FLEIRI FÉLAGA!!!!!!!!!!!!!!!!

Stjórn VIMA vill beina þeim eindregnu en jafnframt vinsamlegu tilmælum til sem allra flestra VIMU félaga að þeir kippi nýjum félögum inn í félagsskapinn okkar. Sendið þá nöfn, heimilisföng og símanúmer/netfang.
Það gerir félagsskapinn kröftugri og kátari og enginn vafi á að margir vilja leggja þessu lið. Með því að gerast félagi hafa menn forgang í ferðir VIMA en einnig vonumst við til að geta haldið uppi hressilegu starfi og þess heldur ef enn fleiri bætast við.
Hvernig væri að stefna að því að safna 100 nýjum fyrir mánaðamót ágúst-september. Það er ekki nærri því einn nýr á hver núverandi félaga.
Drífið í þessu, blíðurnar mínar og skráið nýja félaga!

TILNEFNINGAR Í MAHER-NEFNDINA

Góðir hálsar
Eins og allir VIMAfélagar ættu að vita fékk Fríða Björnsdóttir, blaðamaður, þá góðu hugmynd í ferðinni til Líbanons og Sýrlands í apríl sl. að VIMA ætti að bjóða okkar ljúfa sýrlenska fararstjóra Maher Hafez að koma í Íslandsheimsókn 2005 og fylkja sér vonandi í flokk hinna hugþekku Íslandsvina.
Maher hefur tekið þessu af miklum fögnuði og bendir flest til að af þessu verði í júní á næsta ári eins og áformað var.
Stjórn VIMA kemur saman ef guð lofar fyrir 10.ágúst. Þá ætlum við að skipuleggja vetrarstarf, fundi/uppákomur og þess háttar. Við þurfum einnig að áætla út svona nokkurn veginn hvað hver mundi leggja út í peningum til að þetta lukkist nú allt vel og dægilega.
Einnig langar okkur að biðja félagsmenn að koma með hugmyndir og tillögur um hvernig þessari heimsókn skuli hagað. Best er að setja nefnd í málið og óskað er eftir tilnefningum og hugmyndum af öllu tagi. Og sem fyrst.
Hvet ykkur eindregið til að láta í ykkur heyra.

FLEIRI MYNDIR SETTAR INN Í NÆSTU VIKU

Þau gleðilegu tíðindi skulu hér sögð að aðaltæknistjóri HUGARFLUGS Elísabet Ronaldsdóttir er komin heim eftir tæplega tveggja mánaða störf við kvikmyndaklippingu í Danmörku. Hún hefur lofað að taka til óspilltra málanna í næstu viku og setja inn kássu af myndum, annars vegar frá Líbanon/Sýrlandi og hins vegar Jemen/Jórdaníu. Þið skuluð því endilega fylgjast grannt með.

FUNDUR MEÐ LÍBANONS OG SÝRLANDSFÖRUM

Þann 21.ágúst n.k. verður fundur með Líbanons og Sýrlandsförunum sem leggja í hann 3.september. Við hittumst í gamla Stýrimannaskólanum við Öldugötu kl. 14, fáum okkur kaffi og rúsínur og spjöllum saman. Afhentir farmiðar og önnur ferðagögn, svo sem nákvæm ferðalýsing, nöfn yfir hótel og símanúmer þeirra, merkislaufur og barmmerki. Listi yfir ferðafélaga og hagnýtar ráðleggingar og fleira smálegt.
Aðkallandi er að allir mæti og ef einhver sér fram á að komast ekki verður að senda einhvern fulltrúa. Nauðsynlegt er að allir hafi borgað ferðina þegar fundurinn verður.
Að gefnu tilefni er rétt að taka fram að þeir sem hafa beðið um eins manns herbergi í reisunni borga það beint til Jasminferðaskrifstofunnar þegar út er komið. Venjan hefur verið að sú upphæð sé innheimt fyrsta kvöldið í Damaskus.

