Gifting í rigningu og breytt númer Fatimureiknings

Góðan daginn

Ég skal byrja á því að segja ykkur hvernig veðrið var þennan dag fyrir 49 árum þegar ég var 17 ára. Það var hellirigning en stytti upp þegar leið á daginn en var þungbúið.

Þetta man ég, ekki af því ég skrifaði veðurlýsingar í dagbókina, heldur af því að um þetta leyti dagsins var ég að skrýðast mínu brúðarskarti til að fara í Chevroletbílnum með pabba upp í Hallgrímskirkju að gifta mig. Haldiði það sé nú.
Og maður var bara með svart krullað hár og fór hvorki í blástur né snyrtingu á andliti né öðrum líkamshlutum.
Og á morgun 1.sept eru 50 ár liðin frá því ég kynntist þessum sæla brúðguma mínum.
Við ættum að hneykslast hæfilega á ungum brúðum hér og hvar í heiminum.

Þó hjónabandið færi nú svona og svona þykir mér alltaf vænt um þessa tvo daga.

Breytt númer á FATIMUREIKNINGI
En úr brúðarkjólnum yfir í Fatimureikning sem hefur fengið nýtt númer 1151-15 551212 og kt. sem fyrr 1402403979 Hef sett það inn á Hentug reikningsnúmer. Nú hafa að vísu flestir borgað fyrir sínar stelpur en margir greiða þó mánaðarlega og þeim vil ég einkum og sér í lagi benda á breytinguna. Einnig leggja nokkrir inn upphæð beint á Fatimusjóð en styrkja ekki sérstakar stúlkur. Hef enda sent - auk greiðslu fyrir stelpurnar- peninga sem duga fyrir launum eins kennara í YERO stöðinni.
Hins vegar ferst hvorki himinn né jörð þó lagt verði inn á gamla reikninginn því ég færi þá á milli en bið ykkur samt að gjöra svo vel og skrifa þetta bak við eyrun.

Hef fengið verð frá egypsku ferðaskrifstofunni og það er þokkalegt en á hinn bóginn hef ég ekki heyrt frá þátttakendunum fleirum en þegar hafa gefið sig fram.

Bið Íranfara í næstu viku að kíkja eftir sínum pósti því ég hef sent fyrirspurn á Flugleiðir um hvort hægt sé að tjekka farangur alla leið frá Keflavík til Teheran.

Minni svo allra glaðlegast á 2ja kvölda námskeið um Líbanon/Palestínu/Ísrael og nýliðin átök þar, sögu og samskipti sem verður hjá Mími símennt dagana 28.sept og 3.okt.

EGYPTALAND, haustfundur og síðast en ekki síst mínir alþekktu LISTAR

Á von á að fá í dag verð á Egyptalandsferðinni svo ég bið menn að vera svo vinsamlega að gefa sig fram ef áhugi er á henni. Þrettán daga ferð sirkabát í febrúar. Þáttaka verður að nást að lágmarki 16 og hámarki 21.

Sama verður væntanlega uppi á teningnum með marsferðina til Íran, hvað lágmark og hámark snertir.

Enn vantar tvær jemenskar stúlkur styrktarmenn en Fatimusjóður hefur greitt fyrir þær og allt gott um það að segja. Hitt fann ég mjög vel í fyrra að stelpunum þótti persónulegra að einstaklingur/einstaklingar styddu þær og skoðuðu myndirnar af sínum velgjörðarmönnum af mikilli ákefð og báru ákaft saman. Það er aldrei of seint að bætast í hópinn. Muna það

Tveir styrktarmenn fengnir!
Stúlkurnar tvær sem vantaði styrktarmenn eru búnar að fá sína. Það var snöfurlegur VIMA félagi sem vatt sér í að útvega þá.
Svo Summaia Galeb Al Jumhreee, 11 ára verður studd af Þórhildi Ólafsdóttur
og Fatema Samer Al Radee af Sigrúnu Tryggvadóttur. Takk fyrir það.

Minni á að haustfundur VIMA verður 7.okt. á Kornhlöðulofti, meira um það þegar nær dregur.

Listar um þá sem farið hafa í VIMAferðir

Til fróðleiks og skemmtunar birti ég svo hér lista yfir ferðir okkar og þáttakendafjölda í hverri

1.Sýrland okt 2000 (var fararstjóri fyrir Úrval/Útsýn) 24

2.Líbanon/Sýrland apr. 2002 (í samvinnu við Garðabakka) 13

3. Líbanon/Sýrland sept 2003 31

4. Líbanon/Sýrland apríl 2004(aðstoðarfararstj. 42
Ragnheiður G.Jónsdóttir)

24
5.Líbanon/Sýrland sept 2004
Sýrland/Jórdanía apríl 2005 30

7. Sýrland/Jórdanía apríl 2006 31

8. Jemen/Jórdanía maí 2004 18

9. Jemen/Jórdanía maí 2005 23

10.Jemen /Jórdanía 2006 13

11. Egyptaland mars 2005(aðstoðarstj. Ragnheiður G. Jónsdóttir) 36

12. Óman febr. 2006 26

13. Íran mars 2006 19

og svo er Íran sept 2006 eftir rífa viku 27

Samtals 357

Ánægjulegt að margir hafa farið í fleiri en eina ferð eða fleiri en tvær og raunar margir í þrjár og fjórar.

