Burt úr slagviðrinu - Sýrlands-Íran og Jórdaníufundir, takið frá 19.febr.

Íslenskt slagveður í dag - snjór á morgun - aldrei að vita. Óneitanlega verður viðkunnarlegt að komast í blíðviðrið í Óman og eru ferðalangar langt komnir að pakka og setja sálina í stellingar. Við hittumst í Leifsstöð kl. 6 í fyrramálið og þá tjekkum við inn alla leiðina til Múskat. Muna það.
Hafa slaufur á töskum og merki í barmi og við munum vitaskuld bera af öðrum.

Bið Sýrlands- Jemen og Íranfara vinsamlegast að taka frá klst sunnudaginn 19.febrúar fyrir smáfund. Það er nauðsynlegt fyrir Sýrlandsfara að hittast vegna þess hve margir hafa bæst í þann hóp.
Vænti þess að farmiðar Íransfara verði þá tilbúnir og þeir fái á fundinum sín ferðagögn og miða. Jemenfólk ætti sömuleiðis að reikna með fundi þann dag. Læt ykkur vita um það nánar hvenær hvaða hópur á að mæta.

Flestir Íransfarar hafa nálgast vegabréf sín hjá mér. Edda Ragnarsdóttir, varaform. VIMA verður vörslumaður Drafnarstígs á meðan ég er í burtu og menn skyldu hafa samband við hana eða við ritarann Ragnheiði Gyðu Jónsdóttur ef eitthvað liggur á hjartanu. Annars verð ég í sambandi og þið skrifið mér bara ef þið viljið spyrja einhvers.

Gjöra svo vel og athuga hvort forfallatrygging er ekki pottþétt inni í ykkar heimilistryggingu fyrir þessa fundi.

Bið svo Íranfara að borga síðustu greiðslu 1.-5. febrúar og sama gildir náttúrlega um Sýrlandsfólkið og Jemenhópinn.

Þá kem ég til skila að hafa samband við skemmtinefndina Álfhildi Hallgrímsdóttur og Huldu Waddel og hvet ykkur til að skrá ykkur á gleðskap okkar 25.febrúar. Þar munu Íslandsmeistarar í magadansi sýna listir sínar og eitthvað fleira verður til skemmtunar óg gómsætur matur á boðstólum.

Ítreka að Ómanfarar skilji eftir bloggsíðuna johannatravel.blogspot.com hjá ættingjum og öðrum aðdáendum og vænti þess að menn verði ötulir að skoða hana.

Vegna flensuvesenis míns þarf ég að fara í arabískukennslu í eftirmiðdaginn en allt er þetta nú að koma þó röddina vanti að vísu enn þessa alkunnu silkimýkt sem menn þekkja.

Vegabréfin komin - skiljið eftir bloggsíðu, Ómanfarar

Vegabréfin fyrir Íransfara komu til mín í gær og bið fólk að sækja þau til mín eða láta vita ef það er ekki hægt svo ég geti þá fengið einhverja til að skutla þeim til manna því ég er í stússi og kennslu eiginlega fram á síðustu stundu.

Vil benda Ómanförum á að láta vini og kunningja hafa bloggsíðuna mína því ég mun náttúrlega reyna að gera grein fyrir því sem við aðhöfumst þar og hvernig gengur á ferðalaginu. Þá geta vinir og ættingjar skrifað kveðjur inn á ábendingarnar ef þeir vilja.

Svo vil ég absolútt taka fram að menn verða að átta sig á því að þeir bera ábyrgð á tryggingamálum sínum. Það hefur verið tekið fram margsinnis og skal ítrekað hér. Ég er ekki ferðaskrifstofa og get ekki séð um að endurgreiða ef eitthvað kemur upp á á síðustu stundu. Þetta verður að vera alveg á hreinu. Mun hafa samband við tryggingarfélögin þó og athuga hvar hagstæðast er fyrir fólk að láta tryggja sig og ef einhver hefur góða reynslu hvað þetta varðar væru allar ábendingar ákaflega vel þegnar.

Mér þykir mjög ánægjulegt að segja frá því að það er byrjað að skrá sig í ALLAR ferðir ársins 2007 - skuldbindingarlaust þó náttúrlega- og þar sem ég mun fara inn á póstinn minn reglulega skuluð þið ekki tvínóna við það. Því fyrr því betra.

Býst við að láta léttilega í mér heyra áður en við förum á mánudagsmorguninn.

