Allar þrjátíu og sjö

Birti hér heildarlista yfir stúlkurnar 37. Eins og sjá má hafa styrktarmenn verið svo fúsir að gefa sig fram að Fatímusjóður borgar beint fyrir aðeins eina stúlku og því munum við bæta við fleirum eins og ég sagði hér á undan. Ítreka að framlög öll eru þakksamlega þegin. Úr sjóðnum fer einnig greiðslan til Líbanon á morgun.
Vinsamlegast gangið frá greiðslum - þ.e þið sem eigið það ógert -því ég hef sent út greiðslur fyrir allar nema þær tvær sem Zontaklúbburinn Sunna styrkir beint- eða látið mig vita hvernig þið viljið skipta þeim.
Munið svo góðu styrktarmenn að senda mér myndir fyrir föstudag n.k.

1. Sara Mohammed Saleh Hussein 8 ára og er í fjórða bekk - Erla V Adolfsdóttir
2 Uesra Mohammed Saleh Hussein 7 ára og er í öðrum bekk - Dóra Þórhallsd/Magnús B. Einarsson
3. Hyefa Salmane Hassan 9 ára, í 4. bekk - Ingunn Mai Friðleifsd
4. Anise Nagi Ali 11 ára og í 5.bekk- Valgerður Kristjónsdóttir
5. Gedah Mohammed Ali, 13 ára í 7. bekk -Þóra Jónasdóttir
6. Safa Nagi Ali Yusef 13 ára í 5.bekk - Sigríður Halldórsdóttir
7. Takeyah Ahamed Almatree, 7 ára og er í 1.bekk - Dominique Pledel Jónsson
8. Fatten Bo Belah, 13 ára og í 3.bekk - Guðrún Halla Guðmundsdóttir
9. Leebia Mohammed Alhamery, 12 ára og er í 5.bekk - Guðlaug Pétursdóttir
10.Abir Nagi Al Yushi, 7 ára og er í 3.bekk - Guðlaug Pétursdóttir
11. Suzan Alhamley 12 ára og er í 7.bekk - Ingunn Mai Friðleifsdóttir
12. Amal Kandach 7 ára og er í 3.bekk- Margrét Guðmundsdóttir
13. Zaynab Kandach, 8 ára og er í 3.bekk - Guðrún Valgerður/Elvar Ástráðsson
14. Nassim Aljoneed, 10 ára og er í 4 bekk - Jóhanna Kristjónsdóttir
15. Shemah Alijoneed, 8 ára og er í 3 bekk - Ingunn Mai Friðleifsdóttir
16. Yesmin Jamil Alsalwee, 12 ára og í 5. bekk - Guðrún Margrét Guðmundsdóttir
17. Hind Bo Belah, 8 ára og er í 2.bekk - Guðrún Ólafsdóttir
18. Hayat Almatree, 10 ára og í 5 bekk - Inga Hersteinsdóttir
19. Hanak Almatree, 17 ára og í 2. bekk í framhaldsskóla - Ragnheiður Gyða og Oddrún Jónsdætur og Guðrún Valgerður Þórarinsd.
20. Hanan Almatree, 12 ára og í 6. bekk - Jóna Einarsdóttir
21. Sara Mohammed Al Rymee, 9 ara og er i 4.bekk - Sigríður G. Einarsdóttir
22. Rasha Abdo Hizam, 9 ara og er i 5.bekk - Hulda Waddel og Örn Valsson
23. Khload Mohammed Ali, 8 ara og er i 2.bekk - Stella Stefánsdóttir
24. Bosara Ali Ahmed, 8 ara og er i 3.bekk - Margrét Pálsdóttir
25. Tahanee Abdallah Husseen, 7 ara og er i 1.bekk - Zontaklúbburinn Sunna
26. Saadah Abdallah Ali, 8 ara og er i 1.bekk - Zontaklúbburinn Sunna
27 Dekra Hatem Mhdee, 11 ara og er i 6.bekk - Edda Ragnarsdóttir
28. Abir Abdo Al Zabibi, 11 ára og er í 1.bekk - Ólöf Arngrímsdóttir
29. Fatima Moh. Nagi Al Yushi, 14 ára og er í 3.bekk - Herdís Kristjánsdóttir
30. Ahlam Abdul Al Dhabibi, 9 ára og er í 3.bekk - Fatímusjóður
31. Safa Jamil Al Salwi 12 ára og í 5.bekk- Guðrún Erla Skúladóttir
32. Nagia Sjukri Najeb 11 ára og í 5.bekk - Ólöf Sylvia Magnúsdóttir
33. Asia Sjukri Najib, 15 ára og er í 8.bekk - Eva Júlíusdóttir
34. Fairouz Moh. Al Hamayri- 22ja ára og er í 9. bekk - Ragnhildur Árnadóttir
35. Amal Moh. Al Remi, 15 ára og í 9.bekk - Birna Sveinsdóttir
36. Ahlam Yahija Hatem 16 ára og í 1.bekk framhaldsskóla - Birna Karlsdóttir
37. Bodore Nagi Obad 11 ára og er í 6. bekk- María Kristleifsdóttir