Tiltölulega lágt hlutfall hefur aðeins farið í eina ferð og aðeins þrír sem ég hef altjent fengið svör frá í skoðanakönnunum hafa sagt að þeir hafi ekki áhuga á frekari ferðum um þennan heimshluta, þótt sáttir hafi verið við sína ferð.
Hlutfall kvenna í ferðunum er miklu hærra en karla.

Svo er alltaf vænn hópur sem segist hafa áhuga á ferðunum - en seinna. Það er ágætt í sjálfu sér en menn skyldu nú grípa gæsina neðan hún gefst.

Ég bið hvern og einn mjög blíðlega en í alvöru að senda síðuna allavega á tvo til kynningar.

57 jemensk börn verða kát nú - ath. Kákasus og Íran

Ágætu hálsar
Þá er allt tilbúið til þess að senda út greiðsluna til fimmtíu og sjö jemenskra barna. Að vísu gerir það mig dálítið dapra að ekki hafa allir lokið við að greiða og á það bæði við um nýju stelpurnar - og þar vantar enn nokkra styrktarmenn - og sömuleiðis hafa ekki allir í fyrsta hópnum gert upp fyrir sínar stelpur þó ég viti ekki betur en allir ætli að halda áfram. Þar eiga þrír eftir að greiða svo þetta hefur mjatlast inn og takk virktavel fyrir það.

Það er ótækt að valda börnunum vonbrigðum og Fatimusjóður mun því leggja út fyrir þeim að sinni. En ég bið ykkur einlæglega að drífa í að gera upp eða láta mig amk. vita ef þið viljið skipta greiðslunum.

Mér finnst endilega að margir stuðningsforeldranna hljóti að vera í félagsskap þar sem mætti kynna þetta verkefni því ég er viss um að fleiri vilja taka þátt í þessu, bara að segja frá því.

Eftir er að borga fyrir eitt telpukorn í fyrri hópnum.

Í nýja hópnum
vantar styrktarmenn:
Summaia Galeb Al Jumhree
Fatema Samer al Radee

Fimm stúlkur til viðbótar verða styrktar en nöfn ekki komin.

Elskurnar mínar drífið ykkur nú í að gera þetta upp. Reikningurinn er 1151 15 551130 og kt. 1402403979. Upphæðin sem svarar 200 dollurum.

Kákasus og Íran
Mun senda til þeirra sem hafa skráð sig upplýsingar um staðfestingargjald og hvernig ferðir skuli borgast. Það getur að öllum líkindum ekki orðið fyrr en eftir að ég kem frá Íran. Það á við um Íran í mars, Jemen/Jórdaníu í mars/april og Kákasus í maí.
Það geta bæst við þó nokkrir í Kákasus því ýmsir hafa ekki svarað mér hvort þeir ætla eða ætla ekki. Einnig má bæta við í marsferð til Írans. Það er ekki beint heppilegt þegar fólk tilkynnir sig og lætur svo ekki vita þegar það þarf af einhverjum ástæðum að hætta við. Ég er hreint ekki hress með það enda ættu menn að vita það nú orðið eftir allt mitt tuð sem er ekki út í bláinn.

Útsöluferðir eða alvöru?
Mér fannst það vel orðað hjá einum góðum VIMA félaga, Dominique, að þessar ferðir séu ekki útsöluferðir og eigi ekki að vera það í verði heldur eigi þær að vera áfram sérstakar. Enda ekki á hverjum degi sem menn hafa tækifæri til að leggja leið sína til þessara landa.
Mikið er innifalið, nánast flest t.d. í Kákasus og í Íranferð allt nema áritun og tips til innlendra fararstjóra og bílstjóra.
Við erum líka mjög heppin hvað það snertir að í þessar ferðir sækja alvöruferðamenn.
Það er ekki lítils virði.
Svo þið sem hafið ekki svarað um hvort þið ætlið og þið sem viljið bætast í hópinn gerið það snarlega. Ég ítreka í 100.sinn að það er nauðsynlegt fyrir mig þegar ég er að púsla þessu saman að hafa góðan fyrirvara. Undantekning að menn geti stokkið inn í þessar ferðir..

Fullt út úr dyrum á ferðakynningarfundinum

ÁRÍÐANDI: Eftir að Íslandsbanki breyttist í Glitni eru allar kvittanir sem til mín eru sendar vegna greiðslna auðar. Ég fékk tvær í kvöld og veit ekki hverjir voru að borga. Vinsamlegast gangið úr skugga um að allt sé með felldu þegar þið greiðið og talið vandlega um þetta við bankann. Mun væntanlega fá upplýsingar frá SPRON um þetta á morgun en bið ykkur eindregið að hafa þetta hugfast

Ekki þjást VIMA félagar af minnisleysi því fullt var út úr dyrum á ferðakynningarfundinum okkar í Friðarhúsi í dag. Hátt í sjötíu manns skrifuðu í gestabók.