Ég hef heyrt á ferðalöngunum væntanlegu að þeir eru fullir tilhlökkunar og hafa keppst við að lesa sér til um svæðið upp á síðkastið.

Sjáumst kát og glöð laugardag 21.ág kl.14 í gamla stýrimannaskólanum.

HAUSTFERÐ TIL JEMENS AFLÝST

Leiðinlegt að tilkynna það en verður ekki hjá því komist að aflýsa ferðinni til Jemens og Jórdaníu í haust. Þátttaka var ekki næg. Ég býst við það hafi verið bjartsýni að ætla að hægt væri að efna til tveggja slíkra ferð á fyrsta árinu meðan maíferðin hefur ekki spurst út til fleiri. Held að óhætt sé að fullyrða að allir sem tóku þátt í henni hafi verið í sjöunda himni. Þess vegna er ég líka bjartsýn á að það takist að hafa ferð þangað næsta vor.

Tek fram að menn eru þegar byrjaðir að skrá sig í Egyptaland og Sýrland/Líbanon næsta vor án þess að dagsetningar liggi fyrir. Dagsetningar munu birtast eins fljótt og unnt er. Fjöldi í Egyptalandsferð verður takmarkaður þar sem þetta er fyrsta ferð VIMA-félaga. Þess vegna er aðkallandi að menn sendi að minnsta kosti til mín viljaupplýsingar. Það sama á við um Sýrland.

Fundur um þessar ferðir með áhugasömum verður væntanlega um miðjan október. Svo drífið í að láta heyra frá ykkur, kæru VIMAR.

TILKYNNING UM FERÐIR 2005 ´BIRTIST FLJ'OTLEGA

Senn heldur hópur í Sýrlands/Líbanonsferð, nánar tiltekið 3. sept. Það verður vonandi allt til sóma og gott lið þar eins og fyrri daginn, sýnist mér.

Eins og útlitið er í augnablikinu sé ég ekki betur en ég verði að aflýsa Jemen Jórdaníuferðinni í septemberlok. Sennilega var það bjartsýni að búast við að hægt væri að hafa tvær ferðir fyrsta árið áður en ferðin hefur náðst að spyrjast til allrar þjóðarinnar. Það verður tilkynnt um mánaðamótin.

Ferðir á árinu 2005 munu svo senn spretta upp úr hatti johannatravel um miðjan ágúst. Ef að líkum lætur verða þær
1.Egyptaland í mars
2.Líbanon/Sýrland í apríl
3.Jemen/Jórdanía í maí
4. Íran/Sýrland í september
5. Óman í nóvember

Allt auðvitað eftir því hvernig þátttaka verður. Ættu nú VIMA félagar að taka höndum saman hið snarasta og fylkja liði OG safna liði.

Látið heyra frá ykkur, kærurnar mínar. Hugmyndabankinn gefur góða vexti.

DAMASKUS OG PALMYRA SIGURVEGARAR

Það held ég skíni nú sólin hérna á Drafnarstígnum og vona að allir séu í sólskinsskapinu sínu.

Hef haldið áfram minni merku rannsóknarvinnu á því sem kemur fram í spurningalistunum.
Áður hef ég getið þess að  ferð hópanna í flóttamannabúðirnar Sjabra og Sjatila í Beirút er það sem stendur upp úr þótt það hafi vitaskuld ekki verið skoðunarferð í hefðbundnum skilningi.

En af skoðunarferðunum má sjá að ferðin yfir eyðimörkina til Palmyra og ferðin um hana hefur orðið fólki hugstæð.
Damaskus er kannski enn óumdeildari sigurvegari því nánast allir geta um hvað þeir hafi hrifist af þeirri borg.
Meðal þess sem er áberandi annað er Baalbek, Malulah, Jeitahellarnir og þjóðminjasafnið í Damaskus og ferðin út til Byblos hefur einnig mælst vel fyrir.

Margir tala um að þeir hefðu ekki viljað missa af neinni skoðunarferðanna.