Ritnefnd tekin til starfa - tvær stúlkur til viðbótar með styrktarmenn- og gleymum ekki Líbanon

VIMA stjórn og nýskipuð ritnefnd hittist áðan til skrafs og ráðagerða. Ritnefndina skipa
Birna Karlsdóttir
Oddrún Vala Jónsdóttir
Sigurbjörg Ásgeirsdóttir

Þær stefna að því að fyrsta fréttabréfið komi út fyrstu viku janúarmánaðar og verður sent til allra félagsmanna. Gaman væri ef við gætum gefið út svona fréttabréf ársfjórðungslega. Sjáum til með það.

Þar sem samþykkt var með lófaklappi á fundinum fyrir viku að efna til árshátíðar VIMU höfum við sent fjórum félögum beiðni um að taka sæti í skemmtinefnd til að undirbúa hana og vænti ég að þeir taki beiðninni vel.

Svo hafa enn bæst við styrktarmenn

Safa Jamil Al Salwi, 12 ára og í 5. bekk - Guðrún Erla Skúladóttir
Ahlam Yahia Hatem, 16 ára, í 1.bekk í framhaldsskóla - Birna Karlsdóttir

Nokkurn veginn liggur það í augum uppi að ég mun biðja þær YERO konur um fleiri nöfn þegar ég hitti þær í Jemen fljótlega og svo má ekki gleyma að við munum láta Fatimusjóð styrkja amk 5 í fullorðinsfræðsluna sem hefst eftir áramótin.

Þá vil ég segja frá því að ég mun á mánudaginn láta bankann millifæra 500 dollara úr sjóðnum í verkefnið í flóttamannabúðunum í Sjabra og Sjatila í Líbanon og við höfum lagt smáupphæðir í árlega síðan góðir VIMA félagar stungu upp á því að leggja þessu verkefni lið þegar hópur var á ferð í Líbanon fyrir tveimur árum.

Styrktarmenn hafa flestir gert upp fyrir sínar stúlkur eða látið mig vita hvernig þeir ætla að greiða.
Á hinn bóginn þarf Fatímusjóður líka að blómstra svo ég minni á að öll framlög í hann eru þakksamlega þegin. Þið sjáið reikningsnúmerið hérna til hliðar á síðunni.

Fleiri stúlkur fá styrktarmenn - og myndir berist sem fyrst

Fyrir utan þá sex VIMA félaga sem tóku að sér að styrkja stúlkur í Jemen hafa nú bæst við tvær til viðbótar
Bodore Nagi Obad, 11 ára og í 6. bekk - stuðningsmaður María Kristleifsdóttir
Safa Jamil Al Sawi, 12 ára og er í 5. bekk - stuðningsmaður Guðrún Skúladóttir.

Hef fengið fyrstu myndir og vona að þær streymi til mín á næstu dögum því mér finnst ekkert vit í öðru en uppfylla þessa ósk telpukornanna okkar. Enga hefðarmynd, bara einhverja góða sem þið hafið við höndina.

Þá skal þess getið að Íranferðin er orðin vel skipuð en get bætt við tveimur í hana - ekki fleirum þó. Þarf að vita það sem allra, allra fyrst.

Vona svo að ég heyri frá áhugasömum um Sýrland. Eins og ég minntist á urðu nokkur forföll þar vegna veikinda. Jemen er einnig með laus pláss. Það er þó ekki eins aðkallandi að fólk tilkynni sig í þessar tvær síðarnefndu, þe. Sýrland og Jemen fyrr en í desember. Ómanferðin er uppseld og ég get ekki fengið fleiri sæti í hana enda finnst mér hópstærðin vera hæfileg fyrir fyrstu ferð.