Þar mættu margir sem ég hef ekki séð áður og einnig sægur af félögum og máttu menn sitja þröngt enda allir sáttir. Fagnaðarfundir urðu með ferðafélögum sem hafa verið í VIMAferðum.
Kaffi, te og kex var á boðstólum og gerðu vonandi flestir sér gott af því.

Frammi lágu ferðaáætlanir og margir birgðu sig upp af þeim og látið absolútt heyra í ykkur sem fyrst ef þið viljið komast með í ferðir - og raunar gerðu ýmsir það vel og dyggilega. Ekki var svigrúm til að láta lista ganga en þið gefið ykkur bara fram og það fyrr en síðar.

Diskur Högna Eyjólfssonar úr Sýrlands/Jórdaníuferðinni sl. páska var sýndur á tjaldi, Vera Illugadóttir stjórnaði tölvum með diskum frá hinum ýmsu áfangastöðum og síðast en ekki síst var svo sýnd mynd Ólafs S. Guðmundssonar Ferðin til Jemen við óblandna hrifningu og lófaklapp.

Ýmsir gerðu upp sína Jemendiska og allmargir keyptu og sumir munu leggja inn á Fatimusjóðinn 2.500 kr. á næstunni. Um tíu diskar eru enn fáanlegir og ég hvet ykkur til að festa ykkur þá og leggja þar með smálóð á vogarskálarnar krakkanna okkar.
Mun senda diskana til þeirra sem ekki komust á fundinn einhvern næstu daga.

Fundurinn tókst held ég bara öldungis prýðilega og veit ekki betur en allir hafi haldið glaðir í brottu.

Við VIMAstjórn þökkum kærlega fyrir þessa ánægjulegu stund og Guðrúnu Valgerði og Elvari fyrir að veita okkur endurgjaldslaust afnot af húsnæðinu.

Munið nú endilega fundinn á morgun

Góðan mánudaginn

Ólafur S. Guðmundsson var að koma til mín fimmtíu stykkjum af sinni frábæru mynd "Ferðin til Jemen." Mun láta þá fá disk á morgun sem eru búnir að panta og svo geta fleiri keypt diskinn. Hann kostar bara 2.500 kr. og Ólafur lætur allt renna í Fatimusjóðinn.

Nouria segir mér að stúlkunum á fullorðinsfræðslu- og saumanámskeiðinu hafi gengið afbragðs vel og meiningin er að láta þessa peninga sem fást fyrir diskinn renna í að styðja þá hugmynd Nouriu að kaupa saumavélar handa þeim sem best standa sig. Það væri aldeilis búbót fyrir þessar stúlkur að geta unnið heima og á eigin vél.

Fundurinn á morgun er kl. 17,30. Í Friðarhúsi á horni Njálsgötu og Snorrabrautar, þar sem hannyrðaverslunin Erla var.
Þar liggja frammi áætlanir til Óman, Írans, Kákasus, Sýrlands, Jemen, Egyptalands og fl. Einnig eru þar kort af svæðunum sem við heimsækjum í ferðum okkar
Einnig látum við diska frá þessum stöðum rúlla í tölvum og svo verður sýnd mynd Ólafs sem áður er nefnd.
Þið getið skráð ykkur í ferðir og gengið í VIMA og munið að allir velunnarar eru margvelkomnir.
Bið ykkur að mæta stundvíslega. Kaffi og smálegt á boðstólum.
Sjáumst á morgun.

Annarri ferð til Kákasus bætt við 2007 - enn nokkur jemensk börn sem vantar stuðning

Minni Íranfara á miðaafhendingarfund í dag. Mikilvægt að allir mæti eða sendi einhvern fyrir sig.

Að öðru leyti þetta: Mér sýnist að við bætum við annarri ferð til Kákasus á næsta ári.
Bið þá sem skráðu sig áhugasama en hafa ekki látið í sér heyra að gera það snarlega og nokkrir geta því bæst við líka. Gleðilegt hvað ferðin hefur fengið góðar undirtektir.

Varðandi Jemen/Jórdaníuferðina 25.mars-11.apr. get ég skrifað þar á biðlista.

Svo má ekki gleyma Íran í mars, þar er kominn sæll hópur og Sýrland í ágústlok 2007. Var á áætlun að taka Líbanon aftur inn. Er jafnvel að hugsa um að halda mér við það ef allt verður þar í sæmilegu standi eftir ár. Þá yrði einkum farið um norðurhlutann. Suðrið er í rúst eins og menn vita en Líbanir eru ótrúlega seigir og mætti hugsa sér að þar væri hægt að fara um. Auk þess væri það móralskur stuðningur fyir Líbani að við kæmum þar.

Loks vil ég minna á jemensku krakkana. Þið sjáið á listanum í pistli fyrir neðan að enn vantar nokkra stuðningsmenn. Hef einnig minnt styrktarfólk sem var með 2005-2006 á að greiða fyrir 20. ágúst. Ef einhver getur ekki verið með í því láta mig vita. Alveg nauðsynlegt því allir krakkarnir okkar 37 hafa gefið sig fram og langar að komast í skóla en hafa ekki tök á því nema með okkar hjálp.