Engifer að seljast upp ---vegabréf á heimleið --Og vinninginn fékk

Góðan daginn öll

Vona að menn hafi veitt því eftirtekt að Azerbadjan, Georgía og Armenía er komið inn á sérstakan link og verið dugleg að kíkja á þennan nýja og spennandi áfangastað í Kákasusfjöllum.
Sömuleiðis hef ég uppfært og lagað allar hinar ferðirnar - sjá linka - og sérstakur verið settur inn sem heitir Væntanlegar ferðir og eru þá bæði ferðir ársins og hugmyndir að 2007 þar með sóma og sann.
Látið vita um áhuga þó þið séuð ekki harðákveðin.

Þá eru þau góðu tíðindi fyrir Íranfara í mars að vegabréfin eru lögð af stað til Íslands með DHL og koma því í mínar hendur í síðasta lagi á föstudag og læt ykkur vita hvort þið sækið þau til mín eða ég kem þeim til ykkar áður en ég fer til Óman á mánudagsmorgun.

Mig langar sérstaklega að þakka Estrid Brekkan hjá sendiráði Íslands í Osló fyrir ómetanlega hjálp enda fór hún í eigin persónu í sendiráðið í gær og náði í vegabréfin. Svo það er allt í fínu lagi.

Ómanfarar hafa nú vonandi allir fengið sinn tossalista með leiðbeiningum vegna ferðar okkar.

Er öll að braggast af vondri kvefpest og fór að ráðum þeirra mæðgna Jónu Einarsd og Ingu Jónsd og sýð engiferrót í gríð og erg og drekk með sítrónu og hunangi. Þetta er hinn frábærasti drykkur og ég vona að engiferbirgðirnar endist í verslunum því þetta ætla ég að nýta mér óspart. Takk fyrir heilræðið.

Svo er það getraunin í fréttabréfinu.
Þátttaka var góð, 35 svör bárust, þar af um 30 hundrað prósent rétt. Stjórn VIMA ákvað að hafa vinninginn ferð til Jemen.
Rétt svör:
Sanaa í Jemen
Tadmor
Nabatear
Bilquis - Marib í Jemen
1979
Sabra og Sjatilla
Abu Simbel.

Vinningshafi var dreginn út í gærkvöldi:
Guðrún Halla Guðmundsdóttir

Takk fyrir góða þátttöku og óskum Guðrúnu Höllu til hamingju.

Í sex hundruð sumur - hugleiðing fyrir lengra komna- þ.e. okkur ÖLL

Mér blöskrar:
Ég les og heyri hér og hvar hvað fáfræði sé mikil um heim Araba og almennt um heim múslima. Það sé fátt gert til að fræða okkur.

Þá setur að mér hroll og mæðu, því síðan árið 1980 hef ég skrifað um lönd araba eftir því sem ég hef heimsótt fleiri lönd. Fyrst eftir að ég byrjaði að semja greinar um málefni Arabalanda í Morgunblaðið og birta mínar merku myndir varð ég fyrir dálitlu aðkasti.
Takið eftir að þetta er EKKI sagt í píslarvottatón. Svona var þetta bara. Við vorum vön því á þeim tíma að heimurinn væri svartur og hvítur og kannski var hann það í margra augum.

Ég fékk nokkrar hringingar og menn tóku sig til og skrifuðu mér bréf
sem báru vott um miður góðan hug til Araba og til mín að " taka upp hanskann fyrir þetta óþverralið". Ég var raunar ekki að því. Mér hugnast ekki þess háttar blaðamennska eða frásagnarmáti. Það vakti einfaldlega fyrir mér að segja frá. Athugið það: Segja frá.
Því mér fannst að mörgu að hyggja og ranghugmyndir okkar voru ansi djúpstæðar.

Svo heimsótti ég fleiri lönd Araba og önnur múslimalönd og smám saman varð ég vör við að menn voru býsna sólgnir í vitneskju frá heimshluta sem var okkur sem lokuð bók - að undanskildum fáum Íslendingum sem höfðu farið þarna um og nokkrir verið búsettir þar. Þeir höfðu líka svipaða sögu að segja og ég: fáfræðin og dómharkan gekk ansi mikið fram af þeim.

Þegar ég hætti á Morgunblaðinu fyrir tíu árum og fór til Egyptalands og síðar til Sýrlands og Jemen að læra arabísku og kynnast sjálfri mér upp á nýtt, opnuðust nýjar víddir. Og enn fleira spennandi mætti mér.