Varðandi Íransferðina í september 2006 er aðsókn mikil og menn þurfa að borga staðfestingargjald í hana upp úr áramótum til að öruggt sé að þeir fái pláss.

MYNDIR AF OKKUR- hvernig væri það?

Góðan daginn, félagar. Meiri kuldablíðan úti.

Það var minnst á við mig á fundinum hvort styrktarmenn Jemenstúlknanna ættu að senda þeim smágjafir sem ég tæki með mér þegar ég fer út eftir tíu daga eða svo.

Í gær kom hins vegar imeil frá YERO-konunum í Sanaa og þær spyrja kurteislega hvort möguleiki sé á því að ég geti komið með myndir af styrktar/fósturfólki stúlknanna. Þær langi mjög til að eiga myndir af þeim sem hjálpar þeim. Þær sögðust einnig óska eftir heimilisföngum svo stúlkurnar gætu verið í beinu sambandi og þann lista mun ég útbúa og færa þeim. Þær tóku fram að stúlkurnar gætu ekki notað tölvumyndir og langaði í alvörupappírsmyndir.

Myndir af stúlkunum verða svo færðar öllum sem hlut eiga að máli þegar ég kem aftur.

Þessu beini ég nú til ykkar. Mér finnst þetta þjóðráð. Bregðið við skjótt og uppfyllið þessa hógværu ósk og póstið til mín mynd af ykkur. Myndir þurfa að vera í mínum höndum ekki síðar en fimmtudag/föstudag í næstu viku.
Athugið að tvær styrkja fleiri en eina stúlku og ég þarf því myndir í samræmi við það. Zontaklúbbur sem styrkir tvær stúlkur- getið þið ekki sent annað hvort hópmynd eða mynd af formanni klúbbsins? Heimilisfang mitt er Drafnarstígur 3, 101 Reykjavík
Svo er hér listi yfir sex stúlkur sem nú eru studdar af einstaklingnum í VIMA.

Abir Abdo Al Zabibi - Ólöf Arngrímsdóttir
Fatima Al Yushi- Herdís Kristjánsdóttir
Nagia Sjukri Najib- Ólöf S. Magnúsdóttir
Asia Najib- Eva Júlíusdóttir
Amal Moh. Al Remi - Birna Sveinsdóttir
Fairouz Al Hammyari - Ragnhildur Árnadóttir

Arabíukonur í kilju

Fékk af því fregnir að Arabíukonum væru komnar í kiljuútgáfu í verslanir og væri gaman ef henni gengi vel þar.

Drjúgar undirtektir hafa verið við því að Insjallah kæmi út í kilju líka. Eins og ég nefndi býst ég við að þá væri langhyggilegast að ég sæi um þá útgáfu sjálf eins og raunin var með Ást á rauðu ljósi fyrir nokkrum árum. Því stefni ég að því að safna áskrifendum að Insjallah. Það verður bara í rólegheitum enda liggur ekki á að gera það fyrr en eftir jólin. Verðum í sambandi hvað það snertir. Mætti hugsa sér að þeir VIMA félagar sem áhuga hefðu á fengju þá bókina á lægra verði.

En sem sagt Arabíukonur eru komnar í verslanir í kilju og vonandi verður henni tekið af nokkrum áhuga.

Til upplýsinga skal þess getið að elsti ömmudrengurinn minn Kristjón Kormákur Guðjónsson(Elísabetarson) hefur sent frá sér bókina Frægasti maður heims. Hún er nýstárleg og bara ansi vel skrifuð.

Fjölmennur fundur VIMA á laugardag

EINS og fyrr var félagsfundur VIMA í Kornhlöðunni í gær, laugardag ákaflega vel sóttur og á sjötta tug skrifuðu í gestabókina. Ýmsir nýir og áhugasamir mættu á fundinn og svo varð fagnaðarfundur hjá ýmsum ferðafélögum sem hafa verið saman í ferðum og hyggja margir á flakk með johannatravel á árinu 2006.

Mörður Árnason, Vimafélagi var fundarstjóri af skörungsskap og JK talaði um Jemenverkefni okkar. Rakti aðdraganda að stofnun Fatimusjóðsins sem hefur að markmiði að styrkja jemenskar stúlkur í skóla sem þær ættu ella ekki kost á.

