INSJALLAH fyrir VIMA félaga

Hef fengið allnokkrar fyrirspurnir um hvort bókin mín Insjallah- á slóðum araba- sé fáanleg, en hún kom út fyrir þremur árum. Þar segir frá fyrstu tveimur vetrunum sem ég var við arabískunám, fyrst í Egyptalandi og svo í Sýrlandi.

Ég hef nú samið við Mál og menningu um að fá nokkrar Insjallah bækur á góðu verði og því bið ég þá VIMA félaga sem hafa áhuga á að eignast bókina að hafa samband hið snarasta.

Arabíukonur eru á sölulistanum og standa sig með ágætum. Í lista Morgunblaðsins sem tekur yfir nánast allar bókabúðir á landinu er hún aftur komin í 2.sæti og situr sem fastast í fyrsta sæti í sínum flokki.
Önnur prentun er nú hafin því sú fyrsta er þrotin. Veit þó ekki annað en flestar bókabúðir hafi enn eintök og ef ekki þá líða varla nema 2-3 dagar uns hún verður alls staðar fáanleg.

UM NÆSTA FUND_ OG SVO FÉLAGSGJÖLDIN

Stjórn VIMA hittist í dag til að skrafa um næsta almenna félagafund sem verður að öllum líkindum haldinn seinni hluta janúar og verður nákvæmlega frá honum sagt þegar nær dregur.

Guðlaug gjaldkeri hefur sett félagaskrána upp á einkar skipulegan hátt en okkur brá nokkuð í brún þegar við kíktum á þetta félagatal og sáum hversu margir hafa enn látið ógert að borga félagsgjöld.
Ég ætla því að leyfa mér að hvetja ykkur eindregið til þess. Allmargir hafa ekki netfang og þeim verður send rukkun á næstunni en um tveir þriðju félaga eru með netfang og hefur verið ýtt á þá með pósti.
Elskurnar mínir drífið í að borga félagsgjaldið. Þetta eru ekki nema 2.000 kr. En skiptir máli fyrir VIMA og starfsemi þess.

ARABÍUKONUR PLUMA SIG VEL

Arabíukonum miðar svo til sóma er. Í síðustu söluviku héldu þær 1.sæti í sínum flokki og eru í 4. sæti yfir allar bækur. Það verður að teljast hið fegursta mál. Til stendur, skilst mér, að prenta næstu prentun nú í vikunni.
Það hafa sömuleiðis komið um hana jákvæðar umsagnir, svo sem í Mbl á föstudag, hjá RUV á fimmtudag og í síðustu viku í DV.

Þetta er því einkar ánægjulegt og flest kvöld er ég í upplestrum úr bókinni og nú á næstunni eru stundum tveir upplestrar á dag og einn daginn eru pantaðir þrír - sá fyrsti klukkan 8 um morguninn.
Ágætu félagar, höldum áfram herferðinni svo hún haldi sínu. Ákaflega vinsamleg og jákvæð bréf hafa borist frá mörgum og kærar þakkir fyrir það allt saman og ég met það mikils.

Líbanons og Sýrlandsfarar vorsins hittust á dögunum

Líbanons og Sýrlandsfarar vorsins 2005 hittust eins og til stóð sl. laugardag. Fórum yfir ferðaáætlunina og spjölluðum og spurningar voru margar og góðar. Ágætis stemning og sýrlensku smákökurnar runnu ljúflega niður með kaffinu. Svo var til sýnis fallegur varningur frá þessum löndum, svo sem hinir frægu damaskdúkar og innlagðir munir sem Sýrlendingar eru frægir fyrir.
Þetta virtist prýðisgóður og sprækur hópur. Þess skal getið að enn get ég bætt við og nokkrir hafa ekki ákveðið sig. Líður að því að menn þurfa að gera það - stresslaust þó. Auk þess geta nokkir í viðbót komist í ferðina og ættu að láta í sér heyra.

