FUNDUR UM LÍBANONS OG SÝRLANDSFERÐINA Í VOR

Áður en menn steypa sér á kaf í jólakökubakstur, tiltekt og allt sem því fylgir væri ráð að efna til fundar með áhugasömum Líbanons og Sýrlandsförum.

Hann verður 13.nóvember kl 14 eh. í gamla stýrimannaskólanum við Öldugötu(fyrir enda Stýrimannastígs). Mæta stundvíslega vinsamlegast.

Þar verður farið yfir áætlunina en einnig verða til sýnis ýms konar góðir og fallegir munir frá þessum löndum, damaskdúkar og teppi og alls konar freistandi gripir.

Svo má ekki gleyma að ég luma á fáeinum sýrlenskum smákökum og við drekkum kaffi eða te og skröfum saman.

Það er sjálfsagt að taka fram að fleiri eru velkomnir á fundinn en þeir sem eru þegar búnir að ákveða sig. Aftur á móti væri kærkomið ef menn létu mig vita sem allra fyrst hvort þeir hyggjast mæta. Vonast því til að heyra frá sem flestum og sem fyrst.

ARABÍUKONUR N'OVEMBERBÓK MÁLS OG MENNINGAR

Mér til óblandinnar kæti hefur Mál og menning sem gefur út bókina mína Arabíukonur- samfundir í fjórum löndum ákveðið að hún verði nóvemberbók og það þýðir að hún verður seld með töluverðum afslætti í nóvember.
Mikið væri nú gaman ef þið tækjuð saman höndum og þyrptust í bókabúðir og fengjuð ykkur eintak.
Þarna segir frá konum í Sýrlandi, Egyptalandi, Óman og Jemen og raunar komið víðar við.

Innheimta félagsgjalda hafin

Ástkæru félagar
Gjaldkerinn okkar, Guðlaug Pétursdóttir hefur hafist handa við að senda rukkun og mun einnig senda gíróseðla til þeirra félaga sem hafa ekki imeil. Margir hafa borgað eftir félagsfundinn á dögunum. En allmargir mættu sinna þessu nú um mánaðamótin. Við treystum á að allir bregðist vel við.

Íransferð í september - óráðin gáta/ Fleiri félaga elskurnar mínar

Það er kominn listi áhugasamra sem vill fara í ferð til Írans og Sýrlands í september 2005. Í augnablikinu er útlitið ekki mjög bjart á að af þessari ferð verði. Mjög trúlegt að verði að fresta henni þar til vorið 2006.
Þið skuluð fara inn á síðuna reglulega og fylgjast með. Enn er í deiglunni að ég fari í viku til Írans síðari hluta nóvember en samt er komið upp smádinglumdangl varðandi það sem gæti orðið til að ferðin frestaðist því ég vil alls ekki fara með hóp nema þekkja almennilega slóðina sem til stendur að fara.

Þá hvet ég ykkur til að útvega fleiri félaga í VIMA. Við viljum vera kröftugur félagsskapur því málstaðurinn er verðugur og með hverjum nýjum liðsmanni vex okkur ásmegin. Ekki spurning um það.
Þegar ég beindi þessum tilmælum til félaga fyrir nokkrum mánuðum brugðu ýmsir við skjótt og skráðu nýja inn. Nú er ráð að gera slíkt hið sama.

Þarf auðvitað ekki að taka fram að allir sem fara í ferðirnar skrá sig eða eru skráðir sjálfkrafa inn í félagið enda er mönnum ljóst að félagar hafa forgang í þær.

MAHER MÁL TÓKU ALLGÓÐAN KIPP

Frá því er gleðilegt að segja að greiðslur inn á Maher reikninginn tóku ágætan kipp eftir að hnippt var í liðsmenn í vikunni. En hafa ber í huga að allnokkrir sem ég reikna með að vilji vera með hafa ekki imeil og væri þá elskulegt ef menn létu þetta berast til þeirra.

Hlutföllin innan hópanna hafa ekki breyst að ráði frá því ég gerði síðast óvísindalega könnun mína. Þó hefur aprílhópur 2004 fjörgast nokkuð en september 2003 þarf að íhuga málin um mánaðamótin. Fyrsti hópurinn í apríl 2002 stendur upp úr og hópurinn nú í september hefur skilað sér eða svona allt að því.