Fjórir nýir félagar bættust í hópinn sem styrktarmenn og fleiri hafa áhuga og hyggjast leggja inn ákveðna upphæð á mánuði. Það þarf ekki að vera há upphæð svo hún komi að gagni, 1000-1200 krónur sem leggist inn á Fatimureikning hjálpar.

Einnig var talað um þau áform stjórnar VIMA að gefa út fréttabréf einu sinni til tvisvar á vetri og gáfu sig umsvifalaust fram í ritnefnd Birna Karlsdóttir og Oddrún Vala Jónsdóttir. Ef fleiri vilja vera með í því er það gleðiefni.

Margir góðir og virkir VIMA félagar hafa ekki netfang eða fara ekki að staðaldri inn á póst svo þetta gæti komið að góðu gagni svo allir geti fylgst með.
Samþykkt var með lófaklappi að efna til árshátíðar, að líkindum stefnum við á hana um miðjan janúar og verður sagt frá því síðar.

Guðrún Margrét Guðmundsdóttir, mannfræðingur í Miðausturlandafræðum, flutti síðan erindi þar sem hún sagði frá búsetu sinni í fjórum löndum á Arabíuskaga í tíu ár, þegar hún var á aldrinum 15-25 ára. Hún lýsti hvernig sú reynsla hefði verið og hversu margvíslegan lærdóm hún hefði dregið af þessum árum. Þetta erindi mæltist ákaflega vel fyrir og síðan voru lagðar fyrir Guðrúnu Margréti ýmsar spurningar sem hún svaraði greiðlega. Þótti mönnum mikill fengur að hlusta á hana.

Guðlaug gjaldkeri var vinsæl og ýmsir gerðu upp félagsgjöld eða skráðu sig í VIMA og svo var skrafað og skeggrætt um næstu ferðir og áhuga á þeim yfir kaffi og hnallþórum.

Stjórn VIMA er himinlifandi yfir því hvað félagsmenn eru duglegir að sækja fundi og félagsstarf eflist væntanlega enn með fréttabréfi og glaðlegri árshátíð.

JK greindi frá því að nokkrir til viðbótar kæmust í ferðirnar sem fyrirhugaðar eru, Íransferðina í mars vantar enn 2-3 svo verð haldist, vegna veikindaforfalla geta fáeinir íhugað Sýrland/Jórdaníu og Jemen í maí getur tekið amk. fimm til viðbótar. Ég hef áður sagt að það er aðkallandi að menn skrái sig tímanlega vegna þess að alls konar skriffinnska og undirbúningur er hjá okkur, þar sem við erum ekki ferðaskrifstofa með fjármagn eða bakhjarl.

Eins og sagt var frá á fundi ætlar JK svo til Ómans 6.nóv. n.k. til að ganga úr skugga um að febrúaráætlunin sé öll til prýði. Þá er einnig meiningin að fara í nokkra daga til Jemens og hitta "stúlkurnar okkar." Vonandi get ég svo fært styrktarfólki myndir af sínum stúlkum eftir þá ferð. Sú hugmynd kom fram hvort styrktarmenn ættu að senda smágjafir með og ég varpa þeirri ágætu hugsun fram til að menn geti íhugað það.

Takk fyrir góðan fund og leggið endilega orð í belg um það og hvaðeina sem ykkur dettur í hug.

FUNDARBOÐ Á LEIÐINNI - allir á fundinn

Hinn ötuli gjaldkeri VIMA, Guðlaug Pétursdóttir, póstaði í morgun fundarboð til allra þeirra félaga sem hafa ekki netfang - varðandi fundinn í Kornhlöðunni nk. laugardag kl. 14. Við vonum að sem flestir komi þar og hlusti á Guðrúnu Margréti, svo og nokkurn fróðleik sem ég ætla að reiða fram varðandi Jemenverkefnið okkar en þar styrkjum við nú 37 stúlkur til náms sem þær hefðu ella ekki átt kost á.
Einnig hugmyndir VIMA stjórnar um útgáfu fréttabréfs og e.t.v. árshátíð. Þetta er orðinn nokkuð stór hópur og ég er viss um að við eigum fullt af fólki innan okkar raða sem gæti séð um fínustu skemmtiatriði á slíkri árshátíð.