Jemen/Jórdanía í maí - fundur eftir áramót

Nú fer smábökubaksturtíminn í hönd og allir búa sig undir jólastress. Þess vegna hef ég ákveðið að hafa ekki fund með Jemen/Jórdaníuförum fyrr en eftir áramót. Mun láta fólk vita um það með góðum fyrirvara.
Ferðin er 8.-25.maí og þátttaka í þann veginn að smella. Þar sem nokkrir eru ekki alveg ákveðnir get ég þó bætt 2-3 við á listann. Nauðsynlegt að heyra frá ykkur hið allra fyrsta.
Bendi allra alúðlegast á að þar sem Íransferðin færist til gætu sumir sem ætluðu til Írans um haustið notað tækifærið og skellt sér í vor til Jemen og Jórdaníu.
Athuga samt að ég get ekki tekið nema takmarkaðan fjölda í Jemenferðina og þess vegna þarf ég að fá ákveðin svör. Sæl öll að sinni.

ÍRANSFERÐ LÍKLEGA FRESTAÐ TIL VORS 2006

Eftir öllum sólarmerkjum að dæma verður að fresta Íransferð til vors 2006. Til stóð að ég færi í viku til Írans en hef nú blásið það af og fer væntanlega í febrúar og skoða mig þá meira um en planað var í þessari skotferð núna.

Við mig hafði samband félagskona sem fer í Jemen/Jórdaníu ferðina í maí n.k. og hún var nýkomin frá Íran og gaf mér góðar upplýsingar. Mér fannst á henni að flugið yrði ekki jafn dýrt og ég hélt.

Ef við stoppum í Sýrlandi á heimleið gæti það hækkað flugmiða töluvert. Þessi ágæta kona stoppaði í 12 daga og að hennar dómi væri uppundir það nauðsynlegt að vera lengur og allt upp í 20 daga því margt væri að sjá. Hún lét ákaflega vel af viðmóti fólks og sagði það einstaklega vingjarnlegt og þægilegt.
Svo við stefnum sem sagt á vor 2006- ef guð lofar.

Fundur um Sýrlands/Líbanonsferð á laugardag

Bendi ykkur á allra alúðlegast að fundur um næstu Sýrlands og Líbanonsferð verður nú á laugardaginn 13.nóv. í gamla Stýrimannaskólanum við Öldugötu. Kl 14 eh. Ferðin er fyrirhuguð dagana 8.-23 apríl næsta vor.
Þar förum við yfir áætlun, skoðum fallega muni og myndir frá þessum stöðum. Gæðum okkur á sýrlenskum smákökum og sötrum te eða kaffi og spjöllum. Verið svo væn að láta þetta ganga til þeirra sem hafa áhuga eða þeirra sem hafa ekki imeil og eru áhugasamir um fundinn.
Sjáumst á laugardaginn.

Arabíukonur komnar hærra á listann

Arabíukonur tóku mikið stökk í síðustu viku. Bókin er nú í 1.sæti í sínum bókaflokki og númer tvö yfir allar bækur. Þetta er afskaplega spennandi en við leggjum okkur öll fram og höfum uppi hinn mesta áróður - vona ég.

Þakka allar elskulegar kveðjur og hvet menn til dáða. Nú streyma fleiri bækur á markaðinn og ekki megum við láta um okkur spyrjast að hún dali á listanum - alla vega vona ég það besta.

KEMST FATÍMA Í ÞÚLA Í NÁM MEÐ ÍSLENSKRI HJ'ALP?

Mér finnst gaman að segja frá því að sem fólk er nú að lesa Arabíukonur sendir mér góðar og jákvæðar umsagnir. Athygli margra hefur beinst að kaflanum um litlu kaupkonuna Fatímu 14 ára í Þúla í Jemen sem dreymir um að komast í framhaldsskóla. Kvennahópur einn hefur haft samband við mig og beðið mig að reyna að reikna út hvað þyrfti að leggja fram mánaðarlega svo draumur Fatímu yrði að veruleika.
Þetta kætti mig mjög og ég hef haft samband út til að leggja drög að þessu en þar sem ramadan, föstumánuðurinn er á síðustu viku og síðan tekur við hátíðin Id al fitr, býst ég ekki við að fá upplýsingar fyrr en að nokkrum tíma liðnum.