Þakka fyrir það.

Nú þurfa menn að gera upp hug sinn varðandi Sýrlands og Líbanonsferð

Jæja, kæru félagar. Nú þurfa menn að fara að gera upp hug sinn varðandi Sýrlands/Líbanonsferðina 8.-23.apríl. Stefni á að halda fund um ferðina um miðjan nóvember ef mögulegt er.Veit af mörgum sem hafa hug á ferðinni en hafa ekki ákveðið sig endanlega. Það er bráðnauðsynlegt að vera ekki að tvínóna við þetta.

Þið getið kíkt á planið sem er hér undir Sýrland/Líbanon og þar má meðal annars sjá að ferðin í vor verður að því leyti þægilegri en síðustu ferðir að við fljúgum frá Sýrlandi í stað þess að eyða tíma í að fara aftur yfir til Beirút. MALEV flugfélagið er svo ánægt með íslensku viðskiptavinina að það hefur góðfúslega leyft okkur að breyta áætluninni í þessa átt.
Í reynd þýðir þetta meiri tíma, bæði í Beirút og í Damaskus sem er hið jákvæðasta mál.

Vinsamlegast látið þetta ganga og kynnið síðuna meðal skemmtilegra vina og ættmenna.
Ég sé að aðsókn inn á síðuna er í góðu standi en mætti vera meiri. Þar sem ég get ekki auglýst hana sérstaklega af skiljanlegum ástæðum verð ég að treysta á að VIMA félagar láti hana hlaupa á harðaspretti milli ánægjulegs fólks.

Fundur með Egyptalandsförum - þrjú pláss laus

Fundurinn með Egyptalandsförum um páskana tókst ágætlega. Var haldinn í gamla stýrimannaskólanum við Öldugötu í gær, laugardag og mættu þar flestir þátttakenda eða sendu sína fulltrúa. Farið yfir áætlunina og skrafað fram og aftur og fróðleiknum skolað niður með sterku kaffi, döðlum og rúsínum.
Þetta virðist vera hinn mesti prýðishópur og hlakkar til.

Ég bendi þó á að enn eru þrjú eða fjögur pláss laus vegna forfalla af persónulegum ástæðum og ættu menn að ákveða sig snarlega og hafa samband því ferðaskrifstofan Hamis í Egyptalandi sem sér um hópinn þarf að hafa allt á hreinu þar sem gestkvæmt er um páska í landinu.

Vegna olíuverðshækkana að undanförnu er flugmiðaverð duggulítið á reiki en ég hef reynt að áætla sirka og svona hér um bil og því vona ég að verðið sem upp er gefið haldist.
En finnið sem sagt þrjá fjóra og þá erum við í góðum málum.

ARABÍUKONUR Í VERSLANIR EFTIR HELGINA

Ágætu félagar
Bókin mín Arabíukonur- samfundir í fjórum löndum, kemur í verslanir eftir helgina. Þar er sagt frá konum í Sýrlandi, Egyptalandi, Óman og Jemen og rætt við fjöldann allan af konum á ýmsum aldri og af öllum stéttum, allt frá lítilli sölukonu í Jemen og upp(?) í ráðherrakonu í Sýrlandi. Þarna segja konurnar af högum sínum, lýsa áhyggjum sínum og gleði og hugmyndum um Vesturlönd og svo framvegis. Þetta er held ég dálítið óvenjuleg bók og tekið þar á ýmsu sem að öllu jafnaði er ekki fyrirferðarmikið í fjölmiðlaumfjöllun um konur í þessum löndum. Ég held líka að það sé næsta öruggt að karlhöfundur hefði ekki fengið konurnar til að vera jafn opinskáar og þær eru flestar.
Nú sem ég skrifa þetta er ég með erfiðar hríðar og styn mikið því ég er að bíða eftir að fyrstu eintökin komi til mín. Það er merkileg tilfinning að fá nýja bók sína í hendur og ég vil náttúrlega absolútt deila þessum þjáningum/tilhlökkun með ykkur.
Vona að allir velviljaðir og áhugasamir þjóti í bókabúðirnar eftir helgi og kaupi!
Insjallah- ef guð lofar.