Ég hafði vissulega spekúlerað í hinni svokölluðu stöðu kvenna í Arabalöndum, sem er kannski það sem hvað digruðustu og fúlustu ranghugmyndirnar eru um. En fór að rannsaka hana á nokkuð markvissan hátt og niðurstöðurnar voru forvitnilegar fyrir margra hluta sakir.

Inn á milli var ég heima og margir klúbbar, skólar, starfshópar, fyrirtæki og guð veit hvað höfðu frá því fyrsta fengið mig til að halda spaka og skemmtilega fyrirlestra um ýmislegt í þessum löndum.

Ég gerði allt slíkt með mikilli ánægju og fannst til dæmis mjög athyglisvert hvað skólar voru fljótir að taka við sér eftir að fyrri Flóastyrjöldin braust út 1991 og þá voru ekki margir framhaldsskólar hér í borg og víðar um land sem ég fór ekki og ræddi við nemendur og útskýrði fyrir þeim ýmis mál sem tengjast lífi/hugsun/hefðum og siðum/sögu og ég man ekki hvað, í þessum hluta heimsins. Þetta var ofsalega skemmtilegt.

Og fjórum dögum eftir 11.september 2001 hafði Bifrastarskólinn samband og bað mig að koma og halda fyrirlestur og skömmu síðar var ég beðin að setja á laggir hjá Mími-símenntun námskeið um Arabískan menningarheim sem hefur síðan verið haldið við æ meiri aðsókn og undirtektir þegar ég hef verið heima.
Auk þess byrjaði skólinn að hafa námskeið mín í arabísku sem hefur einnig mælst vel fyrir osfrv og svo framvegis í það óendanlega. Og áfram fyrirlestrar upp eyru eða kannski öllu heldur upp fyrir augu. Eða lengra.

Fyrir nú utan að ferðirnar okkar hafa bæst við og heim höfum við komið, þessir hópar og ég og verið margs vísari og nýr hugsunarháttur leiddi til stofnunar Vináttu- og menningarfélags Miðausturlanda þar sem fundasókn upp á 50-60 manns telst varla tíðindi.

Hefur því ekki eitthvað áunnist?
Eða er þetta eins og með efnahagsmálin: málið verður aldrei fullafgreitt. Hvað sem ég skrifa af bókum sem "byggja brú milli menningarheima" eins og sagði í umsögn þegar ég fékk viðurkenningu Hagþenkis í febrúar s.l. fyrir Arabíukonur og fleiri störf því máli tengd.

Auðvitað hefur margt gerst og hver maður sem fer í ferð VIMA eða sækir námskeið, hvort sem er í arabísku eða Menningarheimi Araba eða kemur á fundi, getur vitnað um. Fólk kemur heim með nýjar hugmyndir. Það hefur ekki endilega öðlast hina einu og " réttu" sýn. En það sér fleiri litbrigði. Skynjar hvað þessi heimur hefur margt sameiginlegt með "okkar" heimi og áttar sig á stórmerkri arfleifð og fjölbreytilegum nútíma sem er ekki alls staðar sá einn og sami.

Samt þarf að gera meira því enn les ég í blöðum að það sé svo miklil fáfræði um Arabaheiminn, heyri endalausar vitleysur um staðhæfingar-
- ekki síst hjá fjölmiðlamönnum sem vita varla skil á einföldustu atriðum. Þetta þurfum við að gera, VIMA félagar. Þess vegna erum við í þessum félagsskap og
ber skylda til að leggja okkar skerf af mörkum.

Gleðigjafarnir láta í sér heyra

Þessa hnyttnu orðsendingu hefur skemmtinefnd sent til þeirra sem hafa skráð sig og er örugglega tilbúin að láta fleiri þátttakendur fá hana. Skráið ykkur vinsamlegast.

Ágæti viðtakandi.
Þú ert með mikilli ánægju skráður á þátttökulista árshátíðar VIMA, semhaldin verður með bravúr í Kornhlöðunni föstudaginn 24. febrúar.
Búið er aðganga frá veislumatseðli, sem hver og einn gerir síðan upp við sjálfanvertinn; kr. 3850.- Drykkir að eigin vali og á eigin kostnað að sjálfsögðu.
Skemmtiatriði "on the house".
Munið endilega að fara með spariklæðnaðinn í hreinsun.Meira síðar!
Kveðja frá skemmtinefnd,hinum síhressu og ærslafullu gleðigjöfum:Álfhildi, Huldu, Ingu og Þóru.