Frammi liggja einnig á fundinum áætlanir um ferðirnar okkar á árinu 2006, örstutt ferðalýsing og svo hvað er innifalið og hvernig á að greiða ferðirnar.

Kaffi/te og vonandi súkkulaðikaka verða seld á viðráðanlegu verði til að gúffa í sig með erindi og skrafi og svo er bara gaman að hitta ferðafélaga, nýja sem gamla og rifja upp endurminningar og hlakka til næstu ferða.
Tekið fram og ætti auðvitað að vera óþarft að nýir félagar eru margvelkomnir á fundinn og ég bið ykkur að láta þetta berast vítt og breitt.

Ástæða er til að lýsa ánægju með það hvað Íransfarar í mars og Sýrlands/Jórdaníufólk í apríl hefur verið snöggt að greiða félagsgjald VIMA og margir eru búnir að borga staðfestingargjöld sín og vonandi bætast fleiri við á næstu dögum. Þetta þarf að vera klárt fljótlega eins og þið sáuð í greiðsluáætlun. Sama gildir um febrúarfólkið til Ómans. Þar er allt undir fegursta kontróli.
Einnig má borga á nefndum fundi ef það hentar betur.

Til Ómanfara sérstaklega: fékk í dag spólur um Óman en í bígerð er að hópurinn hittist upp úr áramótum, fái sér smásnæðing og horfi saman á þessar spólur.

Svo minni ég ábyggilega einu sinni enn á fundinn. Verið stundvís.

Orðsending til ferðalanga og lítil frásaga um fund

Góða sunnudagskvöldið

Fundur með væntanlegum Sýrlands/Jórdaníuförum var á laugardaginn og gekk ljúflega fyrir sig. Drukkum te og kaffi og borðuðum yfirmáta sætt íranskt sælgæti. Farið var yfir ferðaáætlun og lagðar helstu línur, svo sem varðandi tryggingar og greiðslumál. Öllum var bent á að það er skilyrði að vera félagi í Vináttu- og menningarfélagi Miðausturlanda og var því tekið blíðlega af þeim sem eru það ekki þegar fyrir. Skulu menn því drífa sig í árgjaldagreiðsluna og fylgja síðan greiðsluplaninu sem ég afhenti. Þetta var ljúfur fundur og um margt skrafað. Síðan hafa tveir bæst við og ég get tekið fáeina í viðbót því ferðaskrifstofan ann okkur heitt og hliðrar til.

Þetta á einnig við um Íransfara í mars. Eins og ég sagði mönnum frestaði ég þeim fundi þar sem fólk var úti um víðan völl. Við hittumst vonandi í nóvemberlok. En fyrir þann tíma þarf að greiða staðfestingargjald og svo fyrstu greiðslu um mánaðamótin. Vinsamlegast gerið það skilvíslega því ég verð að standa í skilum við alla sem eiga að fá greiðslur og þær verð ég að inna af hendi á ´hárréttum tíma. Skal tekið fram að ég sé að einn Íransferðalangur hefur þegar greitt staðfestingargjaldið og takk fyrir það. Sendi öllum áætlun svo þetta ætti að vera á hreinu.

Bandi ykkur á að undir linknum Hentug reikningsnúmer er annars vegar að finna reikningsnúmer VIMA og kt. og einnig er reikningurinn sem skal einvörðungu nota til að greiða staðfestingargjald og inn á ferðirnar.

Sofið svo blítt.

Mikilsverður fundur VIMA í Kornhlöðunni 22.okt

Eins og ég minntist á þegar ég sendi ykkur póst í gær vakti ég athygli á að fundur yrði hjá VIMA- Vináttu og menningarfélagi Miðausturlanda í Kornhlöðunni laugardaginn 22.okt. kl. 14 - þ.e. eftir viku.

JK segir frá Jemen-verkefni félagsins, þ.e. stofnun Fatimusjóðs- aðdraganda og ástæðum og hvernig því hefur miðað. Talar einnig stuttlega um hugmyndir stjórnarinnar um útgáfu fréttabréfs og þá hugmynd að efna til árshátíðar.