Reikningsnúmer fyrir félagsgjöldin

Mikið er gaman að nota alls konar liti. En það hefur verið hringt í mig í morgun að athuga með reikningsnúmer fyrir félagsgjöldin.
Það er 1151 26 2443
og kt. VIMA er 441004-2220
Athugaði áðan stöðu mála og sé að þar verða ansi margir að taka sér tak og vippa greiðslu inn á reikninginn um mánaðamótin.
Allmargir greiddu félagsgjöld á fundinum um daginn en engu að síður eru vanhöld á að menn hafi tekið nógu vel við sér. Eins og ég hef sagt erum við ekki gróðafélag en við verðum að leggja út fyrir ýmsu, ljósritun, salaleigu, ritföngum og frímerkjum og væntanlega C gíróseðlum til þeirra sem eru ekki með imeil.
Svo ágætu náungar. Vinsamlegast hafið þetta bak við bæði eyru.

Samgönguráðuneyti hefur afgreitt með sóma og sann mál johannatravel

Mér hefur borist bréf frá Samgönguráðuneytinu þar sem fallist er á þær skýringar sem við höfum sett fram varðandi það að johannatravel er ekki ferðaskrifstofa. Það er gleðilegt og ber að þakka fyrir það. Ýms atriði í bréfinu eru verð allrar athugunar og sjálfsagt að kynna þau, félögum til glöggvunar svo ekkert fari milli mála.

Atriði úr bréfi ráðuneytisins sem á er bent verða sett hér inn á síðuna undir Hvað er VIMA um helgina, svo og verða ýmsir þættir þess einnig kynntir á janúarfundi félagsins.

Í þessu sambandi er líka ástæða til að þakka kærlega lögfræðilegum ráðgjafa félagsins fyrir drengilega aðstoð.

Um helmingur hefur greitt í Mahersjóð

Ástkæru félagar

Menn hafa verið harla glaðir að greiða í Mahersjóðinn og erum við í VIMA stjórn einkar kát yfir því. Einnig hafa félagsgjöld skilað sér bærilega.

Samt er nokkur athyglisverður munur á hópunum. Og af því ég hef gaman af því að gera lista sé ég að af fjórum hópum sem hafa kynnst Maher er töluverður munur á því hvað menn eru snöggir að greiða.

Fyrsti hópurinn í apríl 2002 hefur greitt vel og rösklega og sumir meira en beðið var um og takk fyrir það.
Annar hópurinn í sept 2003 mætti aðeins íhuga sinn gang.
Þriðji hópurinn í apríl 2004 er svona dálítið hipsumdips í þessu.
Fjórði hópurinn nú í sept 2004 hefur staðið sig með ágætum.

Upphæðin í Mahersjóðinn var 2 þús kr og ég birti enn og aftur reikningsnúmerið 1147 05 401402 og kt. mín 1402403979.
Ástæðan fyrir þessari blíðlegu ábendingu er að senn verður að ákveða hvort af þessu verður í alvöru. Auðvitað látum við ekki annað um okkur spyrjast. En einnig er heilmikil skriffinnska í málinu og þarf að senda plögg út til sönnunar því að Maher komi hingað sem gestur VIMA og áritun fáist greiðlega.
Þá er vert að þakka fyrir hversu margir hafa stungið að okkur hugmyndum um hvernig mætti gera heimsóknina sem fjölbreyttasta. Allt slíkt er vel þegið.


Alls konar smámolar og gúmmulaði

Minni vitaskuld Egyptalandsfara á fundinn 23.október kl 14 í gamla Stýrimannaskólanum við Öldugötu. Athugið ennfremur að ég þarf ekki vegabréfsupplýsingar frá þeim sem hafa ferðast með VIMA félögum í öðrum ferðum.
Það er nauðsynlegt að menn greiði þá staðfestingargjaldið vegna ferðarinnar. Fimmtán þúsund krónur. Ef menn vilja geta þeir einnig lagt það inn á reikninginn
1151 15 550908. kt. mín er eins og alkunna er 1402403979.

Dagsetningar vegna Jemen/Jórdaníu flögra duggulítið til og frá en mér sýnist þátttaka nást og er það vel. Ferðin er fyrirhuguð fyrstu dagana í maí en smávegis möndl með tengiflugin og þess háttar skemmtilegheit. Síðasti staðfestingardagur er 25.nóv. og 1.-10 des. greiðist staðfestingargjaldið, 15 þús. kr.