MUNIÐ AÐ LESA ORÐSENDINGUNA UM ÍRAN H'ER FYRIR NEÐAN. ÁR'IÐANDI

Einhver til í að hoppa inn í marsferð til Írans?

Það losnaði eitt pláss - og ef hjónafólk/par dúkkar upp mætti sennilega bjarga því - í Íransferðina í mars.
Skaust fram mjög skyndilega. Ef einhver vill notfæra sér þetta tækifæri er rétt að hafa samband hið hraðasta. Upplýsingar um ferðina eru á síðunni, og alltaf má snúa sér til mín. Hvet ykkur til að láta vini eða kunningja sem lítið vita um þessar ferðir fá fregnir af málunum.

Þar sem Ómanferðin er á næstu grösum er tími til að ákveða sig varla öllu lengri en til mánaðamótanna næstu - jan/febr.

Árshátíðarnefndin hefur haft samband við þá sem hafa skráð sig en kveðst taka við fleirum. Þá hafa rúllað inn getraunasvör í dag og nú fer hver að verða síðastur, frestur er til 23.janúar.

ERRIÐ ER KOMIÐ á sinn stað - ýmislegt um ferðirnar okkar

Það hefur hrjáð margan góðan stafsetningarmanninn að í netfangið mitt hefur vantað R í Drafnarstíg. Nú hefur þessu verið kippt í lag. Hvorki meira né minna og munu menn nú róast og gleðjast.

Ég tek ekki fleiri í Íranferðina í september en þá sem þegar hafa greitt staðfestingargjaldið - reglulegar greiðslur inn á þá ferð hefjast svo 1.maí n.k. en ég læt ykkur vita nánar um það.
En vinsamlegast hafa það bak við eyrað að taka fram á hvaða Íranbiðlista þið viljið vera.Í boði eru þrír kostir og allir góðir
September 2006- ekki mjög miklar líkur að komast með en aldrei að vita- um að gera að hafa spennu í lífinu.
Mars 2007 og september 2007.

Jemen/Jórdanía 2007 er um páska, hafið það í huga. Mér sýnist aðsókn líka vera mjög góð í hana og svo virðist sem nýi áfangastaðurinn Azerbadjan, Georgía og Armenía ætli að slá í gegn.

Það hefur sýnt sig að við þurfum drjúgan fyrirvara í ferðirnar okkar, hvort sem er Sýrland, Óman, Íran eða Jemen. Það er áberandi að menn skipuleggja sig með meiri fyrirhyggju en áður og það er hið ágætasta og gjöra svo vel og halda því áfram.

Las um það í fyrradag í írönskum netblöðum að Íranir hafa í hyggju að veita vegabréfsáritanir við komuna til landsins. Til allra nema Ísraela.
Það gæti þýtt að við þyrftum þá ekki að senda passana út til stimplunar fyrir septemberferðina en þetta skýrist.

Hvet menn til að hafa ekki áhyggjur þó skrif séu um Íran í blöðum og frásagnir í fjölmiðlum þessa dagana. Ég fylgist ágætlega með og mundi láta vita ef minnsta ástæða væri til að hafa varann á.

Fékk lista frá Álfhildi skemmtinefndarstýru í gær um þátttöku sem þegar er komin á árshátíðina. Það leit harla vel út og fleiri mættu þó endilega bætast við.

Ítreka að fundur með Jemen/Jórdaníuförum - af hverju vantar enn í þá ferð? það er alveg ómögulegt - verður síðari hluta febrúar og um svipað leyti með Sýrlandsfólki vegna þess hve margir hafa bæst við í þá ferð.

Hef ekki fengið lista yfir stúlkur frá Nouriu þar sem hátíðin Eid al Adha stendur enn og allt er lokað. Vonast til að heyra frá henni fljótlega. Átta hafa skráð sig sem stuðningsfólk og mig langar að fá fleiri. Ef þið eruð í einhverjum klúbbum eða félögum sem hafa slíkt á stefnuskrá sinni væri gaman að þið kynntuð málið. Þetta eru ekki miklir peningar, 200 dollarar eða jafnvirði þess, en gera óskaplega gott.

Að svo búnu: ég sá í morgun að ég hafði unnið fimmtán þúsund krónur í happdrætti Háskólans. 'I fyrsta skipti sem sú reynsla hefur yfir mig dunið.