Sjáumst á þriðjudag kl. 17,30.

MIKILVÆGUR KYNNINGARFUNDUR EFTIR VIKU - fjögur Jemenbörn til viðbótar hafa fengið stuðningsmenn

Stuðningsmenn fjögurra jemenskra barna hafa bæst við en enn vantar handa tólf og ekki skal ég trúa því að okkur takist það ekki. Setti nöfn nýju styrktarmannanna í pistilinn sem er á eftir þessum.
Ég mun senda peninga úr FATIMUSJÓÐNUM fyrir krakkana núna um 20.ágúst.

Sé að stuðningsforeldrar hópsins frá í fyrra hafa verið ötulir að borga og þakka fyrir það. Allmargir eiga þó eftir. Gerið skil fyrir 20.ág. Elskuríkast.
Munið reikningsnúmerið 1151 15 551130, sem svarar 200 dollurum. Þið látið bankann reikna út upphæðina.
Það skal minnt á að þeir sem styrkja stúlkur í fullorðinsfræðslunni eiga EKKI að borga fyrr en um áramót. Leitið upplýsinga hjá mér ef þið eruð í vafa.

Eftir viku, þ.e þriðjudaginn 22. ágúst verður haldinn kynningarfundur VIMA í Friðarhúsinu, kl. 17,30. Þar liggja frammi sæmilega/full mótaðar áætlanir ársins 2007 og sömuleiðis hugmyndir að foreldraferð til Jemens 2008 og Líbýuferð það ár. Það er ekki víst að ég geti haft fleiri ferðir það ár en breytir því ekki að það sakar ekki að kanna málið.

Það eru ýmsar hugmyndir sem ég er með í kollinum hvort sem það verður nú það ár eða ekki. Allt er líka undir ykkur komið.
Ég hvet VIMA félaga til að mæta á þennan fund og taka með sér skemmtilega vini og ættingja og láta þetta berast. Friðarhúsið er á horni Njálsgötu og Snorrabrautar og við fáum það ókeypis.
Þar verður líka sýnd mynd Ólafs S. Guðmundssonar Ferðin til Jemen- og nokkrir verða til sölu- og ýmsir diskar sýndir á tölvum til kynningar frá fleiri löndum, m.a Íran, Sýrlandi og Jórdaníu.
Við fáum okkur kaffi eða te og krydderí og skröfum og skemmtum okkur svona í góðan klukkutíma. Vonast til að sem ALLRA FLESTIR láti sjá sig hvort sem þeir hyggja á ferð eður ei.

Einnig vonast ég til að þar verði hægt að kynna haustfund VIMA sem verður haldinn í lok september og sýnist mér að við fáum þar góðan gest til að tala.

Fréttabréfið fyrsta er væntanlegt innan skamms og verður dreift til félaga eftir tíu daga eða svo. Þar mun Vilborg Sigurðardóttir skrifa um Íranferðina, Birna Karlsdóttir um Ómanreisuna. Sagt frá verkefni okkar í Jemen og ýmislegt fleira.

GJÖRIÐ SVO VEL AÐ LÁTA ÞETTA HLAUPA.

Minni svo Íranfara á miðaafhendingu. Þeir hafa þegar fengið tilkynningu og vinsamlegast látið þá vita sem hafa ekki netfang.

Hér eru tuttugu ný Jemenbörn - sextán vantar styrktarmann

Góðan daginn.
Auðvitað ætti ég að sitja úti í sólinni í nýhreinsaða garðinum mínum. Hann er sum sé ekki lengur í óhirðu, hér birtust á dögunum Garpur og Jökull Elísabetarsynir, Kristín kona Jökuls og Þorsteinn Máni Hrafnsson og héldu til í garðinum í fjögur kvöld við hreinsun og klippingar og snyrtingu. Mikið er nú gott að eiga svona ungt og ljúft fólk að.

En ég fékk sem sagt áðan nýjan og umbeðinn lista frá Nouriu Nagi í Sanaa með nöfnum barna sem ég tel aðkallandi að við styrkjum og vonast eftir undirtektum frá ykkur.

Mér finnst ástæða til að geta þess að skólaskylda er í Jemen en vegna fátæktar geta foreldrar ekki sent börn sín í skóla, einnig af því að almennt eru fjölskyldur stórar og kannski fær bara eitt af fimm eða sex eða tíu að fara í skóla.

Með þeim stuðningi sem við veitum breytum við lífi þessara barna svo um munar - og það fyrir 200 dollara á ári - á ári. Það eru um 1250 kr. á mánuði(miðað við að dollari sé 75 kr og raunar er hann aðeins lægri núna.

Það er til að mynda tilvalið að litlir kvenna eða karlahópar taki að sér barn/börn og hvet einkum og sér í lagi Zontafélög, Soroptimista, Rotary og Kiwanis og Lions til að íhuga málið. Mig langar til að biðja ykkur - hvert og eitt- að senda þetta áfram. MÉR FINNST ÁRÍÐANDI AÐ VIÐ STYÐJUM ÞESSI BÖRN. Þau eru öll frá mjög fátækum fjölskyldum sem búa við hörmulegar aðstæður.