ÖRYGGI: Allir segja að þeim hafi fundist þeir fullkomlega öryggir

VERÐ:  Flestir= verð sanngjarnt, nokkrir taka fram að þeim finnist ferðin hafa verið ódýr miðað við hversu mikið var innifalið.

Ferð aftur á svipaðar slóðir? meirihluti segir já
Einnig lætur meirihluti í ljós áhuga á ferðum til fleiri arabalanda.

Ferðin í heild fékk einkunnina 9,5.
Rösklega helmingur gaf henni 10 eða 10+.

Svo þetta er allt hið besta mál. Eins og áður segir fáum við fósturmæðgur Ragnheiður Gyða og ég afskaplega góða útkomu. Takk fyrir það. 

MARKTÆKAR TÖLUR ÚR SPURNINGAKÖNNUN

Jæja, góðan og blessaðan daginn félagar
 
Nú hafa tveir þriðju sent inn svör við spurningalistum og harla marktækar niðurstöður liggja fyrir.
Hér á eftir koma einkunnir hótela og leiðsögumanna, svo og matar.
 
Maturinn hlaut meðaltalseinkunnina 8,0.
Flestir fóru um hann fallegum orðum, en sumum fannst hann fábreyttur ´- væntanlega eru menn að hugsa sér í lagi um mezze forréttina, sem er bara fastur liður. Menn stungu upp á að oftar væri borðað utan hótela. Það er gott og gilt í sjálfu sér en meðan ferðamannaþjónusta í Sýrlandi er ekki viðameiri er óskað eftir því að gestir séu í hálfu fæði.
 
Hótel Duroy í Beirút er með 8.05
Hótel Bliss í Beirút er með    7,70
 
Hótel Plaza í Damaskus er með 7,20
 
Planet Pulse í Aleppo    7,5
Amir Palace í Aleppo    7,8
 
Heliopolis í Palmyra      8,6
Cham Palace í Palmyra 8,5
 
Flestir létu í ljós einhverja óánægju með Plaza í Damaskus. Það væri lúið og sumum fannst það sjúskað og svo framvegis.
Sjálfsagt að geta þess sem ég hef minnst á fyrr að í septemberferðinni skiptum við Plaza út og verðum á Hotel Damascus International.
 
Leiðsögumennirnir :
Maher 9,4
Hæþam 8,3
Nissrin 6,6
 
Umsagnir um þá voru af ýmsu tagi. Maher fékk margar ákaflega fallegar umsagnir með einkunninni sinni. Það fékk Hæþam líka og greinilegt að hann hefur náð til fólks sem leiðsögumaður. Nissrin fær afskaplega sveiflóttar umsagnir, allt frá falleinkunn og upp í 9. Meirihluti þeirra sem hafði hana alla dagana í septemberferðinni sýnir henni umburðarlyndi og flestir gera sér grein fyrir góðum vilja en taka fram að hún hafi ekki kunnað að takmarka mál sitt og verið of nákvæm í lýsingum.
 
Þetta er gagnleg og góð útkoma. Svo koma vonandi svör frá þessum þriðjungi sem enn vantar. Er virkilega kát yfir því hvað undirtektir við þessu hafa verið góðar.
 
Fer yfir skoðunarferðir næst.

Nýjar tölur væntanlegar...

Menn hafa verið nokkuð drjúgir við að senda spurningalistana og eftir helgina ætla ég að birta verulega marktæka niðurstöðu varðandi skoðunarferðir, hótelin og fleira þess háttar. Munið að kíkja á það.

Svo eru komnar inn fyrstu myndirnar. Þær eru frá Jemen. Á næstunni bætast vonandi við miklu fleiri. Það fer dálítið eftir öðrum tveggja tækniráðgjafa johannatravel og VIMA, Veru Illugadóttur.
Hinn ráðgjafinn í þessum efnum, Elísabet Ronaldsdóttir hefur verið við störf í Danmörku en er væntanleg á næstunni og þá kveð ég hana til aðstoðar. Því ættu myndir að hrannast inn á næstunni.

