ÁTTATÍU manns á VIMUfundinum

Vimufundurinn í Kornhlöðunni í dag tókst eins og við var að búast þegar líflegir og áhugasamir félagar koma saman. Hátt í áttatíu manns mættu þar og urðu fagnaðarfundir með fyrri félagum, væntanlegra og svo áhugamanna um þetta málefni.
JK setti fundinn og dreifði plöggum um væntanlegar ferðir svo og drög að 2006. Einnig Maherblaði og menn voru hvattir að borga félagsgjöld.

JK minnti einnig á þá skekkju sem fram kemur í fréttum þessa daga að kosningarnar í Írak á morgun séu þær fyrstu frjálsu í þessum heimshluta í áratugi. Það er einfaldlega ekki rétt, kosningar sem eru lýðræðislegar - jafnvel á okkar vestræna og siðfágaða mælikvarða- er haldnar í Líbanon, Jórdaníu og Jemen og all nokkur lönd eru að mjaka sér í átt til arabísks lýðræðis, svo sem Óman, Túnis og Palestína. Þetta skyldu menn hafa í huga. Þær eru á hinn bóginn fyrstu frjálsu kosningarnar sem fara fram undir hernámi og hervernd og spurning hvað mikill lýðræðisilmur getur verið af slíku.

Mörður Árnason flutti prýðisgóða tölu og sagði frá reynslu og upplifun úr Líbanons/Sýrlandsferðinni í september 2003. Hann rifjaði upp mikilfengleika þessa svæðis í sögulegum skilningi og taldi það lán og lukku að geta ferðast til þessara landa nú meðan þau eru nánast ósnortin af fjöldatúrisma. Hann sagði að þó margt hefði orðið sér ógleymanlegt og hann byggi að stæði ferðin í Umijadmoskuna í Damaskus upp úr og svo á annan hátt sú reynsla að koma í flóttamannabúðirnar í Sabra og Sjatila.

Svo fengu menn sér kaffi og kökur og Ragnheiður Gyða Jónsdóttir sagði frá arabísku söngkonunum þremur sem allar eru dáðar og elskaðar á öllu þessu svæði. Hún var með nokkur tóndæmi en tækin í Kornhlöðunni gerðu okkur grikk svo kannski tókst ekki að koma söng þeirra fullkomlega til skila. En þar sem flestir eru á leiðinni til þessara landa fá menn gott tækifæri til að njóta söngs þeirra kvenna þar.

Að svo búnu var fundi formlega slitið, menn röbbuðu og hjöluðu og skráðu sig í ferðir, greiddu gjöld, gengu í VIMA og kvöddust með virktum.
Öldungis prýðilegur fundur að mínum dómi og vonandi ykkar.

Í leiðinni ætla ég svo að minna alla á að nú renna senn upp greiðsludagar vegna Egyptalands í mars, Sýrlands/Líbanons í apríl og Jemens/Jórdaníu í maí. Séu einhverjir í vafa um upphæð eða reikningsnúmer hafi þeir samband.

Bestu þakkir aftur fyrir góðan fund sem sýnir að VIMA er öðlings félagsskapur skemmtilegs og forvitins fólks.

Er búin að velja þennan fagurgræna lit. Veit ekki nema þið verðið enn ötulli við að fara inn á síðuna.

Vil taka fram eftirfarandi: MUNIÐ FUNDINN. STREYMIÐ ÞANGAÐ.

Góð atriði: Mörður VIMU félagi er skemmtilegur ræðumaður og segir vel frá. Ekki að tvíla það.
Ragnheiður Gyða mun af stakri kúnst segja frá söngkonum þremur og spila tónlist með þeim.
JK ætlar að tala um vorferðir og safna hugmyndum frá ykkur í tonnavís.