Nú þegar styrkjum við 37 stúlkur í grunnskóla og 18 í fullorðinsfræðslu. Ef við bætum þessum við höfum við aukið lífsgæði tuttugu í viðbót. Kannski er það dropi en það er stórkostlegur árangur. Ég bið ykkur að hafa samband og ég læt ykkur fá nöfnin og síðan fá allir síðar í haust nánari upplýsingar og myndir af sínum börnum.

1. Jamal Hammeed Al Summary, 6 ára drengur - stuðningsmaður Helga Kristjánsdóttir
2. Rabbi Abdullah Alsarabee, 9 ára drengur- Högni Eyjólfsson
3. Wadee Abdullah Alsarabee 13 ára drengur- Guðmundur Pétursson
4. Mohammed Jameel Shraf al Salwee 9 ára, drengur- stuðningsmaður Guðmundur Pétursson
5. Bushra Sharaf AlKadasee 14 ára - stuðningsmaður Catherine Eyjólfsson
6. Fatten Sharaf Al Kadasee 7 ára- stuðningsmaður Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir
7. Gada Farooq Al Shargabi 14 ára- Guðríður Helga Ólafsdóttir
8. Sabreen Farooq Al Shargabi 13 ára- Guðrún S. Guðjónsdóttir
9. Fatema Abdullah Al Kabass 12 ára - Ragnheiður Jónsdóttir
10. Sabreen Ali Al Dubari 8 ára - Jóhanna Kristjónsdóttir
11. Safwa Sadek al Namoas 15 ára- Svala Jónsdóttir
12. Fatema Samer al Radee 11 ára-
13.Reem Farooq al Shargabi 9 ára - stuðningsmenn Valdís B. Guðmundsd/Halldóra Pétursd
14. Amal Abdu Al Kadasi 15 ára - stuðningsmaður Vaka Haraldsdóttir
15. Maryam Saleh Al Jumhree 18 ára- stuðningsmaður Valborg Sigurðardóttir
16. Ethaar Naked Al Douis, 10 ára- stuðningsmenn Eva Pétursdóttir/Axel Axelsson
17. Ather Naked Al Douis 8 ára- stuðningsmenn Eva Pétursdóttir/Axel Axelsson
18. Summaia Galeb al Jumhree 11 ára
19. Aysha Abd Al Kareem 9 ára- stuðningmenn Sólveig Óladóttir/Kristinn Kárason
20. Aida Yeheia Al Ansee 14 ára- stuðningmaður Birna Sveinsdóttir

Þess ber að geta að aldurinn segir ekki alltaf til um hvar krakkarnir eru staddir í skólakerfinu því mörg hafa ekki byrjað í skóla fyrr en 9-11 ára vegna aðstæðna á heimili.

Nú bíð ég vonglöð og bjartsýn eftir undirtektum og þakka þeim einnig mjög vel sem þegar styrkja krakka. Nouria sagði mér í bréfinu að flest börnin okkar sem við höfum styrkt hafi gefið sig fram og vilja halda áfram og hefur þegar verið hægt að segja nokkrum/flestum - öllum vonandi - að við munum halda áfram að styrkja þau.
Nú bíða líka þessi börn eftir undirtektum okkar. Þó er trúlegt að einhver detti út en ég vona þá að menn taki önnur börn í staðinn. Læt ykkur vita nánar um það fljótlega.

Áætlun um Kákasuslöndin endurbætt- ávarp Guðrúnar Margrétar senn sett inn

Kærurnar mínar
Þá fer að líða að því að ég kveð Íranfara til fundar vegna septemberferðar. Fundur í næstu viku, nánar um það til þeirra beint. Þar verða afhentir miðar, áætlun, ferðagögn önnur, leiðbeiningar um klæðaburð og fleira.

Íranferð í mars hækkar ekki
Vegna fyrirspurna um Íranferðina í mars heyrist mér á ferðaskrifstofufrúnni okkar að verð muni haldast að mestu óbreytt. Hvet menn til að gefa sig fram í hana.

Áætlun Kákasuslandanna komin inn í sæmilega réttri mynd
Var að setja inn á linkinn ferðaáætlunina til Kákasuslandanna. Gjörið svo vel og kíkið vandlega á hana. Hef fengið staðfestingar frá nokkrum. Þar sem ég ætla ekki að hafa hópinn stærri en 24 af því þetta er fyrsta ferð er mjög aðkallandi að menn láti vita hið skjótasta.
Verð er komið inn þar en með fyrirvara. Eins og ég hef áður tekið fram ætla ég að fara til þessara landa í október n.k. og rúlla yfir áætlunina og hún gæti breyst lítillega en væntanlega og sömuleiðis orðið ítarlegri en þetta er svona í megindráttum og gefur sæmilega hugmynd.
Get ekki nógsamlega beðið fólk að hafa samband sem hefur ekki gert það vegna þessarar spennandi ferðar

Grein Guðrúnar Margrétar
Guðrún Margrét Guðmundsdóttir, mannfræðingur - sem kom á VIMA fund hjá okkur sl. vetur og talaði við góðar undirtektir- hefur gefið góðfúslegt leyfi sitt til að við birtum ávarpið sem hún flutti við kertafleytingarathöfnina við Tjörnina á dögunum.
Minn elskulegi aðstoðartæknistjóri hefur verið beðinn að setja ávarpið inn á sérstakan link seinna í dag.
Ávarp Guðrúnar er mjög athyglisvert og ég hvet ykkur til að lesa það. Hún tengir fimlega saman atburðina sem gerðust 1945 við það sem fer fram um þessar mundir í nútímanum. Vona að það verði sumsé komið inn seinna í dag.