Fleiri hafa sömuleiðis stungið því að mér að þeir vildu leggja fram einhverja smáupphæð til handa Fatímu svo greinilegt er að menn lesa bókina af áhuga og forvitni.

Vildi bara segja ykkur frá þessu. Ef einhverjir bætast í hópinn með hugmyndir er þeim tekið fagnandi. En málið lítur að minnsta kosti vel út. Gleðilegt er það.

Arabíukonur komnar á sölulista---húrra! Herðum róðurinn

Sá í morgun að ARAB'IUKONUR er komin á lista yfir sölubækur, er í 3.sæti í sínum flokki og í 6. sæti yfir allar bækur. Mikið varð ég kát. Það skiptir mig prívat og persónulega svo afskaplega miklu máli að bókin komi við sem víðast og fólk kynni sér þennan heim og reyni jafnvel að skynja að hann er heillandi og gjöfull.
Ég er viss um að hluti velgengni bókarinnar er vegna þess hvað VIMA félagar hafa verið ötulir og jákvæðir. En hvernig væri að keppa að næsta sæti fyrir ofan eftir viku? Það væri nú meiriháttar fjör!

Kápusíðan og smáupplýsingar um Arabíukonur á linknum Arabíukonur

Elísabet Ronaldsdóttir, tæknistjóri johannatravel, setti kápusíðuna af Arabíukonum inn í gærkvöldi. Þar skrifaði ég líka smáupplýsingar um bókina og vona þið kíkið á þetta til fróðleiks.
Það er augljóslega mikill áhugi á efninu: Bókin hefur runnið út eins og heitar lummur og gerir það vonandi áfram.

Áskrifendur hafa nú gert upp bókina, nema einn, og flestir fengið hana í hendur. Mál og menning hefur svo bókina á tilboði alla vega í nóvember svo hún er á góðu verði fyrir alla kaupendur.

Lestrar úr bókinni hafa verið pantaðir vítt og breitt í ýmsum félögum og það er afar skemmtilegt að lesa upp og svara síðan spurningum sem alltaf eru margar. Var t.d. í gær hjá ljómandi sætum körlum í Rótary Kópavogs og þeir voru einkar fróðleiksfúsir. Í kvöld fer ég svo og les upp hjá Kvenfélagi Hringsins.
Þó margir lestrar séu pantaðir er eitt og eitt kvöld/hádegi laust svo það er um að gera að hafa samband og ég kem þeysandi svo fremi ég get.

Farið endilega inn á tengilinn Arabíukonur. Látið kannski líka heyra frá ykkur ef og þegar þið hafið lesið bókina. Það er gott að heyra álit fólks og hvernig bókin virkar á fólk.

Arabíukonur renna út - áskrifendur athugið

Það er skemmtilegt að Arabíukonur renna út. Bókabúðirnar hafa vart undan að fá sér nýjar birgðir. Gaman að þessu og kæti mín óskipt. Vonandi að þessi góði gangur haldist. Fróðlegt væri að heyra frá ykkur eftir að hafa lesið bókina, bæði þeir sem hafa farið í ferðalögin og svo hinn almenni lesandi sem þekkir lítið til þessa heims sem segir frá.

Þá vil ég benda á að allir áskrifendur utan þrír hafa nú gert upp sínar bækur og vona ég að þeir vindi sér í það því það er nokkur biðlisti. Ef ekki berst greiðsla fljótlega verð ég að sinna áhugasömu biðlistafólki eins og ljóst má vera.

Tæknistjórinn minn Elísabet Ronaldsdóttir ætlar að setja kápusíðuna inn á síðuna annað kvöld. Þetta er fín kápa og skemmtilega gerð og verður vonandi til prýði.
Látið svo ganga áfram upplýsingar um síðuna. Alúðlegast.