Ekki má gleyma að geta þess að Jemen/Jórdaníu ferðin er GERSAMLEGA fullskipuð. Ekki hægt að bæta þar við nema fólk gangi skyndilega úr skafti.Þar eru þegar fjórir á biðlista. Það verður hins vegar að ganga úr skaftinu fyrir miðjan febrúar. Allt þarf að plana með góðum fyrirvara á þessum síðustu tímum.Og þarf senn að senda lista þangað. Þegar búin að senda lista á Sýrlandsmenn og Egyptalandsfrúna sem hugsar um okkur þar.

Sýrland/Líbanon er vel skipað. Nokkrir hafa bæst við og nú geta aðeins tveir skráð sig þar til viðbótar á biðlista.

SJÁUMST Á FUNDINUM
Í Kornhlöðunni á laugardag kl 14. Endilega kippið með nýjum félögum. Þeim er fagnað.
Bið eindregið þá sem vita til að einhverjir félagar hafi ekki netfang að láta þá vita.

JEMENFERÐ FULLSKIPUÐ - VEGNA FORFALLA 3 sæti laus í Sýrland

JEMEN/Jórdaníuferðin í maí virðist fullskipuð. Og vel skipuð eins og aðrar ferðir. Get þó tekið niður á biðlista en varla nema einn til tvo í viðbót.
Vegna forfalla eru laus þrjú pláss í Sýrland/Líbanon 8.-23.apríl. Vindið ykkur í að athuga það. Bið VIMA félaga að láta það berast því margir áhugasamir hafa viljað koma með en ég tók þau nöfn ekki niður.

Einnig er möguleiki að skrá sig á biðlista í Egyptalandsferðina en alls ekki fleiri en tveir þó.

Á fundinum okkar næsta laugardag ætla ég að hafa aðskiljanleg plögg um vorferðirnar því ekki hafa allir haft tök á að sækja fundina um ferðirnar og margir hafa bæst við í þær síðan fundir voru haldnir. Hvet ykkur sumsé til að mæta staffírug á laugardagsfundinn 29.jan kl. 14.

Einnig vil ég hvetja þá örfáu sem enn hafa ekki sent mér vegabréfsupplýsingar og aðrar sem ég þarf að hafa vegna áritana að gera það sem allra fyrst. Muna þó að þeir sem hafa farið með í fyrri ferðir þurfa ekki að senda upplýsingar nema vegabréfið sé í þann veginn að falla úr gildi.

Óman fær góðar undirtektir og allnokkrir hafa þegar lýst áhuga sínum. Það liggur ekki lífið á en ágætt að fá þó að heyra frá þeim sem líta Óman góðu auga.

VIMAFÉLAGAR HITTAST LAUGARD.29.JAN.kl 14

Nú ætla VIMA félagar að hittast á fundi á Kornhlöðuloftinu í Bankastræti (bak við Lækjarbrekku) laugardaginn 29.janúar kl.14. Við drekkum saman kaffi og úðum í okkur kökum. Ragnheiður Gyða Jónsdóttir segir frá þremur vinsælum arabískum söngkonum, Úm Kaltúm frá Egyptalandi m.a. vegna þess að fyrsta ferð vorsins er til Egyptalands, Feirúz hinni líbönsku (en önnur ferðin er til Líbanons og Sýrlands) og svo Natössju Atlas sem er egypsk-bresk og tónlist með þessum eðalkonum verður flutt.
Mörður Árnason, sem var í VIMAferð til Líbanons og Sýrlands í september 2003 segir frá sinni upplifun, reynslu og lærdómi af ferðinni. JK ætlar svo einhvers staðar inn á milli að tala um vorferðirnar og plön fram á næsta ár.

Við vonumst til að sem ALLRA flestir mæti á fundinn. Bæði þeir sem hafa farið, eru á leiðinni og þeir sem ekki hafa farið en velta því fyrir sér og svo allir hinir áhugasömu.

Ekki væri verra ef menn borguðu félagsgjald í leiðinni.
Og takið með ykkur velviljaða og glaða gesti og væntanlega VIMU félaga. Við þurfum að gera skurk í að fjölga í okkar góða Vináttu og menningarfélagi og skrá þá mörgu inn sem hafa lýst velþóknun á þessum félagsskap.