Ég vil eindregið benda á tvennt:
Sendið hugmyndir um hvað þið viljið sjá fleira á síðunni.

Það eru laus sæti í JemenJórdaníuferð í haust. Hún er mikið ævintýri og ég vona ég þurfi ekki að aflýsa henni vegna þess að þátttaka er ekki næg. Það verður að fara í hana lágmarksfjöldi annars þýtur verðið upp.

SVO HAFIÐ SAMBAND VÆNU FÉLAGAR

Breytingar á Sýrlands og Líbanonsferð komnar inn

Það hefur verið vesen á blogginu mínu síðustu daga en nú eru breytingar við Sýrlands/Líbanonsferð komnar inn.

Af fenginni reynslu ákvað ég að skera einn dag af Líbanon. Sleppa Sidon og þetta þýðir eins dags gróða í Sýrlandi sem verður í Aleppo. Ég hygg að allir verði ánægðir með það.

Varðandi hina merku skoðanakönnun berast enn svör, hægt og bítandi og takk fyrir það. Gott að sjá hvað umsagnir eru jákvæðar.
Seinni part næstu viku ættu verulega marktækar niðurstöður að vera ljósar.

Þá er tölvugúrúinn og ömmustelpan, Vera Illugadóttir, komin úr flandri með foreldrum og bróður. Til stendur að hún aðstoði mig um helgina við að setja myndir inn á síðuna og skyldu menn endilega fylgjast með því.
Það duttu út tveir úr Sýrlandsferð og Líbanonsferðinni og því geta aðrir bæst í hópinn.
Látið frá ykkur heyra SNARLEGA!

Hafa hugmyndir þínar breyst eftir þessa ferð/og þá hvernig?

Góðan daginn, félagar.
Áfram seytlast listar inn og eru allar upplýsingarnar fróðlegar og munu gagnast vel. Hvet þá sem ekki hafa sent inn svör að gera það.

Varðandi "einkunnagjafir" eða umsögn um hótel, mat og fleira skal tekið fram að engar stórkostlegar breytingar hafa orðið þar á. Maher hefur þó fengið einn vitnisburð sem er lægri en 9 en flestir gefa honum 10 eða 9+. Nisrin hefur fengið falleinkunn hjá fjórum og Hæþam hefur hækkað lítillega.

Hótelin eru á áþekku róli og í fyrstu útgönguspám( ég segi nú sisona)

Hér koma nokkur svör:
"...Ég hafði aðeins kynnst arabalöndum áður. Í þessari ferð voru kynnin meiri og ég er heilluð af menningunni..."

"Já. Ég vissi í raun ekkert um þennan heim nema úr fréttum sem yfirleitt eru neikvæðar. Allt um hryðjuverkamenn sem drepa saklaust fólk og illa farið með konur..."

"..ég var haldin ákveðnum fordómum gagnvart aröbum en svo fer ég á staðinn og þá kemur allt annað í ljós. Þetta segi ég fólki og fæ misjafnar undirtektir..þetta eru auðvitað áhrif frá fjölmiðlum. Svo er hollt að skoða annað en sólarstrendur.."

"...já, þær hafa breyst. Fjölmiðlar ala á ranghugmyndum um arabaheiminn.."
..."vissulega. Fyrst og fremst að upplifa að fólkið er eins og þið og þið og alls ekkert verra á nokkurn hátt.."

"...já, núna VEIT ég hvar þessi lönd eru sem ég hafði svo sem ekki velt fyrir mér áður. Ég hlusta með gagnrýnni eyrum á fréttir úr þessum heimshluta og þeir sem þar búa eiga frekar alla mína samúð eins og oft gerist þegar maður færir sig aðeins nær hlutunum.."

"..að sumu leyti já og eru enn að breytast því ég hef lesið mér heilmikið til um málefni þessa heimshluta eftir að ég kom heim...