Aðalefni fundarins er að Guðrún Margrét Guðmundsdóttir, mannfræðingur flytur forvitnilegt erindi sem mun fjalla um reynslu hennar af því að búa í fjórum löndum á Arabíuskaga; Katar, Sameinuðu furstadæmin, Jemen og Kuwait, á árunum 1985 - 1995. Hún rifjar upp hvernig það var eyða unglingsárunum í Arabíu, ganga í breskan menntaskóla, vinna á fimm stjörnu lúxushóteli, verða ástfangin, og giftast svo líbönskum manni, eignast með honum börn. Um upplifun á daglegu amstri og samskiptum við ólíka hópa fólks frá ýmsum heimshornum. Hún mun segja frá reynslu sinni af stríðsátökum á svæðinu; Flóastríðinu (1990-1991) og borgarstyrjöldinni í Jemen (1994). Í lok erindisins mun hún svo skýra hvernig hún metur þessa reynslu sína nú 10 árum seinna og hvernig hún hefur mótað skoðanir hennar á stöðu MIðausturlanda nú til dags á alþjóðavettvangi.

Þetta er því einkar athyglisverður fundur og við í VIMA vonum að sem flestir sjái sér fært að mæta. Við minnum fólk á að greiða árgjöld sín til félagsins. Kaffi og terta selt á hóflegu verði sem fyrr. Ferðaáætlanir munu liggja frammi. Nýir félagar eru velkomnir.

Þriggja barna jemensk móðir komin á styrktarlista okkar

Góðan daginn og hér með nokkur notaleg orð í tilefni dagsins.
Ath. að á morgun set ég inn tilkynningu um almennan VIMA fund sem verður í Kornhlöðunni eftir rúma viku.

Fékk fyrir fáeinum dögum nýjan lisa yfir tíu stúlkur frá YERO í Jemen þar sem ég sagði þeim að Fatímusjóður vildi styrkja ólæsar stúlkur 15-20 ára í fullorðinsfræðslu.

Þær segja mér að það prógramm byrji ekki fyrr en um áramót en sendu mér sem sagt lista yfir stúlkur 11-16 ára sem hafa ekki styrktarmenn í vetur og vonast eftir hjálp. Svo áðan lét ég millifæra af reikningi sjóðsins fyrir þessar stúlkur.

Ein þeirra Fairouz Mohammed Al Hamyari er nokkuð einstök og mig langar að segja aðeins frá henni. Hún er 22ja ára, fráskilin og á 3 börn. Hún hætti í skóla þegar hún giftist en nú eftir skilnaðinn vill hún bæta sína möguleika og taka upp þráðinn, klára grunnskólann og halda áfram í menntaskóla og síðan háskóla. Hún hefur skrifað sig í 9.bekk sem bendir til að hún hafi hætt 14-15 ára. Mér finnst einstaklega sjarmerandi að Fatimusjóður styrki þessa ungu spræku konu.

Ef fleiri vilja leggja þessu lið þá vitið þið að því er tekið með fögnuði. Svo nú eru samtals 37 stúlkur sem eru í skóla fyrir tilstuðlan íslenskra. Það er flott.

Athuga svo að ég verð með smáfund um Sýrlands/Jórdaníuferðina nú á laugardag kl 14 stundvíslega í gamla Stýrimannaskólanum við Öldugötu. Þar förum við yfir áætlun og fáum okkur te og kaffi og íranskt sælgæti. Fundurinn stendur ekki nema í mesta lagi klukkustund og aðkallandi að skráðir og áhugasamir mæti. Greiðsluáætlun lögð fram því þátttakendur verða að byrja að borga inn á ferðina á næstu dögum.
Vegna forfalla geta 2-3 bæst við. Hafið það bak við eyrað. Nokkrir geta ekki komið en hafa látið vita og ég sendi þeim upplýsingar eftir helgina.

Varðandi Íransferðina í mars: Hún er orðin vel skipuð, en má bæta við tveimur en ekki öllu fleirum þó. Íransfarar hafa fengið senda rétta áætlun og hvernig skal greiða ferðina. Verið svo ljúf að fylgja þeirri áætlun vandlega. Það má tiltölulega lítið út af bera í þessum dæmum mínum. Mun halda fund um ferðina í lok nóvember.
Látið í ykkur heyra. Það peppar mann upp að heyra frá ykkur.

VIL MINNA A JEMENFERÐINA


Svei mér ef veturinn er ekki bara kominn í bæinn.