Vegabréfin v/Írans væntanleg eftir viku

Ég hafði samband við sendiráð Íslands í Osló til að biðja menn þar á bæ að fylgja eftir áritunarmálunum. Þar var elskulega tekið í beiðni mína og þeir eru nú komnir í málið og munu sjá um að sækja passana í sendiráð Írans og koma þeim til mín. Passarnir verða tilbúnir á föstudag skv. því sem Ester Brekkan í Osló segir mér í morgun og þá verða þeir umsvifalaust sendir áleiðis heim. Vildi bara láta ykkur vita um að þetta gengur allt prýðisvel og allt mun vonandi skila sér.

Bið menn lengstra orða að tilkynna sig á árshátíðina. Við viljum endilega sjá þar sem flesta og elskuríkast senda mér eða skemmtinefndinni imeil þar að lútandi.

Mörg svör hafa borist við getrauninni í fréttabréfi. Haldið áfram. Frestur er til 23.janúar.

Fjölmenni út úr dyrum - mikil þátttaka í ferðum- áríðandi tilkynning frá skemmtinefnd

Sæl öll

Makalaust ánægjulegt hvað fundasókn VIMA félaga er góð. Á fundinum í Kornhlöðunni í dag, laugardag, mættu milli sjötíu og áttatíu manns og sáust heilmörg ný og einkar velkomin andlit. Fagnaðarfundir með gömlum ferðafélögum og allt fór fram í sóma og blóma.
Að vísu forfallaðist Jón Ormur á síðustu stundu en vonandi eigum við hann að síðar.

Mörður Árnason var skipaður fundarstjóri og hvatti hann menn til að kynna sér hinar ýmsu ferðaáætlanir sem lágu frammi og skrifa sig á lista.

Ragnheiður Gyða Jónsdóttir talaði um fimm þúsund ár í sögu Írans og JK tók síðan við og tiplaði á síðustu hundrað árunum og var gerður góður rómur eins og það heitir að máli beggja og menn hlustuðu með blakandi eyru.

Kaffi og kökum gerðu menn góð skil, röbbuðu saman og var þetta ánægjuleg stund í hvívetna.

Eftir að ég kom heim renndi ég svo yfir lista sem menn höfðu skrifað sig á og kom í ljós að mikill áhugi er á ferðum sem fyrirhugaðar eru og ekki þegar uppseldar. Sýnist það liggja fyrir að VIMA menn geri víðreist á árinu 2006 og einnig er mikill vilji til að ferðast saman árið næsta.

Sjá nánar um það í fréttabréfi VIMA og alltaf má hafa samband við mig ef áhugi er fyrir hendi.

Ferðir þessa árs eru:
Óman 30.jan-14.febr, uppseld
Íran 2.-16.mars, uppseld
Sýrland/Jórdanía 6.-21.apríl, uppseld
Jemen/Jórdanía 7.-24. maí, laus sæti (aðeins óljósar dagsetningar en þið sendið fyrirspurnir)
Íran í september - uppseld en skrifa á biðlista

Á árinu 2007 er ætlunin að svipuð áætlun verði í boði en Jemen/Jórdaníuferðin verður þá um páskana, Egyptaland gæti bæst við ef þátttaka næst og í júní 2007 er meiningin að bæta við nýjum áfangastöðum og fara í 3ja vikna ferð til Armeníu, Azerbadjan og Georgíu.
Sýrland/Jórdanía verður þá í maí en Íran í mars og september og Óman vonandi í febrúar.

Svo er hér áríðandi tilkynning frá skemmtinefnd
Árshátíðin verður 24. febrúar og haldin á Kornhlöðuloftinu. Meira um það síðar en skemmtinefnd hefur fest húsið þar sem fyrra húsnæði hvarf út í vindinn. Margir skráðu sig á fundinum en við viljum endilega fá fleiri og vonumst til að þeir geri okkur viðvart hið allra fyrsta.

Ómanhópur aftur fullskipaður - fundurinn á laugardag og sitthvað um vinarán

Ætla bara að segja mönnum að Ómanhópurinn er aftur fullskipaður og það er ánægjulegt hversu snaggaralega var brugðið við. Mun nú láta leiðrétta miða skv. þessu og senda upplýsingar til Ómans um breytingu.