"..já, ég þekki hlutina aðeins betur og er áreiðanlega umburðarlyndari.."

"...aðallega hafa hugmyndirnar breyst um það hversu miklar fornminjar leynast þarna í jörðu og ofan á henni..Mér finnst fólkið líka mun þægilegra en ég bjóst við eftir að hafa komið til Túnis þar sem ekki mátti horfa í átt að hluti á markaði án þess að fá sölumanninn eins og hrægamm á sig..."

"...hugmyndir mínar hafa kannski ekki breyst(hef kynnst honum með lestri greina og bóka t.d. eftirJK) heldur miklu frekar styrkt mig í þeirri trú að þarna býr gott fólk og að fréttaflutningur á Vesturlöndum er oft ansi einsleitur og að okkur hættir til að þröngva okkar menningu upp á araba og skiljum svo ekkert í því þegar upp úr sýður..."

Ég býst við það verði bið á þar til 3/4 hafa svarað. Sjálfsagt eru margir í sumarfríi. En gleymið þessu samt ekki. Þetta mun fara í skjalasafn VIMA til fróðleiks og leiðbeininga. Og vitanlega birtingar hér á síðunni.

Glefsur úr svörum

Áður hef ég minnst á að förin í flóttamannabúðirnar snart fólk mjög djúpt. En fleira var þeim eftirminnilegt.
Hér á eftir nokkur svör við því sem ógleymanlegast varð nokkrum félaganna sem þegar hafa sent mér svör:

"...til dæmis hvað Omijadmoskan er afskaplega falleg, hughrifin að keyra langa lengi í eyðimörkinni og svo birtist Bagdad Cafe allt í einu...Mannlífið á mörkuðum og vinsamlegt fólkið. Allar þessar frægu fornminjar sem eiga sér sína sögu."

" Sólarupprásin í Palmyra.."

"Hvað ég var örugg. Einhvern veginn eru fréttir svo neikvæðar úr þessum heimshluta að jafnvel þótt JK hefði sagt okkur að við hefðum engu að kvíða, verður maður sennilega að reyna það sjálfur."

"ég kolféll fyrir Sýrlandi....Palmyra er stórkostleg..og bara allt."

..ferðin í heild, dag fyrir dag."

"..flest ef ekki allt"

"öll ferðin - en fólkið fyrst og síðast og svo Damaskus."

"fólkið og viðmót þess...sérstaklega í Sýrlandi

"ómótstæðilegir töfrar Sýrlands og Sýrlendinga. Ég hélt ég gæti ekki undrast lengur."

"tvímælalaust Baalbek. Og einnig hvað Sýrlendingar eru einstaklega viðfelldnir."

"Baalbek og svo dans (darvisjdansinn á Omijadveitingahúsinu) drengjanna síðasta kvöldið í Damaskus. Mér fannst þeir stórkostlegir."

"Rústaborgnirnar og hvað þær hafa verið stórfenglegar. Einnig kunni ég vel við mig í Damaskus."

"það er erfitt að segja. Mikill munur á Líbönum og Sýrlendingum. Mér fannst gaman að sjá Byblos vegna þess að það er svo líkt Mykenu sem er ekki skrítið þegar sagan er skoðuð...stóru borgirnar Beirut, Aleppo og Damaskus ery eftirminnilegar vegna þess hve ólíkar þær eru..."

"...tyrkneska baðið í 800 ára gömlu höllinni í Damaskus"

"leiðin yfir eyðimörkina til Palmyru og sólarupprásin. Bagdadkaffi, markaðurinn í Damaskus. Beirut með öllum sínum andstæðum, hliðið við austanvert Miðjarðarhaf."

Læt þetta duga í bili. Svör um hvort hugmyndir hafi breyst eftir að hafa farið koma í kvöld eða á morgun.