ÓMANFERÐ

Ferðaáætlun til ÓMANS

Dagsetningar eru ekki klappaðar og klárar. Það fer eftir því hvort undirtektir eru við þessari ferð. Þó er trúlegt að stefnt sé á febrúar 2006

1.dagur. Flogið um London og áfram til Múskat, höfuðborgar Ómans.
2.dagur. Við komuna er gengið frá vegabréfsáritunum með aðstoð fulltrúa ferðaskrifstofunnar sem sér um okkur. Síðan er farið á Hótel Mercure Al Falaj sem er öldungis fínt 4ra stjörnu hótel.
3.dagur Morgunverður. Síðan skoðunarferð um Múskat og komið við á ýmsum skemmtilegum stöðum. Nánar um það síðar.
Eftirmiðdagurinn frjáls. Um kvöldið er farið í tveggja tíma siglingu út á Múskatflóa. Horfum þar á borgina og fegurðina allt um kring. Döðlur, kaffi og te á boðstólum. Gist á Mercure Al Falaj hóteli
4.dagur. Morgunverður. Síðan er ekið inn á Wahibasanda sem er lítil eyðimörk( á stærð við Wales) og komið við á fýsilegum stöðum á leiðinni. Hádegissnarl úti í guðs grænni náttúru. Þegar komið er inn á sandana geta menn æft leikni sína í sandbrettastökki og einnig keyrt um sandinn á jeppum. Úlfaldar til reiðu. Kvöldverður(innifalinn) við tjaldbúðirnar og gist í tjöldum.
5.dagur. Morgunverður og góður tími gefinn til rannsóknarferða um sandana. Síðan haldið áleiðis til Sur sem er ævagömul borg. Við stoppum á veitingastað í hádegisverð og höldum svo áfram til bæjarins Ras al Hadd. Þar tjekkum við inn á Ras Hadd Strandhóteli sem er þriggja stjörnu. Seinna um kvöldið er ekið niður að Skjaldbökuströnd þar sem við horfum á skjaldbökurnar leika listir sínar.
6.dagur Morgunverður. Gefum okkur tíma og af stað upp úr hádegi til Múskat. Gistum á Mercure Al Falaj.
7.dagur. Morgunverður. Frjáls dagur í Múskat.
8.dagur. Morgunverður. Síðan lagt af stað inn í landið og áleiðis til Nizwa, sem fyrrum var höfuðborg landsins. Heimsækjum kastala og virki og aðra merka staði á svæðinu. Gistum á 3ja stjörnu hóteli.
9.dagur. Frjáls dagur í Nizwa. Þar er fínn markaður og margt að sjá. Gistum í Nizwa
10.dagur. Morgunverður. Síðan höldum við aftur til Múskat og það sem eftir lifir dags geta menn valsað um að vild.
11.dagur. Morgunverður. Síðan er farið til Seebflugvallar og flogið til Salalah í suðurhlutanum. Tjekkað inn á Hilton eða Crowne Plaza sem eru 5stjörnu hótel. Upp úr hádegi í skoðunarferð. Farið um banana og kókoshnetuplantekrur, um ægissíðuna og kíkt í áttina að sumarhöll Kabússar soldáns. Farið á Dhofarsafnið þar sem merkir gripir úr suðrinu eru til sýnis. Ekki má gleyma gull og mirrumarkaði.
12. dagur. Morgunverður Síðan er skoðunarferð (4klst) en ekki ákveðið hvort verður farið í austur eða vestur frá Salalah. Báðar eru mjög forvitnilegar.
13.dagur. Morgunverður. Síðan er flogið til Múskat og við búum um okkur á Mercure Al Falaj. Menn geta síðan gert innkaup á markaðnum eða slappað af við sundlaugina. Um kvöldið út á Seeb flugvöll og áleiðis til London
14.dagur.
Við komu til London, einhver bið og svo heim til Íslands.

Ekki er alveg ljóst hvort bætt verður við einum degi í Múskat í lok ferðar.