Jemenstúlkurnar okkar
Líður senn að því að við gerum upp fyrir stúlkurnar okkar í Jemen. Vinsamlegast borga inn á reikninginn 1151 15 551130 kt. 1402403979 15.-20. ágúst. BIÐ YKKUR AÐ ÚTVEGA AMK TÍU NÝJA STYRKTARMENN því þar með styrkjum við um 70 stúlkur. Munið að þetta eru ekki nema 200 dollarar en geta breytt og bætt líf þessara stúlkna meira en margir átta sig á.
Þakka virktavel þeim styrktarmönnum sem þegar hafa greitt.

ÓMANFERÐ BLÁSIN AF Í BILI - skoðanir á Íran og sitthvað

Sæl öll

Hef ákveðið að aflýsa ferðinni til Óman. Þátttaka var ekki nægileg. Hefði þurft að hækka verð upp úr öllu valdi.

Mér þykir það mjög leiðinlegt en ekkert við því að segja. Ætla að vera bjartsýn og vona að Óman komi kröftugt inn næst. Bendi þeim Ómanförum á sem hafa ekki farið til Íran að það er girnilegur kostur, og Azerbadjan/Armeníu og Georgíuferðin heldur sínu striki. Eins og aðrar ferðir 2007.

Það eru svo margir skráðir í Kákasusferðina að ég þarf endilega að fá staðfestingar ykkar um hæl, þ.e. þeirra sem eru að pæla í ferðinni í fullri alvöru. Hún verður í byrjun maí eins og fram hefur komið. Ýmsar breytingar á áætlun sem nú er inni verða kynntar fljótlega. Þær eru greinilega allar til bóta ef mér skjöplast ekki.

Bið Jemen/Jórdaníufara um páska sem hafa ekki staðfest þátttöku að gera það umsvifalaust. Veit um flesta en einn eða tveir hafa ekki látið í sér heyra. Þar er hægt að bæta við.
Vegna breytinga á flugi Royal Jordanian kunna dagsetningar að færast til um einn eða tvo daga. Læt vita af því senn.

Námskeiðin hjá Mími símennt
verða í haust, þ.e. Menningarheimur Araba, arabíska I og II og svo nýtt námskeið sem er tveggja kvölda og fjallar um Líbanon/Palestínu og Ísrael. Það verður nokkrum dögum eftir að ég kem heim frá Íran. Get því miður ekki haldið það fyrr vegna lasleikans míns sl. vikur.
Farið verður all ítarlega í og yfir sögu þessara þjóða, tilurð landanna og atburðarásina undanfarnar vikur og leitast við að varpa ljósi á hvers vegna svo erfiðlega gengur að halda friði á svæðinu þar sem átökin hafa verið í fjórar vikur.

Einnig reynt að skýra hvers vegna Bandaríkjamenn styðja Ísraela skilyrðislaust og hvers vegna Ísraelar sýna kristnum Líbönum meira umburðarlyndi en múslimskum Líbönum.
Innritanir í þessi námskeið eru öll hjá Mími símennt og ganga ekki í gegnum mig.

Ég vona að aðsókn verði góð. Námskeiðið um menningarheim Araba er nú haldið í sjötta sinn og hefur mælst vel fyrir og arabískan vekur áhuga margra. Þó ekki væri nema til að átta sig á stafrófi og byggingu málsins, nokkrum hagnýtum frösum og ýmsu smálegu.

Reikna með að Líbanon/Palestínu og Ísraelsnámskeiðið þyki mönnum forvitnilegt.


Og ekki má gleyma Sýrlandi
Þá er Sýrlandsferðin í september 2007 og ættu menn að láta vita um áhuga. Hef trú á því að við getum, þrátt fyrir allt, skroppið yfir til Líbanon í þeirri ferð. Við sjáum til með það, en ég tefli ekki í neina tvísýnu.

Hvað sögðu menn um Íran?
Svör vegna þess ferðalags verða birt á morgun. Þar voru ekki allir tilbúnir að gefa einkunnir - og eiginlega fannst mér það að sumu leyti harla gott- en skrifuðu ýmislegt sem gagnlegt er. Ef samt á að meta á ánægju manna ferðina sýnist mér útkoman vera sem næst 9,5.
Heyrumst á morgun. En gjörið svo vel og láta vita um áhuga ykkar í sambandi við ferðirnar. Minni á það enn og aftur.

Vil láta ykkur vita - frekari upplýsingar í kvöld eða á morgun

Þá drýpur af upsum regn, að vísu íslenskt.