Meira um "könnunina" seinna í dag

Komst ekki inn á bloggið mitt í gærkvöldi en seinna í dag verða birtar ýmsar umsagnir fólks úr ferðunum varðandi spurningarnar um hvort ferðin hafi breytt viðhorfi og afstöðu til þessa heimshluta og vitnað þá - nafnlaust- í nokkrar umsagnir.

Ferðin í heild er núna með 9+ í heildareinkunn og er það mér hin mesta gleði.

Enn hækkar svo einkun Heliopolis í Palmyra og munar nú sem sagt engu eða varla nokkru á því og hinu fimm stjarna hóteli, Cham Palace. Amir Palace hefur lækkað og svo virðist sem Planet í Aleppo fari upp á við. Eins og þið sjáið er þetta æsispennandi.

Þá fáum við fósturmæðgur Ragnheiður Gyða og ég afskaplega hlýjar og góðar umsagnir og þökkum virktavel fyrir það.

Sem sagt meira seinna í dag. Enn á ég eftir að fá frá allmörgum, einkum hjónafólki og bið það endilega að svara. Nú er á leið í pósti til ýmissa sem ekki hafa imeil svo þetta verður væntanlega hin dægilegasta framhaldssaga fram eftir vikunni.
Sæl að sinni.

Flóttamannabúðaferð stendur upp úr hjá öllum

Í kvöld var ég að dunda mér við að reikna út hvað menn teldu að yrði einna ógleymanlegast úr ferðinni okkar til Sýrlands og Líbanon.
Þar hafa allir nefnt flóttamannabúðirnar í Sabra og Sjatila. Þær virðast hafa algera sérstöðu.
Aprílhópurinn fékk að vísu að vera mun lengur og fara víðar um, ásamt með leiðsögn stúlkunnar góðu.
Því er ekki að neita að ég velti fyrir mér hvort rétt væri að hafa þetta á dagskránni, því þetta er so sum ekki beinlínis skemmtiferð Á hinn bóginn gerir þetta mér og öðrum leiðsögumönnum hægara um vik að hefja frásögn og lýsingar á ástandi mála í Miðausturlöndum með því að fara í búðirnar. Þessi raunveruleiki fólksins í flóttamannabúðunum er ákaflega sterkur hluti þess vandamáls sem virðist vera óleysanlegur og ég finn á viðbrögðum að fólk skilur það og er því meðtækilegra en ella fyrir frásögnum og analísum af pólitík etc þessa svæðis.

Aðrar skoðunarferðir hafa mæst vel fyrir og flestar meira en það. Byblosferð er vinsæl og ekki síður Balbek og þar grunar mig að ekki síst megi þakka skörulegum lýsingum Hæþams töffara og hins töffarans, Ragnheiðar Gyðu.
Líklega stendur Palmyra upp úr hjá flestum. Einnig ferðin fyrsta daginn í Damaskus. Allir krossa við ferðina til Malulah og í reynd er ekki gott að sjá að nokkur ferð hafi verið óþörf. Flestir taka fram að þeir hefðu ekki viljað missa neina af skoðunarferðunum. Þó voru sumir orðnir duggulítið rúsaþreyttir þegar til Afamea kom.

Varðandi matinn er ánægja með hann. Meðaltal úr því mun vera um 8,5 núna.

Þá hefur meðaleinkun Heliopolis hækkað eftir því sem fleiri úr septemberhópnum láta í sér heyra og nálgast nú hraðbyri vitnisburð Cham Palace. Staðsetning Heliopolis er miklu heppilegri og ég vonast til að næsti hópur verði þar. Cham er náttúrlega fyrirmyndar´hótel, flott og fínt en það gæti líka verið hvar sem er í heiminum. Og við erum ekki að fara á þessar slóðir til þess.

Varðandi flugferð hafa allir afborið þær með meira og minna léttum leik enda man ég ekki betur en ég hafi haft uppi fáein velvalin viðvörunarorð fyrir ferðina um að þetta gæti orðið erfitt. Um að gera að mikla dálítið hlutina, þá verða allir þægilega hissa að það var ekki jafn erfitt og þeir bjuggust við.