Mjög vinaleg viðbrögð við fréttabréfi VIMA og svör við getrauninni eru að tínast inn. Hvet ykkur eindregið til að senda svör - jafnvel þó þið hafið ekki svör við öllum átta laufléttingunum.

Fyrst og fremst ætla ég þó að minna á fundinn í Kornhlöðu kl. 14 á laugardag. Auk athyglisverðrar dagskrár liggja frammi ferðahugmyndir fyrir 2007 og það er skemmtilegra en frá þurfi að segja að menn eru byrjaðir að skrá sig í þær.

Skemmtinefnd mun einnig greina frá árshátíðarmálum og gestir beðnir að tilkynna þátttöku. Þeir sem hafa þegar tilkynnt sig þurfa vitaskuld ekki að endurtaka það þó. En þetta er á miklum árshátíðartíma og við þurfum að tryggja okkur salarkynni eins og skot.

Á hinn bóginn finnst mér það afleitt til afspurnar að Jemen/Jórdaníuferðin í maí er ekki orðin full. Það er hreint til vansa. Ég hef haft samband við náungana mína í Sanaa vegna frétta þaðan og þeir staðhæfa að sætar löggur og hermenn fylgist grannt með ferðamönnum á flandri um landið til að verja þá frá öllu illu. Hóparnir sem fyrr hafa farið geta svo sem einnig staðfest líka að það er ákaflega vel passað upp á okkur svo það er hreinasta firra að vera smeykur í Jemen.

Það er best að tala hreint út:
Mannrán í Jemen eru dálítið annars eðlis en þegar slíkt gerist annars staðar. Undantekning er að þetta komi fyrir og ef það hefur gerst hefur fólkið verið á stöðum sem þeir hafa ekki leyfi til að vaða inn á. Konum er ekki rænt. Það þykir skömm að slíku. Yfirleitt er ástæða þessara örfáu rána sú að það vantar vatnsveitu í tiltekið þorp eða krafist er betri póstþjónustu osfrv.

Þegar ég bjó í Jemen 2001 var þýskum skólabróður mínum "rænt".
Yemen Times var send mynd af honum í hlekkjum en skólinn var látinn vita að þetta væri "vinarán" svo fjölskylda hans í Þýskalandi gæti verið róleg.
Piltungurinn kom aftur tveimur vikum síðar, gjöfum hlaðinn og hafði fengið meiri þjálfun í arabísku en allan veturinn í skólanum. Hann sagði að um leið og búið var að taka myndina í Yemen Times hefði hann verið leystur úr hlekkjum og slegið upp veislu og dansiballi.
Svo var samið um að bæta sorplögnina til þorpsins og allir voru kátir. Þetta er mjög jemenskt mentalítet og eiginlega alveg út í kött að taka þetta hátíðlega.
Þið græðið á að kynnast Jemen. Meira en ykkur grunar.
Það hvarflar ekki og aldrei að mér að fara með fólk á hættulegar slóðir. En látum ekki um okkur spyrjast að við þurfum að fella niður maíferðina.

Mér þætti afar vænt um ef Jemenfarar 2004 og 2003 skrifuðu inn í ábendingadálkinn.

Kátir Ómanfarar hittust - vegabréf send út í fyrramálið vegna Íransferðar

HÓPURINN sem geysist til Óman þann 30.janúar n.k. hittist í kvöld heima hjá Söru Sigurðardóttur. Borðuðum ljúffengan mat frá Deli og var útdeilt ferðagögnum og farið yfir það helsta sem mönnum lá á hjarta. Mikið skrafað og skemmtu allir sér vel. Á eftir var svo kaffi og einstaklega ljúffengar kökur sem húsfreyjan hafði bakað og ég kom með Ómanmyndböndin sem Hussein Sjehadeh sendi mér og menn horfðu á sér til ánægju.

Því miður forfallaðist skyndilega og ófyrirséð einn ferðafélaginn og því er í augnablikinu eitt laust pláss sem snöggur og snjall félagi getur krækt sér í.

Þakka marsfólki til Írans fyrir að koma til mín öllum vegabréfum og nú hraðsendi ég þau plögg út í fyrramálið og svo koma passarnir vonandi fagurlega stimplaðir til baka og þá mun ég skila þeim snarlega til ykkar.

Nú hafa 25 greitt staðfestingargjald í Íransferðina í september og mun því aðeins skrifa fólk á biðlista.

Eru ekki allir búnir að fá sín fréttabréf með skilum? Insjallah.