En vildi láta vita að mér skilst að ég eigi von á nokkrum Íransspurningalistum í dag og get þá væntanlega sett inn umsagnir manna um ferðina.
Kom mér þó nokkuð á óvart að nefnt var í einum spurningalista að skriflegar upplýsingar hefðu átt að fylgja um klæðaburð kvenna í Íran. Veit ekki betur en ég hafi látið ykkur fá ítarlegar upplýsingar á vegabréfsútfyllingarfundi fyrir utan að koma með nokkur klæði svo og á miðaafhendingarfundi þar að lútandi, en mun að sjálfsögðu taka tillit til þessa og afhenda septemberferðalöngum til Írans upplýsingar um það.

Fundurinn um ferðalög ársins 2007 verður innan langs tíðar, er aðeins að pæla í dagsetningum og hvenær fólk er komið úr sumarleyfum því nú hefjast skólar senn og menn undirbúa sig og sína fyrir það.
Á þeim fundi vonast ég til að geta sýnt mynd Ólafs S. Ferðin til Jemen og Högni Eyjólfsson sem gerði íðilsnjalla mynd um Sýrlands/Jórdaníuferð sl. páska ætlar að gera disk handa mér þar sem ég hef ekki haft spurnir af hvar og hjá hverjum hann er niðurkominn.
Nokkrir Jemendiskar verða til sölu á fundinum og hvet þá sem þegar hafa pantað að gera þá upp. Reikningurinn er 1151 15 551130 og kt. 1402403979. Diskurinn kostar 2.500 kr. Allmargir hafa þegar borgað hann og það er til fyrirmyndar. Ólafur hefur sent mér prufudisk og mér líst afar vel á hann og má reikna með að þeir verði allir tilbúnir seinni hluta vikunnar.

Um svipað leyti og fundurinn verður í ágúst hef ég svo upplýsingar um stelpurnar okkar í Jemen og hvenær á að borga fyrir þær. Sama upphæð 200 dollarar fyrir árið. Nokkrir hafa þegar gert það og bestu þakkir. Þá hef ég mikinn áhuga á að við bætum við um tíu stúlkum og bið menn að gefa sig fram sem vilja taka þátt í því góða máli.

Að öllu forfallalausu verður Armeníu, Georgíu og Azerbadjanferð í maí og bið menn að hafa það í huga.

Varðandi Óman í febr. hefur lítið gerst þar og eins og ég hef áður tekið fram get ég ekki öllu lengur látið ferðaskrifstofuna dingla í lausu lofti um hvort af þeirri ferð verður.
Gæti verið að við hugsuðum um Egyptalandsferð síðla febrúar. Nokkur áhugi er á henni og ég þarf endilega að fá að vita um það HIÐ ALLRA FYRSTA.

Bið ykkur að koma því til áhugsamra kunningja dagsetningu fundarins og get trúlega látið það berast fljótlega.

Hvað sögðu menn um Óman í febrúar sl. og fleira

Ja góðan daginn og enn sól og hlýja.

Var að koma úr bankanum að greiða síðustu greiðsluna til írönsku ferðaskrifstofunnar svo allt sé nú í blómasóma.

Fékk í gær sendan Írandisk frá Sigríði Guðm. með fábærum myndum og hef þá fengið eina þrjá Írandiska og vona að tæknistjórinn okkar, Elísabet Ronaldsdóttir, sem hefur setið við á Hofsósi að klippa mynd Baltasars um Erlend löggu, komi senn í bæinn og geti sett þá inn, mönnum til gleði, upprifjunar og fróðleiks.

Greinilegt var að menn tóku við sér eftir síðasta bréf og hrundu inn það mörg svör við spurningalistum að ég get nú birt hér skoðanir á Ómanferðinni okkar, þeirri fyrstu sl. febrúar.

Hvað sögðu menn um Ómanferðina?
Auðvitað er einkunnagjöf vegna ferðar af þessum toga alltaf umdeilanleg því hún er huglæg og byggist töluvert mikið á okkur sjálfum, hvernig okkur líður og svo framvegis. En allt um það:

Ferðin fékk í heild 9,4. Nokkrir gáfu 8, aðrir 10 og einhverjir 9-9,5.

Hótelin fengu ágætan vitnisburð.
Al Falaj í Múskat þó sísta, liðlega 7. Önnur hótel voru með 8-10.
Samdóma álit var að matur hefði verið mjög góður og engar athugasemdir þar.

Flugferðin með Royal Jordanian til Múskat fékk einnig afar góða útkomu.

Spurðir um af hverju þeir hefðu farið þessa ferð var algengasta svarið:
Almenn forvitni um þennan heimshluta eða
Hafði farið í aðrar ferðir og langaði að kynnast Óman

Hver einasti sagðist hafa verið mjög öruggur í ferðinni.

Músandamsiglingin og svamlið í fjörðum virðist standa upp úr hjá flestum. Einnig var nefnd oft ferðin yfir fjöllin frá Niszwa og ferðin inn á sandana og veran í eyðimerkurbúðunum.
Heimsókn í Miklumosku í Múskat.
Og talandi um huglægt mat nefndi einn heimsóknina að grafhýsi Jobs og annar tók fram að ferð að grafhýsi Jobs hefði mátt missa sig ! Það verður aldrei hægt að gera öllum til hæfis enda engin ástæða til að allir hrópi húrra yfir öllu.