Þegar spurt var um undirbúning ferðar voru allir kátir og enginn gerði athugasemd við að honum hefði verið ábótavant. nema síður sé.
Á morgun fjöllum við um næstu vers og ég læt þetta duga í bili. Þarf að vakna klukkan hálf sex og trítla um vesturbæinn með Moggamálgagn mér til óblandinnar hressingar.

Næsta greinargerð verður birt í kvöld því von er á allnokkrum umsögnum í dag.
Sofið rótt og verið dugleg að senda listana.

MAHER SPRENGDI SKALANN !

Þá er að koma mynd út úr spurningalistunum. Svona líka ljómandi góð mynd.
Það sætir kannski ekki undrun en leiðsögumaðurinn okkar í Sýrlandi, Maher Hafez, sprengdi skalann. Fólk var beðið að gefa leiðsögumönnunum einkunn á bilinu 1-10. Maher fékk nokkrum sinnum 10+, þrír gáfu honum 10x10 og enginn sem hefur enn svarað gefur lægra en 9+. Umsagnir um hann eru allar á eina lund: vinsemd, hjálpfýsi, vel að sér og með góða enskukunnáttu, lipur og þjónustulundin einstök.
Það blasir við að Maher hefur sigrað glæsilega.

Hæþam leiðsögumaður fær einnig ágæta umsögn. Mönnum finnst hann klár og snöfurlegur, ekkert aukamas og vesen, ekki persónulegur en með allt á hreinu, góður að greina aukaatriði frá aðalatriðum og þess háttar.
Meðaleinkunn Hæþams nú er 8.

Nissrin fær dapurlegri útkomu en ýmsir átta sig á góðum vilja hennar og að hún er fróð og vís að mörgu leyti. Meðaltal hennar núna er 6,5. Þó er rétt að taka fram að sumir gefa henni þekkan vitnisburð.

Langflestir telja að verð á ferðinni sé sanngjarnt, nokkrir segja hana ódýra og enginn hefur minnst á að hún væri dýr.

Meirihluti segist hafa farið í ferðina vegna 1. hafi frétt af henni 2. áhuga á þessum heimshluta

Yfirgnæfandi meirihluti svarenda vill fara aftur á arabískar slóðir, annað hvort aftur til Sýrlands eða í nágrannalönd. Sýrland fær betri vitnisburð en Líbanon enda skal haft í huga að dvölin þar var lengri og farið víðar.
Flestir minnast á að þeir hefðu viljað fá meiri tíma í Damaskus.

Hótelin: Duroy í Beirút fær um 8,5 í meðaltal
Bliss í Beirút fær um 8
Plaza í Damaskus fer verst út úr þessu. Flestir tala um að það sé harla lúið og þreytt en staðurinn hins vegar fínn. Meðaltal þar er 6 en sumir gefa hærra, nokkrir upp í 9.

SKAL TEKIÐ FRAM AÐ SKIPT VERÐUR UM HÓTEL 'I DAMSKUS Í SEPTEMBERFERÐ.

Planet í Aleppo fær um 7,5 í meðaltal
Amir Palace í Aleppo það sama. Fólki þótti þó staður góður og hlaðborð fýsilegt en herbergi afar lítil.
Heliopolis í Palmyra fær 9,5 í meðaltal
Cham Palace í Palmyra fær 9,75 í meðaltal

Allir taka fram aðspurðir að þeim hafi fundist þeir vera öruggir í ferðinni. En umfram allt í Sýrlandi

Þetta eru bara nokkur atriði úr hinni óvísindalegu spurningakönnun. Niðurstöður varðandi skoðunarferðir, hvað verður ógleymanlegt, hvort ferðin hefur breytt hugmyndum manna og ýmislegt fleira birtist á morgun eða hinn.

MUNIÐ AÐ LÍTA INN OG ÞIÐ SEM HAFIÐ EKKI SVARÐ GERIÐ ÞAÐ.