Innifalið í verði:
Flug, skattar
Gisting á einu 5 stjörnu hóteli, einu 4ra stjörnu, tveimur sem eru þriggja stjörnu og tjaldgisting ein nótt.
Morgunverður
Tveir kvöldverðir(annar á Wahibasöndum) Hinn í ferðalok.
(Einnig er hugsanlegt að kvöldverðir almennt verði innifaldir en það hækkar verð eitthvað)
Vegabréfsáritun
Allar ferðir sem upp eru taldar í áætlun
Flutningur á milli staða sem minnst er á.
Aðgangseyrir á staði sem við skoðum
Flug innan Ómans
Sandstökksbúnaður á Wahibasöndum og úlfaldar til reiðar
Íslensk fararstjórn
Ómanskur fararstjóri

Ekki innifalið:
Málsverðir(með þeim fyrirvara sem fram kemur)
Tips til ómanska fararstjórans og bílstjóra

Miðað er við 16 farþega. Það er skilyrði fyrir því að verð haldist.

Að svo stöddu er ekki alveg á hreinu hvað verðið er. Það má ætla að það verði frá 195 þús. og upp í um 240 þúsund.
Mun láta ykkur vita jafnskjótt og það er á hreinu.

Þarf að heyra ofan í ykkur um áhuga þó svo að ferðin verði ekki fyrr en að ári svo ég geti áttað mig á hvort ég á að halda áfram með þetta dæmi eða ekki. Svo alúðlegast og allra vinsamlegast látið frá ykkur heyra.

ÓMAN Á MORGUN - OG ANNAÐ GÓÐMETI

Vil láta ykkur vita að Ómanáætlun birtist hér á síðunni á morgun. Eins ítarleg og nákvæm og unnt er. Ætla má að sú ferð verði á dagskránni í febrúar 2006. Þetta verður 14-15 daga ferð, reynt að fara allvíða án þess að þeysa svo um landið að menn verði uppgefnir. Hvet ykkur til að fylgjast með því enda veit ég að áhugi er á þessari ferð hjá VIMU félögum og öðrum kátum ferðamönnum.

Þá verður væntanlega hægt að skýra frá dagskrá fundarins næsta annað hvort á morgun eða hinn. Áður hefur verið greint frá því að hann verður í Kornhlöðunni 29.janúar.

Í þriðja lagi langar mig til að ýta á félaga að borga félagsgjöldin sín samviskusamlega. Reikningsnúmer er 1151 26 002443 og kt.441004-2220.

Ekki gleyma ljúflingnum Maher Hafez sem við munum bjóða hingað í júlí. Leggi þeir sem vilja styðja það 2000 kr. inn á reikninginn 1147-05 401402.

Loks hefur svo Íransferð mín verið nokkurn veginn ákveðin. Held þangað rétt eftir að menningarheimsnámskeiði araba lýkur 17.febrúar. Eins og ég hef nefnt áður fannst mér nauðsynlegt að fara þangað og skoða hvernig er að ferðast um Íran, fá á hreint ýms praktísk mál og verð og fleira. Einn væntanlegur Jemen/Jórdaníufari vorsins var í Íran sl haust og hefur gefið mér ýmsar gagnlegar upplýsingar og þakkarverðar. Þegar þar að kemur mun ég skrifa smápistla inn á síðuna svo áhugasamir Íransmenn geti fylgst með hvenig mér líst á.

En sem sagt ÓMAN plan á morgun. Athugið það og nauðsynlegt að heyra frá áhugasömum þótt ár sé í ferðina.