Líbanon/Sýrland í apríl, dagana 8.-23. apríl. Það breytist ekki og vegna þess hve við erum orðnir kærkomnir og heimsfrægir gestir þar er gefið ögn meira svigrúm en menn þurfa samt sem áður að tilkynna sig í þá ferð ekki seinna en 20.nóv og staðfestingargjald greiðist 1.-10.des. 15 þús. kr.

Vil svo taka fram að það er hið mesta fagnaðarefni hvað menn hafa tekið við sér að greiða í Maher-sjóðinn. Sömuleiðis hafa margir þegar greitt félagsgjöld.
Vona að allir séu í góðum málum og vona að þið verðið dugleg að láta heyra frá ykkur.

Egyptalandfarar vippi sér í að senda upplýsingar

Egyptalandsfarar eru beðnir að vinda sér í að senda nauðsynlegar upplýsingar til mín. Nokkur vanhöld hafa verið á því.
Þær upplýsingar sem ég þarf eru
1. kennitala
2. fæðingarstaður
3.Þjóðerni
4. Starfsheiti
5.Vegabréfsnúmer, útgáfudagur og útgáfustaður

Vegna þess að Egyptalandsferðin er um páskana gera Egyptar kröfu til að fá allar upplýsingar með töluvert löngum fyrirvara. Ég bið ykkur því alúðlegast að senda mér þetta í tölvupósti fyrr en síðar.

Haustfundur VIMA tókst öldungis frábærlega/ Og aðrar upplýsingar af ýmsu tagi

Haustfundur VIMA-Vináttu og menningarélag Miðausturlanda í Kornhlöðunni í gær, laugardag lukkaðist afskaplega vel. Aðsókn var mikil og yfir fimmtíu skrifuðu í gestabók en hátt í sextíu munu hafa verið á fundinum. Urðu fagnaðarfundir gamalla ferðafélaga.
Ragnheiður Gyða og Guðlaug Pé kynntu drög að hugmyndum um dagskrá Maher-heimsóknar næsta sumar. Ýmsar tillögur komu til viðbótar, margir buðu sig fram til að bjóða Maher í ferðir og var auðheyrt að allir vildu taka hið besta á móti honum. Hvatt er til að menn hafi samband annað hvort hér á síðunni eða hafi samband við aðra stjórnarfélaga
Eddu Ragnarsd. varaformann eddar@simi.is
Guðlaug Pétursd. gjaldkeri gudlaug.petursdottir@or.is
Ragnheiður Gyða Jónsdóttir, rgj@dv.is
og Birgi K Johnsson, bkj@isl.is
ef þeir hafa tillögur eða hugmyndir.
JK las síðan úr Arabíukonur og sagði frá Sölmu, hjartalækni í Óman og Fatímu, 14 ára kaupkonu í Jemen og mæltist lesturinn ágætlega fyrir.
Síðan streymdu menn í kaffi og súkkulaðköku og síðan til Gullu að borga félagsgjöld og nokkrir greiddu sömuleiðis í Maher-sjóð.
Númerin eru birt hér aftur til glöggvunar því fjöldi félaga á enn eftir að greiða félagsgjöld og allnokkrir- og eiginlega furðu margir - hafa ekki borgað á Maherreikning þó þeim sé virktavel þakkað sem þegar hafa gert það.

Félagsgjöld greiðist í VIMA kt. 441004-2220 og reikningsnúmer er 1151-26-002443

Mahersjóður er 1147-05-401402
og kt. 140240 3979

MUNIÐ AÐ LÁTA KENNITÖLU YKKAR FYLGJA svo allt sé nú í lagi. VIMA er ekki gróðafyrirtæki en við þurfum að borga sal vegna funda, svo og póstburðargjöld, pappír og ljósritun og þess háttar og því sérstaklega vel þegið að menn séu snarir í snúningum.

Þá lágu frammi ferðaáætlanir fyrir næstu þrjár ferðir sem eru ákveðnar. Fundir um þær verða haldnir seinna og munu Egyptalandsfarar hittast 23.okt. í gamla Stýrimannaskólanum við Öldugötu kl 14. Menn eru beðnir að mæta stundvíslega. Þar verða afhent öll helstu plögg sem tilbúin eru, svo sem upplýsingar um hótel, nákvæmt verð osfrv.