Mig langar til að benda ykkur á að það er ekki að ástæðulausu sem ég hvet fólk í VIMA og nýja félaga til að skrá sig í ferðirnar. Það stafar einfaldlega af því að það er mun meira umstand og undirbúningur við þessar ferðir en svona massatúrisma þar sem hvorki þarf áritanir né að senda út upplýsingar fyrirfram.
Einnig stafar þetta af því að það eru ekki starfsmenn hér og greiðslur þarf að senda út með lengri fyrirvara og á ýmsum tímum og til að hafa skikk á þessu öllu er aðkallandi að við höfum góðan undirbúning.

Og nú minni ég á Jemenferðina í byrjun maí. Það verður að hefjast skráning í hana sem fyrst og nokkrir hafa tilkynnt sig en við þurfum fleiri svo að verð haldist óbreytt. Ég kalla það gott ef ekki þarf að hækka ferðirnar í vetur því flugfélög eru þegar farin að breyta verði en ef ákveðinn fjöldi næst er samningsstaðan betri svo maður tali nú hátíðlega.

Íranferðin í mars er að taka á sig mynd en þar má bæta við. Hafið það bak við eyrað.

Þá verða smáfundir á næstunni með marsfólki til Írans og Sýrlands/Jórdaníuferðalöngum í apríl. Nánar um það fljótlega.

Ég hef fengið nokkuð góð viðbrögð við stuðningi við fullorðinsfræðslustúlkurnar og þakka fyrir það. Vonast til að heyra frá fleirum þó.

Vonast svo líka til að setja myndir frá Íran inn á síðuna fljótlega.

Unglingsstúlkur í fullorðinsfræðslu

Sæl aftur
Þær stöllur hjá YERO í Jemen hafa sent mér nýjan lista að minni beiðni með nöfnum 10 stúlkna sem eru á aldrinum 16-20 ára. Þær eru ólæsar og hafa aldrei gengið í skóla en eru nú á biðlista að komast í fullorðinsfræðslu í bækistöðvum YERO, þar er þeim kennt að lesa og skrifa og eins eru þær þjálfaðar í verklegum greinum, eins og saumaskap og léttum iðngreinum þegar þær hafa náð lestrinum. Með þessu hafa þær síðan kannski ekki von um að geta komist í menntaskóla en altjent bjargað sér betur.

þær spurðu hjá YERO af hverju við vildum bara stúlkur, það væri fullt af strákum sem þyrftu að komast í skóla. Ég var svo hrifin af því sem Ingunn Mai skrifaði mér á dögunum að með því að mennta dreng, menntarðu mann, með því að mennta stúlku menntarðu þjóð - svo ég svaraði þeim á þá lund og þær sögðust hneigjast til að vera sammmála.

Nú veit ég ekki hvað fullorðinsfræðslan kostar per stúlku, þær eiga eftir að senda mér kostnaðaráætlun. Fatímusjóður mun borga fyrir amk fimm þessara stúlkna með léttum leik og ef þið viljið sérstaklega taka þátt í þessu þá er reikningsnúmerið hérna til hliðar. Væri gaman að heyra frá ykkur hvernig ykkur líst á þetta.

Annars er það helst títt að arabískukennslan byrjaði í gærkvöldi og fyrsti tíminn í menningarheimsnámskeiði er í kvöld.

Einnig þakka ég Ómanförum fyrir snögg viðbrögð og bendi enn og aftur á að Íransferðin í mars er til reiðu fyrir þá sem því við koma. Verðið er gott og veðrið er gott og því um að gera að skrá sig.

Almennur félagsfundur verður í VIMA 22.okt. Kl. 14 á laugardegi í Kornhlöðunni. Þar mun Guðrún Margrét Guðmundsdóttir, mannfræðingur í Miðausturlandafræðum flytja erindi og nánar um það síðar.

Nú væri ráð að klára að undirbúa tímann í kvöld og kaupa svo hljóðkút undir elskulega gamla bílinn minn.

Glöðu styrktarmennirnir birtust samstundis

Það er mér hin mesta gleði að segja frá því að ég hafði varla sett inn á síðuna í gær að þrjár jemenskar stúlkur væru styrktar af Fatimusjóðnum én ef einhverjir vildu taka þær að sér - ja, þá buðu sig fram stykrarmenn. Svo allar stúlkurnar eru nú styrktar af einkafólki.