Ómönsku leiðsögumenn og bílstjórar fengu mjög misjafna umsögn og kvartað nokkuð undan því að ekki hefðu allir verið enskumælandi. Sú athugasemd á vissulega rétt á sér.
En þá rifjast upp fyrir mér að ýmsir í ferðinni höfðu sótt Jemen heim, þar sem sams konar ferðamáti er og enginn bílsjóra þar talar meiri ensku en nokkur orð. Við það hefur aldrei verið gerð athugasemd og má draga af því augljósa ályktun: jemensku bílstjórarnir eru leiknari í fingramáli og ná frekar til fólksins okkar. Kem þessu til skila.

Öllum fannst verðið sanngjarnt. Og vel að merkja: Einn félagi - að vísu ekki í þessari ferð- sagði að það væri engin ástæða til að þessar ferðir væru á "útsöluprís" og líkti þeim við að kaupa tómata í Bónus eða hjá ræktendum í Reykholtsdal. Sniðug samlíking og ég held að við megum öll íhuga þetta atriði.

Upplýsingar JK og skipulagning fékk ágæta umsögn, takk fyrir það.
Smákvörtun undan því að ekki hefði alltaf verið þýtt á íslensku. En þá ber að hafa í huga að við héldum tvo fundi fyrir þessa ferð, auk miðaafhendingarfundar, og svo er bara hægt að spyrja mig ef menn eru ekki með allt á hreinu. Eða biðja sem sagt um nánari útlistun. Hafa það bak við eyrað.

Og við spurningunni Hvað heldur þú að verði þér eftirminnilegast eru hér fáeinar glefsur:
Velmegunin, fegurðin og eitthvað alveg sérstakt við andrúmsloftið, einhvers konar friðsæld. Og fjölbreytnin í landslaginu er ótrúleg.

Mér hefur aldrei liðið eins vel á ferðalagi eða verið eins afslöppuð. Þetta var allt svo silkimjúkt.

Tjaldbúðirnar og sandurinn. Fjöllin.

Fallegu karlarnir sem alltaf voru tandurhreinir þótt farið væri um söndugt landslag. Hvað er auðvelt að ferðast og allir vinsamlegir

Góð ferð og maturinn frábær

Fegurðin í öllum myndum.


Endum á fegurðinni. Takk fyrir hjálpina. Og Íranfararnir tóku aðeins við sér líka í gær og gera vonandi enn betur í dag.

Nú væri ráð að fara út í blíðuna.

Lokatilraun til að krækja í spurningalista - Óman líklega felld út

Þá skín sólin og næst ekki í nokkurn mann. Veðrið er góður undirbúningur fyrir Íranfarana í september.

Sendi í morgun á ný spurningalista til Óman og Íranfara. Þetta er þriðja tilraunin og bið ykkur eindregið að svara.
Ómanfarar hafa brugðið nokkuð vel við en Íranfarar vereið rólegri í tíðinni. Þó sé ég á tölvunni minni að langflestir hafa séð bréfið.
Get birt niðurstöður um Ómanferðina fljótlega ef nokkrir til viðbótar senda svör. Jemen og Jórdaníufarar 2005 og 2006 mættu líka taka við sér en hafa þó verið nokkuð snöggir þó ýmsa vanti.

Reikna með að fella niður Ómanferðina í febrúar þó mér sé það ekki ljúft. Eiginlega finnst mér það ansi hart. En í hana hafa ekki nægilega margir skráð sig og hótelpláss í Óman sem eru ekki mörg eru að ganga til þurrðar og ég get ekki haldið ferðaskrifstofunni þar í lausu lofti öllu lengur en viku.
Ef ekki hefur bæst við hressilega þá verður að aflýsa henni en vonast til að betri þátttaka verði í næstu tilraun. Læt ykkur vita um það.

Hálfskrítið þó að þetta einstaklega friðsæla og fallega land skuli ekki ná fleiri VIMA félögum til sín. Ekki síst þegar það er haft í huga að mikil og almenn ánægja var með fyrstu ferðina. En allt þarf sinn tíma.

Við getum ekki auglýst á hefðbundinn hátt og eina leiðin er að VIMA félagar láti póst og kynningu á ferðunum ganga, ekki síst með því að afla fleiri félaga og senda síðuna áfram.
Við sjáum þá bara til seinna. Veit ekki svo glöggt hvenær það verður því árið 2008 er ekki meiningin að hafa nema mjög fáar ferðir af ýmsum ástæðum og hefur verið frá því greint.

Á næstu dögum klárar Ólafur S. myndina Ferðin til Jemen. Allnokkrir hafa greitt diskana en fleiri mættu panta og gjörið svo vel og drífið í því. Diskurinn kostar 2.500 kr. og ætlar Ólafur að láta það renna í Fatímusjóð af drenglyndi sínu. Reikningsnúmer fyrir diskinn er 1151 15 551130 og kt. 1402403979.

Sæl að sinni.