Munið svo endilega fundinn á laugardag kl. 14. Þar liggja fram listar með ferðum næsta árs og einnig þátttakendalisti fyrir árshátíðina.

Mér til mestu leiðinda höfum við ekki náð 20 þúsundusta gestinum. Ætli hann skili sér ekki á morgun?

Fréttabréfið á hraðferð til ykkar

Góðan daginn í bæina ykkar

Fyrsta fréttabréf VIMA kom út um helgina og hefur þegar verið borið út til flestra í Reykjavík og önnur voru lögð í póstinn í gær, þ.e. til félaga í Garðabæ, Kópavogi, Mosfellssveit og Álftanesi og annarra staða vítt og breitt um landið enda leynast VIMA félagar á hverju strái.

Fróðlegt væri að þið leyfðuð mér að heyra álit ykkar á þessu fyrsta bréfi. Það verður svo sett inn á síðuna eftir fundinn í Kornhlöðunni næsta laugardag. Við sendum það til allra félagsbundinna svo og ýmissa annarra áhugamanna um menningarmál Miðausturlanda og ferðir.

Af mikilli hógværð lét ritnefndin ekki nafna sinna getið og skal ritnefndarfólk talið hér upp

Oddrún Vala Jónsdóttir
Birna Karlsdóttir
Sigurbjörg Ásgeirsdóttir

Ég bíð nú í ofvæni eftir að menn sendi svör við getrauninni og tilkynni sig á árshátíðina.

Stend í stússi vegna Íransferðarinnar í mars, þ.e. í samningavirðræðum við sendiráð Írans í Osló til að freista þess að marsfarar geti fengið áritun sína áður en ég fer til Ómans í mánaðarlokin. Það væri hentugra í alla staði.
Gæti þó orðið snúið þar sem Eid al Adha, önnur af tveimur helstu trúarhátíðum múslima er að hefjast og þá er allt lok, lok og læs í tíu daga. Við sjáum til með það. Mun hafa samband við hópinn ef útlit er fyrir að þetta takist.

Nouria Nagi í Jemen hefur einnig tjáð mér að hún muni tæpast geta sent mér ný stúlknanöfn fyrr en um það bið sem hátíðinni lýkur af augljósum ástæðum.

Svo það er allt gott að frétta þó ég sé ansi hreint stúrin yfir því að enn vantar nokkuð á að Sýrlandsfarar hafi gert upp sína janúargreiðslu og bið menn nú að vinda að því bráðan bug.

Vona að hver sendi þetta á amk 2 kunningja og við brjótum 20 þúsund gesta múrinn í dag.

Halldóra er fundin ! Ræðismaður í Teheran býður í móttöku

Halldóra er fundin- segiði svo maður hafi ekki ráð undir rifi hverju. Mikið var ég fegin að það skýrðist.

vo hringdi í mig í gær ræðismaðurinn Íslands í Teheran í Íran og sagðist endilega vilja hitta íslenska hópinn sem mætir þar dagana 2.-16. mars. Hann kvaðst vera í óða önn að búa ræðismannsskrifstofu sinni þá umgjörð sem hæfði tignum gestum af Íslandi.

Það eru örfáar sálir sem eiga eftir að borga janúargreiðslu í Íransferðinni í mars, vinsamlegast klára það. Á mánudag þarf ég að ljúka síðustu greiðslu til ferðaskrifstofunnar í Teheran og vil standa í skilum.
Sömuleiðis vil ég benda á að Sýrlandsfarar nokkrir hafa ekki enn gengið frá janúarmálum og bið þá um að vinda sér í það. Ef menn eru í vafa um upphæð - sem allir fengu skilmerkilega svo og dagsetningar- er hið einfalda ráð að hafa samband og spyrjast fyrir.

Fæ á morgun nöfn stúlkna í Jemen sem eru að hefja lestrarnám - þ.e. stúlkur á aldrinum 15-20 sem aldrei hafa gengið í skóla. Allmargir hafa lagt inn á Fatimusjóðinn og þakka fyrir það. Mættu þó bætast við nokkrir í viðbót því ég ætla að senda út greiðslu fyrir tuttugu stúlkur í það.

Einnig hvet ég velunnara Sabra og Sjatilla verkefnisins að láta frá sér heyra. Þeir leggja inn á þann sama reikning.