Af því tilefni sendi ég út í morgun nöfn á þeim nýju sem tóku við stúlkunum og bað jafnframt um einar tíu nýjar stúlkur, helst á framhaldsskólaaldri 13-16 og tvær á háskólaaldri sem Fatimusjóðurinn mundi þá taka að sér.

Ég hef velt því fyrir mér hvort við ættum að fara með þetta í fjölmiðla og fá þá fleiri en að svo komu máli ætla ég að bíða með það. Mér finnst þetta glæsilegt og ef við fáum nokkrar eldri líka til að styrkja er alveg nóg að halda utan um þetta í bili og kynna svo málið þegar ég hef farið þarna út í nóvember og gengið úr skugga um að allir peningar renni á rétta staði.

Auðvitað er fagnaðarefni ef menn vilja taka þátt í með Fatimusjóð að styðja við fleiri stúlkur og ljómandi ef þið hafið samband um það.

Guðrún Valgerður Bóasdóttir og Elvar Ástráðsson hafa tekið að sér Zaynab Kandach og Ingunn Mai Friðleifsdóttir sem einnig styður Hyefu Salmane Hassan hefur tekið að sér stúlkurnarnar Suzan Al Hamley og Shemah Alijoneed til viðbótar.
Kærar þakkir.

Komin heim í heiðardalinn

Margblessuð öll
Lent heilu og höldnu eftir stórkostlega ferð. Að vísu er sálin á vafrinu, líklega á leiðinni frá Armeníu. Þrátt fyrir einstaklega þægilega daga í Vínarborg hættir henni til að vera aðeins seinni á ferðinni. Vona hún detti inn í kvöld eða fyrramálið, það er hreint ekki þægilegt að vera sálarlaus.

En nú hefst sumsé hvunndagurinn af krafti. Byrja að kenna arabísku á miðvikudag og fyrsti tíminn í Menningarheimi araba er á fimmtudagskvöldið.Mér skilst það sé fullskipað í hvorutveggja námskeiðin.

Sé að Ómanfarar hafa brugðið við skjótt og greitt inn á ferðina og takk fyrir það kærlega.

Svo beið mín imeil frá Jemen, þess efnis að nú væri YERO í óðaönn að taka myndir af stúlkunum okkar og þær verða síðan sendar til mín á næstunni. Bendi enn og aftur á að þrír glaðir styrktarmenn geta bæst við enn og Fatímusjóður getur þá styrkt eldri stúlkur sem hafa ekki efni á að komast í háskóla.

Ætla að halda fund með Sýrlands/Jórdaníuhópnum áður en langt um líður eins og ég hef minnst á. Læt vita um það með skikkanlegum fyrirvara og vænti þess að allir sjái sér fært að mæta. Þá þarf einnig að borga staðfestingargjaldið 18 þúsund krónur.

Ég vék að því í pistlunum frá Íran að það er nákvæmlega ekkert vit að fara til Íran í ágúst, of heitt í veðri. Það er ekki hægt að koma við tveimur ferðum í september og þess vegna sendi ég bréf til ýmissa áhugasamra um ferð í mars. Ferðaskrifstofukonan í Íran telur að hægt sé að smeygja marsferð inn en ekki fleiri en 20 komast með í hana.
Allmargir Ómanfarar eru bókaðir í Íran og þeir ganga fyrir í septemberferðina. Ég hef fengið þokkalegar undirtektir við Íransferð í mars en einir sjö komast með til viðbótar og frá þessu þarf ég að ganga fljótlega. Því bið ég fólk að láta heyra í sér og það snarlega. Ítreka þetta enn og aftur. Íransferð er þá fyrirhuguð sirka 2-4 mars og verður dagskráin nákvæmlega eins og septemberferðin og verð hið sama, svo fremi við náum hæfilegum fjölda, þ.e. 20 manns. Fundur með þessum þátttakendum verður líka í október. Svo legg ég land undir fót í nóvember þegar námskeiðunum lýkur og fer þá til Ómans að rúlla yfir ferðaáætlunina og bregð mér vonandi til Jemen að hitta stúlkurnar okkar.

Legg sömuleiðis kapp á að við náum þátttöku í Jemenferðina í maí. Gjörsovel og láta nú í ykkur heyra, elskurnar mínar og vænurnar.

Gjörið svo vel og láta síðuna ganga. Set myndir frá Íran og e.t.v. Armeníu inn á síðuna seinna í vikunni. Heyrumst svo