Jemen/Jórdaníufundur tókst vel - áform á prjónunum

Jemen/Jórdaníuhópurinn hittist í dag, laugardag og rabbaði saman. Ríkti þar ánægjuleg stemning, farið yfir áætlunina, skoðaðar myndir og skeggrætt. Fagnaðarfundir urðu með ýmsum sem hafa verið í öðrum VIMA ferðum. Allir fullir tilhlökkunar. Sérstakur gestur var Helga Þórarinsdóttir sem var í Jemen/Jórdaníuferðinni í fyrravor og hafði hún margt gott til mála að leggja. Nokkrir komu á fundinn sem komast ekki í vor en eru nokkurn veginn staðráðnir í að vera með í næstu ferð.
Nokkrir komust ekki á fundinn og fáeinir eru að athuga sín mál svo enn vantar 2-3 til að sá fjöldi náist sem er nauðsynlegur til að verð haldist. Það lítur þó vel út og engin ástæða til annars en búast við að það gangi allt upp.

Þá er rétt að vekja athygli á að fyrsti almenni fundur VIMA verður 29.janúar í Kornhlöðunni og verður dagskrá kynnt nánar. Fundurinn verður kl. 14 á laugardegi og geta menn vonandi gert ráðstafanir í tíma og sótt fundinn.
Ég get viðurkennt að nokkur vonbrigði eru mér að margir eiga ógreitt félagsgjald - og á það bæði við um stofnfélaga VIMA og þá sem hafa skráð sig síðan. Okkur munar um þessa peninga en samt telst 2 þús. kr. árgjald varla stór peningur og sjálfsagt gleymsku um að kenna. Hafið samband við gjaldkerann Gullu í gudlaug.petursdottir@or.is
og greiðið nú allra vinsamlegast árgjaldið.

Minni einnig Sýrlands/Líbanonsfélaga enn og aftur á að senda upplýsingar vegna vegabréfsmála. Nokkra vantar mig enn og þarf bráðum að senda þetta út svo allt verði nú í lagi. Get bætt við í Sýrlands/Líbanonshóp vegna liðlegheita Jasmin ferðaskrifstofunnar í Damaskus.

Ég minni svo alla á að það er lengi hægt að bæta við fólki í ferðirnar og um að gera að hafa samband. Það er gott og gleðilegt hvað áhugi er drjúgur enda hefur það sýnt sig að ferðalangar VIMA er mjög spes fólk, forvitið, skemmtilegt og vesenislaust.


Nokkur laus pláss- takk fyrir skilvísi

Það er til fyrirmyndar hvað menn hafa brugðið við skjótt og sent janúargreiðslu. Takk fyrir það. Nokkrir eiga eftir að borga og ég á von á því að það verði ekki bið á því.

Vil taka fram að það er möguleiki að fjórir geti bæst við í Líbanons og Sýrlandsferð og tveir gætu komist í Jemen/Jórdaníu. Annars lítur þetta ögn dægilega út og er það gleðiefni.

Bið áhugasama að hafa hraðar hendur. Egyptalandsferðin er orðin algerlega full og ég get ekki bætt neinum við þar í þetta sinn.

En ég veit að ýmsir hafa verið að íhuga Sýrland/Líbanon og ættu þeir að hafa samband við fyrsta. Sömuleiðis get ég bætt við í Jemen/Jórdaníu en nú fer hver að verða síðastur að tryggja sér pláss í þessum ferðum í vor.

Svo ekki er eftir neinu að bíða, kæru félagar.

EINHVER MISSKILNINGUR?

Kannski hef ég ekki verið nægilega skýr í tilkynningum, en nokkur pör í ferðunum hafa ekki athugað að margfalda greiðsluupphæð með tveimur. Vinsamlegast athugið það.

Egyptalandsferðin fullbókuð - gleymið ekki greiðslum

Frá því er snarlega að segja að ánægjulegir farþegar bættust við í Egyptalandsferðina og hún er nú full sýnist mér.
Menn hafa verið nokkuð seigir að borga janúargreiðsluna en betur má samt ef duga skal. Þetta á bæði við um Egyptalands og Sýrlandsfara. Þeim eru færð glaðleg þakkarkvök sem þegar hafa greitt inn á reikninginn.
Aðra greiðslu vegna flugmiða verður að senda út í næstu viku og eins er Sýrland byrjað að tísta. Svo ég hvet alla þá sem ekki hafa gert janúarskilin að gera það hið bráðasta elskurnar mínar. Það er ekki mikill varasjóðurinn sem johannatravel liggur með eins og menn vita.