Jón Ormur Halldórsson talar á fundi VIMA

Þann 14.jan kl. 14 ætlum við að efna til fundar með félögum og gestum þeirra - og nýir félagar eru velkomnir. Fundurinn verður í Kornhlöðunni og Jón Ormur Halldórsson mun verða aðalræðumaðurinn og það þykir mér afar ánægjulegt. Hann ætlar að fara vítt og breitt yfir svið Miðausturlanda og tala um stjórnmálaástand og horfur á því svæði.

Einnig ætlar Ragnheiður Gyða Jónsd að stikla á sögusteinum Írans til forna og hugsast gæti að JK gæti farið nokkrum orðum um Íran nútímans.

Kaffi og kager og sager á boðstólum á hagstæðu verði eins og alltaf.
Ferðaáætlanir 2006 og drög að 2007 liggja frammi og menn geta skráð sig.

Þetta verður tilkynnt nánar síðar en vildi bara láta ykkur vita svo þið takið þennan tíma frá. Finnst mikill fengur að því að við höfum krækt í Jón Orm.

Annað: Halldóra er ófundin. En kannski gefur hún sig fram.
Sýrlandsfarar hafa aldeilis tekið á sig rögg að borga janúargreiðslu og er fegin því. Í þessu má lítið út af bera eins og menn vita. Þá hafa um tuttugu manns greitt staðfestingargjald í septemberferðina í Íran svo brátt loka ég henni en menn geta skráð sig á biðlista eftir næstu viku eða svo.

Munið fundinn þann 14. og látið endilega berast

Húrrahróp af Drafnarstíg

Mér finnst ástæða til að lofa þau snöfurlegu viðbrögð við beiðni minni í gær um lagfæringar/breytingar á heimilisföngum. Rigndi inn á imeilið mitt í gær svo Guðlaug gjaldkeri sat með sveittan hármakkann að færa þetta allt í horf. Nú ættu sem flestir að fá sín fréttabréf og gott til þess að vita að menn hafa áhuga á að fylgjast með.
Ómanhópurinn sem fer út 30.jan. mun hittast í næstu viku, fá þá afhent ferðagögn og miða og þess háttar og horfa á spólur frá Óman. Við ætlum sömuleiðis að fá okkur snarl saman og einn ferðafélaganna, Sara Sigurðardóttir, hefur boðið fram heimili sitt af hinni mestu rausn. Það verður áreiðanlega skemmtilegt.

Ég er hérna með áríðandi orðsendingu: Halldóra sem borgaði inn á reikninginn 2.800 kr er beðin að hafa samband því ég veit ekki hvaða greiðsla þetta er. Fyrir Jemenstúlku?Eða eitthvað annað. Vinsamlegast Halldóra mín hafðu samband við mig.

Íranfarar í mars: allt í góðu horfi þar. Að gefnu tilefni: muna að borga inn á reikninginn 1151 15 550908. Það er sérstakur ferðareikningur VIMA.

Íranfarar í september hafa greitt staðfestingargreiðslu svo til sóma er, vantar þó enn töluvert á að allir sem skráðu sig hafi skilað sér. Gjörið svo vel og drífa í því.

Það á raunar enn frekar við Sýrlands/Jórdaníufara sem ég vona sannarlega að klári janúargreiðslu á morgun, 5.jan.

Þá ber að geta að Jemenfarar í maí eru byrjaðir að borga og þar bendi ég enn á að ég get bætt við nokkrum og eggja ykkur lögeggjan því sú ferð er einstök.

Sammenkomst í allar ferðirnar verður þegar nær dregur.

En sem sagt kæra Halldóra hafðu samband hið fyrsta svo ég viti nánar um þessa greiðslu.

HEIMILISFÖNG - Hjálp

Ritnefndin og gjaldkeri okkar eru í óða önn að kanna heimilisföng félaga til að geta komið okkar gagnmerka fréttabréfi til skila.

Nokkur heimilisföng á reiki. Gjörið svo vel og láta vita snarlega ef þið hafið breytt um heimilisfang eða ekki skrifað þau við innritun.

Munum einnig senda allnokkrum sem hafa ekki formlega gengið í VIMA þar sem við vitum að margir eru áhugasamir.

Bið Eddu Magnúsd. að senda mér heimilisfang og ýmsa sem hafa látið í ljósi áhuga á ferðum en ekki skráð sig en vilja fylgjast með. Það er aðkallandi að þið gerið þetta um hæl.

Skrifa meira seinna í dag.

Lifið sæl og ljúf í tilhlökkun og kæti.