir að beiðni minni takmarka aðsókn við 25-30 þátttakendur.

Einnig er trúlegt að eins kvölds námskeið verði um Sýrland/Líbanon og líklega annað um Jemen/Jórdaníu. Þetta auglýsir Mímir ugglaust vel og dægilega þegar líður að hausti.

UPPLÝSINGAR UM FERÐIR 2005

Það hafa nokkrir VIMA félagar bæst við eftir hvatningarhróp í gær. En betur má ef duga skal.
Helga Garðarsdóttir, VIMA félagi sem er frábær hugmyndasmiður hefur stungið upp á að auðvelda fólki þetta með því að búa til tengil á síðuna sem fólk gæti einfaldlega ýtt á og látið fylgja nafn, heimilisfang, síma og netfang.
Elísabet tæknistjóri Ronaldsdóttir mun setja þetta inn á laugardag ásamt með fleiri myndum. Svo fylgist með um helgina.
EN bætið við félögum, einn eða tveir á mann er ekki óviðráðanlegt. Og sumir hafa ekki skráð sig inn þó ég viti að þeir vilja verða meðlimir.

Nú nú.
Hér koma lauslegar dagsetningar fyrir árið 2005. Athugið að þær eru birtar án ábyrgðar eins og vinningsnúmerin í happdrættunum og gætu breyst en þá bara um örfáa daga.

Egyptaland 18.mars-28.mars
Líbanon/Sýrland 10.-25.apr.
Jemen/Jórdanía 9.-25.maí

Og sem þessar dagsetningar eru nú birtar ætla ég að biðja alla sem vettlingi geta valdið að staðfesta áhuga sinn en endurtek að þeir sem hafa haft samband og skráð sig eru þegar á lista. Ansi margir hafa verið volgir og veltandi og ættu nú að hafa samband sem allra fyrst.

Varðandi Íran/Sýrland í september 2005 eru dagsetningar óljósar enda veit ég ekki um áhuga. Svo mér er nauðsynlegt að heyra frá þeim sem líta þá ferð hýru auga. Sú ferð verður örugglega nokkuð dýr miðað við hinar ferðirnar. En þeir sem hafa áhuga ættu að láta mig vita því ef við erum 15 og fleiri tekst að prútta verði niður.

Sýrlandsferð hækkar ekki og verður sama verð og er á septemberferð þe. 185 þúsund.

Ath. varðandi Jemen/Jórdaníu að verð hækkar sennilega EKKI á henni, en viðbætur:
ferð inn í Wadi Rum verður innifalin
svo og aukanótt í Amman

Jæja krúsirnar. Látið nú heyra frá ykkur.

HVAR ERU NÝIR F'ELAGAR?

Hér í vesturbænum rignir eina mínútuna og sólin skín hina næstu. Þetta er almennilegt íslenskt veður og ekki svona miðevrópsk lulla eins og geisað hefur í allt sumar.

En vel að merkja, mín kæru. Aðeins fjórir félagar hafa látið í sér heyra og sent nöfn nýrra félagsmanna.

Takið ykkur nú tak og drífið í þessu.

Þá skal Hi Yaþess getið að áætlun um Egyptalandsferð og dagsetningar á ferð þangað í mars,

til Sýrlands og Líbanons í apríl og Jemen/Jórdaníu í maí birtast fljótlega upp úr helginni hér á síðunni.

En sem sagt vænurnar mínar, sendið nýja félaga.
Það lítur út fyrir að ekki verði vandkvæði að koma Egyptalandsferð á koppinn. Þar sem ég ætla að takmarka fjölda í allar ferðirnar er nauðsynlegt að fá viljayfirlýsingar sem allra fyrst. Þarf ekki að ítreka þær frá þeim sem þegar hafa látið í sér heyra.
Bregðið við og það skjótt. Fer senn til Sýrlands/Líbanons með hóp og þarf þá að geta sagt Halabi ferðaskrifstofuforstjóra dagsetningar á vorferðinni.