Loks má svo geta að áskrifendur að Arabíukonum sem kemur út á næstunni eru orðnir æði margir en ég tek þó niður á biðlista ef einhverjir vilja bætast í hópinn.
Læt vita á hvaða reikning áskrifendur eiga að borga þegar þar að kemur.

Næsti almenni fundur VIMA verður svo seinni partinn í janúar og vonast stjórnin til að sjá þar vel mætt og fagurlega eins og á fundinum í dag. Allmargir tóku áætlanir og nokkrir skráðu sig í ferðir og ættu að drífa í því. Reglur varðandi hópferðir eru orðnar strangari og nauðsynlegt að staðfestingjargjald fyrir Egyptalandsferð sé greitt fyrir miðjan nóvember. Upplýsingar um hinar ferðirnar þ.e. Sýrland/Líbanon og Jemen/Jórdaníu verða birtar hér áður en langt um líður.
Verulegur áhugi er á ferðunum meðal þátttakenda í námskeiði JK um menningarheim araba sem nú stendur yfir hjá Mími-símennt og er því óákveðnum VIMA félögum ekki til setunnar boðið og ættu að tilkynna sig hið allra fyrsta.

Takk fyrir fundinn. Okkur stjórnarfólki fannst hann prýðilegur og vonandi að þið hafið skemmt ykkur dável líka.


MUNIÐ LAUGARDAGSFUNDINN Í KORNHLÖÐUNNI

Munið fund VIMA í Kornhlöðunni við Bankastræti laugardag, á morgun altso. Kl. 14. Takið með ykkur gesti og mætið stundvíslega.
Við spjöllum um boð til Mahers Hafez og Jóhanna K les úr bókinni Arabíukonur. Þetta er fyrsti upplesturinn úr bókinni væntanlegu.
Svo skrafað og skeggrætt. Áætlanir liggja frammi og kvittanahefti á lofti fyrir þá sem vilja borga árgjald og það vilja ábyggilega allir.
Sjáumst þá.

TIL NÆSTU S'YRLANDSFARA OG ANNARRA LJ'UFLINGA

Eins og Sýrlands/Líbanonsfarar vita eru kvöldverðir í Líbanon ekki innifaldir og hefur svo verið nema síðasta kvöldið hefur verið innifalið. Nú hefur Halabi forstjóri Jasmin í Sýrlandi og Soheil, forstjóri Sunnyland í Beirút fallist á að tveir kvöldverðir verði innifaldir meðan við erum í Beirút og má þá eiginlega segja að allt sé innifalið nema drykkjupeningar til þarlendra leiðsögumanna og bílstjóra. Ég hef þegar vottað Halabi ánægju mína en allt tók þetta samningaþref drjúgan tíma því honum finnst - og mér raunar líka þótt ég orði það ekki við hann- ferðin á afar sanngjörnu verði.
Fundur með Líbanons og Sýrlandsförum verður í lok mánaðarins. Það eru enn laus pláss en þeim fer fækkandi. Hafið samband kærurnar mínar allar.

FUNDUR UM EGYPTALANDSFERÐ 23.OKTÓBER

Við þurfum einlægt að halda fundi, nú stendur fyrir dyrum gleðilegur fundur um Egyptalandsferðina. Hann verður haldinn í gamla Stýrimannaskólanum við Öldugötu laugardag 23.október kl. 14. Þátttakendur sem hafa staðfest sig svo og aðrir volgir eru beðnir að mæta.
Þar deili ég út pottþéttum áætlunum, upplýsingum um hótelin sem við verðum á, svo og hvernig ferðin skal greidd. Kaffisopi eða te og kannski döðlur og rúsínur með.
Vonast til að sjá sem allra flest ykkar þar. Mér kæmi ákaflega vel að vita sirka hvað margir mæta. Þakksamlega þegið að fá upplýsingar þar um.
Stundvíslega því við höfum húsnæðið aðeins í klukkustund.
Sjáumst Egyptalandsfarar 23.okt kl 14.

Munið Maher

Menn hafa verið drjúgir að greiða inn á Mahersboðið. Takk fyrir það.
Endurtek hér reikningsnúmerið af því ég er í kennitölustuði
1147-05-401402 . En þetta er ekki nóg. Þessi reikningur er sumsé á minni kennitölu 1402403979
og í hamingju bænum látið ykkar kennitölu fylgja.