Ansi margir segja mér að þeir hafi ekki fengið auglýsingabæklinginn frá Mími símennt. Hann barst reyndar ekki til mín fyrr en ég kvartaði við Fréttablaðið. Það eru þó nokkrir að íhuga mál þar svo þið ættuð að láta Fréttablaðið vita og ekki liggja á því við Mími ef einhver vanhöld hafa orðið á þessu.

Góður hópur bættist við Líbanons/Sýrlandsferð í síðustu viku svo það lítur notalega út en ég get samt tekið nokkra til viðbótar.

Þá er Jemen/Jórdanía í ágætu standi, fundur verður um þá ferð næsta laugardag og ef einhverjir volgir hafa áhuga á að koma á fundinn geta þeir gert það, skuldbindingarlaust, og sér til upplyftingar og kæti. Sú ferð er eins og áður hefur komið fram 8.-26.maí og þátttakendur mega ekki vera fleiri en 20 og auðvitað ekki færri en 15 því þá er verðið í uppnámi eins og þar stendur.
Menn verða þó að láta vita ef þeir ætla að koma, þ.e þeir sem ekki hafa þegar gert það.

Er líka að bauka við að setja saman ferð fyrir sjálfa mig til Egyptalands að skoða hótelin sem við verðum á í marsferðinni svo og að komast til Írans eins og ég hef margsinnis getið um. Það yrði sirka seinni part febrúar um leið og námskeiðunum hjá Mími lýkur.

Svo er ég að búa til dagskrá fyrir stéttarfélag sem hefur beðið mig að plana fyrir sig Egyptalandsferð. Að því búnu ætla ég ekki að missa af Stjörnukonum spila handboltaleikinn við þær grísku. Sæl að sinni.

Mímir hefur sent út auglýsingapésann

Með Fréttablaðinu í dag var auglýsingabæklingur Mímis símenntar borinn út. Þar kemur fram að námskeiðin um Menningarheim araba hefjast 20.janúar og verða á fimmtudögum eins og oftast hefur verið. Arabískunámskeið verða á mánudögum og miðvikudögum.

Eins og ég nefndi á dögunum hefur aðsókn verið afskaplega góð á þessi námskeið en best að drífa í að skrá sig sem fyrst því ég vil ekki hafa hópinn of stóran. Það skiptir verulegu máli að við gefum okkur góðan tíma til skrafs og umræðu og þess vegna er óheppilegt að hafa námskeiðin of fjölmenn.

Ennfremur byrja námskeiðin nú aðeins fyrr en venjulega þar sem ég stefni á að komast til Írans í febrúar svona í eins konar vettvangsskoðun til að kanna hvort ferð til Írans fyrir VIMA félaga kæmi til greina og hvers lags verð væri í boði og þess háttar. Sú ferð yrði þó væntanlega ekki fyrr en á árinu 2006.




Þrjú pláss hafa losnað í Egyptalandsferð- verið snögg

Góðan daginn á gleðilegu nýju ári

Vil láta VIMA fólk og aðra velunnura vita að þrjú pláss hafa losnað í ferðinni til Egyptalands um páskana vegna ófyrirsjáanlegra forfalla. Bendi fólki sem hefur hug á að láta í sér heyra snarlega.

Ferðin er frá 20.-30.mars og hentar ágætlega að því leyti að fólk þarf ekki að taka marga frídaga frá vinnu.

Í þessari ferð erum við á mjög góðum hótelum, yfirleitt 5stjörnu og einu sem er 4ra stjörnu.
Til fróðleiks má geta þess fyrir bókavini og þá sem þekkja sögu Paulo Coelho Alkemistann, að það var einmitt í vinjabænum Fejun sem við förum til sem söguhetja þeirrar bókar leitaði alkemistans og fann hann.

Kíkið inn á upplýsingarnar um ferðina og hafið samband.