Hvernig var lífið fyrir kennitölur? Man einhver það?
Flestir hafa greitt 2000 kr. Það ætti að duga ef góð samstaða er um málið.

LÍFIÐ GENGUR 'UT Á KENNITÖLUR-NÚ HEFUR VIMA FENGIÐ EINA

Lífið snýst um kennitölur, því höfum við Guðlaug gjaldkeri Pétursdóttir, fengið að kynnast síðustu daga. En nú er VIMA- vina og menningarfélag Miðausturlanda komið með kennitölu og líðanin er allt önnur og stórbetri.
Kennitalan er meðal annars til að þið, elskulegu félagar getið nú lagt félagsgjöldin inn. Kennitalan er 441004-2220. Hvorki meira né minna. Þessi reikningur er EINGÖNGU notaður fyrir félagsgjöld, svo og útlagðan kostnað vegna funda og þess háttar.
Kr. 2000 kr og á eftirfarandi reikning 1151-26-2443.
Og þar sem þetta er ekki nóg bið ég ykkur að skrifa líka ykkar eigin kennitölu svo allt sé nú í himnalagi.
Gulla verður með kvittanahefti á fundinum nk. laugardag og menn geta greitt þá en þetta er sem sagt fyrir þá sem ekki komast á fundinn af aðskiljanlegum en óskiljanlegum ástæðum.

GLEÐITÍÐINDI FYRIR ÁHUGASAMA UM JEMEN/JÓRDAN'IUFERÐ

Það er með hinni mestu kæti að ég get nú tilkynnt áhugasömum VIMA félögum um ferðina til Jemen og Jórdaníu næsta vor að eftir líflegar samningaviðræður og áköf skoðanaskipti mín og ferðaskrifstofanna í Jemen og Jórdaníu sem annast hópinn, hefur verið fallist á eftirfarandi:

Flugferð innan Jemens 220 dollarar eru innifaldir í heildarverði
Kvöldverður í Jórdaníu 22 dollarar síðasta kvöldið í Amman er innifalið.
Auk þess hafði áður tekist að fá bætt við degi í Jórdaníu án þess að verð hækkaði.
Sömuleiðis hafði ferðaskrifstofan fallist á að ferðin inn í Wadi Rum þann magnaða stað yrði innifalin.

Þannig að heildarverðið helst hið sama 235 þúsund og er gott til þess að vita að þá geta menn notað þennan "gróða" til að kaupa enn meira.
Dagsetningar á ferðinni eru ekki staðfestar en mjög trúlegt að reikna megi með 1.-19.maí. Það ætti að skýrast innan tíðar.

Ég hef áður tekið fram að í Jemen/Jórdaníuferðir er fjöldi takmarkaður og getur ekki farið yfir tuttugu manns. Svo nú ættu menn að vippa sér í að staðfesta sig ef þeir hafa ekki þegar gert það.

Nýjar upplýsingar um Egyptalandsferð

Ég hef sett smáviðbætur inn á áætlunina um Egyptaland sem ég bið ykkur að líta á. Þar er tekið fram að vinjabæjarferðin til Feyun verður val hvers og eins því einhverjir munu hafa áhuga á að skoða Kairó betur. Feyunferðin kostar um 30 evrur og telst hálfs dags ferð.
Þá hefur HAMIS ferðaskrifstofan sem sér um hópinn í Egyptalandi boðið til kvöldverðar 29.mars áður en farið er út á flugvöll og er hið besta mál.
Leiðréttingar -til lækkunar raunar- hafa verið gerðar á þjórfé til þarlendra bílstjóra og leiðsögumanna, sjá Egyptaland.
Spurt hefur verið um hvað kvöldverðir kosti dagana í Egyptalandi og auðvitað ekki hægt að svara því nema sirka. Um 8 evrur á mann býst ég við að væri nærri lagi.
Fljótlega eftir helgi verða settar inn lýsingar á hótelunum sem hópurinn dvelur á í ferðinni.
Að endingu: Fundur um ferðina með þátttakendum verður ákveðinn fljótlega.
Loks bið ég svo um vegabréfsupplýsingar- sjá Egyptaland. Þeir sem hafa farið í fyrri VIMA ferðir og eru með sín vegabréf í gildi þurfa ekki að senda mér þær.